18. kafli
Bernhard Osenberg opnaði augun hægt og varlega. Birtan sem mætti honum gaf til kynna að hann væri ekki kominn yfir móðuna miklu heldur væri sennilega á einhvers konar spítala. Hann hreyfði fingurna örlítið og síðan tærnar. Jú, allt virtist vera á sínum stað. Hann fann ekki mikið til en það gat hann þakkað öllum þeim verkja- og deyfilyfjum sem búið var að dæla í hann. Bernhard mundi óljóst eftir slysinu. Þetta hafði allt gerst mjög hratt. Fyrr en varði voru sjúkraflutningamenn að færa hann á börur. Útundan sér hafði hann séð hvernig Helmut var borinn í skyndi í burtu með súrefnisgrímu á andlitinu
Eftir dágóða stund opnuðust dyrnar á sjúkraherberginu og einhverjir komu gangandi inn.
– Góðan dag, ég heiti Hilda, mælti gömul kona á þýsku sem nú stóð við rúmið hans. – Hvernig líður þér?
– Ég finn ekkert til, svaraði Bernhard þvoglumæltur. – Hvað með Helmut? Er hann á lífi?
Gamla konan sneri sér að lækni sem líka stóð við rúmið. Eftir stutt orðaskipti við hann sneri hún sér aftur að Bernhard.
– Hann er á gjörgæsludeild. Hann er í góðum höndum hérna á spítalanum. Við þurfum hins vegar að spyrja þig nokkurra spurninga. Með mér er Örvar Þór, læknir.
Örvar Þór kinkaði vinsamlega kolli til Bernhards.
– Þú ert töluvert meiddur, herra Osenberg, hélt hún áfram. – Það þarf að framkvæma uppskurð á þér til að koma í veg fyrir að mænan skaðist. Doktor Örvar Þór vill vita hvort þú sért samþykkur slíkri aðgerð.
Bernhard hreyfði aftur tærnar örlítið og reyndi að brosa.
– Er ég nokkuð lamaður? spurði hann síðan.
Örvar Þór hristi góðlátlega hausinn og hvíslaði einhverju til Hildu.
– Þú ert með beinbrot á alvarlegum stað nálægt mænunni sem verður að huga að áður en það byrjar að gróa, sagði Hilda síðan.
– Ef læknirinn telur aðgerðina nauðsynlega þá er ég til, svaraði Bernhard eftir stutta stund.
Hilda þýddi svarið yfir á íslensku og læknirinn kinkaði brosandi kolli.
– Ertu með ofnæmi eða tekurðu inn lyf reglulega? spurði Hilda síðan.
Berhard hristi hausinn.
– Þú verður skorinn upp á eftir, sagði Hilda og tók hughreystandi í höndina á Bernhard.
– Hafðu engar áhyggjur, þú ert í mjög góðum höndum!


Tveimur hæðum ofar á sömu sjúkrastofnun lá prófessor Helmut Hartmann á gjörgæsludeild. Hann var í einhverskonar móki og það var eins og hann væri að dreyma. Gamlar minningar sóttu á hann. Voru þetta endalokin? Er ég að deyja? Birtist ævi mín fyrir augu mér eins og kvikmynd?
Viðvörunarbjöllurnar fóru í gang. Enn ein árásin. Ætlar þessu bölvaða stríði aldrei að ljúka?– Það yfirgefur enginn bygginguna fyrr en við höfum eytt öllum þessum pappírum, hrópaði yfirmaður deildarinnar í gegnum flugvélagnýinn
– Hartmann!
– Já, herra!
– Hartmann, þú berð persónulega ábyrgð á því að allir dulmálskóðar verði eyðilagðir!
– Já, herra!
– Hartmann!
– Já, herra!
– Þú gerir þér grein fyrir því hvað gerist ef þess kóðar komast í hendur óvinarins?
– Já, herra!
– Af stað!
– Já, herra!
Helmut Hartmann gekk rösklega af skrifstofu yfirmanns síns og inn í álmuna þar sem dulmálskóðarnir voru geymdir. Hann var að því kominn að opna skápinn þegar fyrstu sprengjurnar lentu. Byggingin skalf og nötraði og Helmut kastaði sér á gólfið. Hann leit til skiptis á skápinn með kóðunum og skrifborðið sitt.
– Nú eða aldrei, hugsaði hann með sér. Síðan stökk hann á fætur, tók bréf úr skrifborðsskúffunni og hljóp sem fætur toguðu út úr byggingunni. Glampandi sólskinið var á skjön við flugvélagnýinn og sprengingarnar.
– Hartmann! Hvert ertu að fara? öskraði yfirmaður deildarinnar á eftir honum.
Helmut snarstoppaði og sneri sér við.
– Ég kem aftur að vörmu spori.
– Kláraðu það sem fyrir þig var lagt. Á stundinni!
Helmut vissi ekki hvort hann ætti að halda áfram eða snúa við. Hann stóð því sem frosinn nokkra metra frá byggingunni og kom ekki upp orði.
Yfirmaður hans hafði tekið upp skammbyssu og beindi henni nú til Helmuts.
– Dauður hermaður er betri en óhlýðinn hermaður, Hartmann! sagði yfirmaðurinn og bjóst til að hleypa af.
Í sama mund þeyttist Helmut langa leið. Tvær sprengjur höfðu nær samstundis lent á byggingunni sem breyttist á einni svipan í brennandi rústir. Allir sem inni höfu verið létust samstundis, þar með talinn yfirmaður deildarinnar.
Helmut skreið vankaður í skjól bak við steinvegg. Hann stakk bréfinu sem bjargað hafði lífi hans inn á sig og tók að hreinsa burt sót og drullu sem safnast höfðu á gleraugun.
Hann hugsði með sér að svo kaldhæðið sem það hljómaði þá hefðu sprengjurnar hjálpað honum að framfylgja síðustu skipun yfirmannsins.
Dulmálskóðarnir voru eyddir en hann var á lífi og með bréfið á sér.

Helmut opnaði augun lítillega. Hjá honum stóð hvítklæddur maður. Helmut sá ekki mjög skýrt en eftir örskamma stund greindi hann að maðurinn sem hjá honum stóð var hann sjálfur, eins og hann hafði litið út mörgum árum áður.
– Ertu kominn til að sækja mig? spurði Helmut í gegnun súrefnisgrímuna. – Er þetta búið?
– Nei, þú verður að dvelja hérna eitthvað lengur, svaraði sá hvítklæddi brosandi. – Þú ert ekki á leið í burtu í bráð.
Helmut lokaði augunum.
Um leið og hann sofnaði velti hann því fyrir sér af hverju hann hefði talað við þennan sjálfan sig á íslensku.
(birta/fela)

This page is powered by Blogger. Isn't yours?