10. kafli
Þessi sérstaka blanda af sólskini og rigningu sem stundum verður til í umhleypingasamri veðráttu Íslands, endurspeglaði líðan Hannesar þennan daginn. Hann sat aftarlega í strætisvagninum á leið til Reykjavíkur. Hvað ættu þau eiginlega að gera við bréfið? Hugsanir þar að lútandi ollu honum miklum áhyggjum en á sama tíma hlakkaði hann mikið til að hitta Sabine aftur.
Skömmu síðar stöðvaðist strætisvagninn og Hannes steig út. Hann var aðeins á undan áætlun því þau höfðu talað um að hittast í hádeginu og klukkan var bara korter í tólf. Það var margt um manninn á Hlemmi en hins vegar lítið af “venjulegu” fólki á miðjum aldri. Unglingar, gamalmenni og rónar voru þeir hópar sem mest bar á. Hannes hafði tekið eftir því á ferðalögum sínum í útlöndum að þar notaði “venjulegt“ fólk almenningssamgöngur miklu meira en á Íslandi. Menn í jakkafötum með skjalatöskur sáust í neðanjarðarlestum Lundúna og í sporvögnum í Frankfurt en sjaldnast í strætó í Reykjavík.
- Hæ!, heyrðist kallað hinum megin götunnar. Þar stóð Sabine og veifaði til Hannesar. Hún var í gallabuxum og rauðri kápu og hárið var bundið saman í tagl. Hún brosti til Hannesar á ómótstæðilegan hátt og Hannes fann blóðið renna fram í kinnarnar.
Hann vinkaði til baka og brosti. Sabine hljóp yfir götuna til Hannesar, greip um axlir hans og kyssti hann þéttingsfast á báðar kinnar.
– Er þér svona kalt?, spurði hún. Þú ert svo rauður í framan?
– Ha, nei, nei.. jú reyndar! Hannes fann fyrir fiðringi í maganum og varð undarlega linur í hjánum allt í einu.
– Ég er með hugmynd, sagði Sabine, varðandi bréfið!
– Þeir vita að ég er með það, sagði Hannes.
– Hvaða þeir?
– Ég veit það ekki, sennilega lögreglan, svaraði Hannes. Það var leitað á mér í tollinum og einhver hafði haft samband frá Frankfurt. Ég laug að ég hefði hent bréfinu í klósettið. Þeir virtust nú alveg trúa mér!
– Ég tók það með mér, sagði Sabine og dró umslagið varfærnislega upp úr vasa á kápunni sinni.
Þau tóku gamla sendibréfið í plastfilmunni út úr umslaginu og skoðuðu það vandlega saman. Hannes átti ekki auðvelt með að skilja slaufulaga skriftina en nafnið framan á gat hann lesið. Dorothea Hirsch.
– Við skulum fara með bréfið í frímerkjabúð, sagði Sabine. Kannski er eitthvað hægt að lesa eitthvað úr þessum stimplum. Ég er búinn að kíkja í símaskrána og það er ein frímerkjabúð á Vitastígnum. Hún heitir Frímerkjahellirinn!
– Frímerkjahellirinn? Hannes hafði aldrei heyrt annað eins nafn á verslun. Honum fannst hins vegar hugmynd Sabine góð og þau héldu af stað í átt að Vitastígnum.
Þegar þangað var komið blasti við þeim lítil og gamaldags verslun. Vörurnar í glugganum, sem voru einhver frímerki og bækur, voru gulnaðar og greina mátti þykkt ryklag í gluggakistunni innanverðri.
– Mér líst ekkert á þetta, sagði Hannes. – Eigum við nokkuð að vera að fara inn?
– Hvað gæti eiginlega gerst?, spurði Sabine brosandi og gekk inn í búðina. Hannes fylgdi á eftir og saman gengu þau að gömlu viðarlitu afgreiðsluborði sem farið var að láta á sjá.
– Halló, kallaði Sabine eftir stutta stund því enginn virtist vera að vinna í búðinni.
– Andartak!, heyrðist kallað djúpri röddu úr herbergi baka til. Stuttu síðar birtist afgreiðslumaðurinn fyrir aftan borðið. Hannes hafði aldrei séð annan eins risa. Maðurinn var örugglega yfir tveir metrar á hæð, vel þykkur og hendurnar á honum voru svo stórar að þær minntu einna helst á tennisspaða. Hann var sennilega kominn yfir sextugt, var næstum sköllóttur með stuttan hökutopp.
– Hvað get ég gert fyrir ykkur krakkar mínir?, spurði risinn og brosti góðlátlega til Hanneasar og Sabine.
– Sæll, Ég heiti Sabine og þetta er Hannes, sagði Sabine. Okkur lagaði að tala við einhvern sérfræðing í stimplum!
– Ég heiti Reynir og ætti að geta hjálpað ykkur sjálfur. Ég hef lítið annað gert síðastliðin 40 ár en að skoða frímerki og stimpla!
– Sjáðu þetta bréf!, sagði Sabine og dróg umslagið upp úr kápuvasanum. Innan úr því sótti hún gamla gulnaða bréfið og lagði það á borðið fyrir framan manninn.
– Látum okkur sjá, sagði Reynir og sótti gleraugu upp úr brjóstvasanum. Hann settist við afgreiðsluborðið og kveikti á litlum lampa sem á því stóð. Síðan tók hann gamla bréfið varfærnislega og virti það fyrir sér.
– Þessu hefur aldeilis verið vel pakkað inn, hélt Reynir áfram. Svona er nú yfirleitt bara gert við verðmæt bréf og skjöld sem alls ekki má opna eða eiga neitt við!
Reynir sótti stækkunargler í skúffu á borðinu og rýndi á bréfið framanvert. Hann gaf sér góðan tíma, skoðaði utanáskriftina, frímerkin og stimplana hátt og lágt. Síðan sneri hann því við og skoðaði bakhliðina. Þar var líka stimpill en engin skrift. Eftir dálítinn tíma tók hann af sér gleraugun og leit til skiptis á Sabine og Hannes.
– Hvar fenguð þið þetta bréf?, spurði hann síðan.
– Það var einhver kall sem gaf mér það, svaraði Hannes og komst þar nokkuð nærri sannleikanum.
– Hvers konar bréf er þetta?, spurði Sabine. Er þetta venjulegt sendibréf?
– Ég veit ekki hvað þið eruð vel að ykkur í mannkynssögunni krakkar, svaraði Reynir, – en þetta bréf er síðan úr seinni heimstyrjöldinni. Framan á bréfinu eru tveir ólíkir stimplar og aftan á því er líka stimpill. Bréfið er stílað á konu í Dresden í Þýskalandi. Það er sent frá Austurríki, nánar tiltekið Vínarborg rétt undir lok stríðsins. Það sé ég á öðrum stimplinum framan á og svo auðvitað á frímerkjunum. Á þessum tíma var Austurríki undir ógnarstjórn nasista sem höfðu innlimað landið inn í Þýskaland við upphaf styrjaldarinnar. Síðan þegar Þjóðverjar undir stjórn Hitlers töpuðu stríðinu var Austurríki hersetið af Bandaríkjamönnum, Frökkum, Bretum og Rússum allt þangað til landið varð að lýðræðisríki 1955.
Reynir leit aftur örstutt á bréfið og hélt svo áfram.
– Það eru þrjú atriði sem gera þetta bréf ykkar svona sérstakt. Í fyrsta lagi er stimpillinn aftaná umslaginu enginn venjulegur stimpill heldur sérstakt póstmerki sérsveita þýsku lögreglunnar SS. Í öðru lagi er bréfið óopnað og þar af leiðandi ómögulegt að segja til um innihald þess. Í þriðja lagi....
Reynir tók upp stækkunarglerið og rýndi enn á ný framan á bréfið.
– Þetta er mér með öllu óskiljanlegt, hélt hann síðan áfram. Hinn stimpilinn framan á er frá árinu 1952 en þá voru það meðal annars Rússar sem réðu ríkjum í Austurríki. Þessi stimpill er frá þeim. Þetta bréf hefði verið gert upptækt ef það hefði fundist á þessum tíma og innihaldið hefði verið skoðað. Kannski hefur bréfið lent aftur í pósti fyrir einhverja slysni.
– En af hverju hefur bréfið verið sent tvisvar?, spurði Hannes. Hvernig getur sama bréfið fengið tvo mismunandi stimpla?
– Ef bréf er til dæmis endursent eða sent á annað heimilsfang en upphaflega er skrifað til, þá fær það stundum annan stimpil, svaraði Reynir. Hins vegar eru báðir stimplarnir frá Vín og með margra ára millibili. Bréf frá seinni heimstyrjöldinni hefði aldrei verið send af stað frá Austurríki eftir stríð án þess að vera skoðað nákvæmlega. Að auki er þetta bréf með póstmerki SS og allt sem tengdist nasistum á einn eða annan hátt var gert upptækt í stríðslok. Þá fóru fram réttarhöld um stríðsglæpi Þjóðverja og því voru öll gögn þar að lútandi, talin mjög mikilvæg.
– Er þessi Dorothea Hirsch þá kannski einhver stíðsglæpamaður?, spurði Sabine.
– Það þarf ekki að vera, svaraði Reynir. Þetta gæti auðvitað verið ósköp venjulegt bréf. Hins vegar gæti þetta nafn líka verið dulnafn og að engin Dorothea Hirsch sé til.
Reynir klóraði sér í hnakkanum og gretti sig.
– Kannski var bréfið sent seinna aftur af stað af einhverjum ásetningi, hver svo sem hann gæti hafa verið. Þetta er ótrúlegt. Sennilega er svarið að finna í bréfinu sjálfu, sagði Reynir og leit spyrjandi á Hannes og Sabine.
– Nei, bréfið verður ekki opnað í bili, sagði Hannes og tók bréfið af borðinu.
– Það er ykkar að ákveða það, sagði Reynir. En ef þið viljið selja bréfið eða koma því á uppboð þá skal ég hjálpa ykkur. Ég gæti auðvitað boðið ykkur einhvern hundrað þúsund kall fyrir en það væri óheiðarlegt af mér því það er miklu meira virði!
– Hundrað þúsund? Miklu meira virði?, sagði Hannes og trúði ekki sínum eigin eyrum.
– Ég hef aldrei heyrt um þessa tvo ólíku stimpla saman, sagði Reynir. – Verðmæti bréfsins veltur sennilega á milljónum!
(birta/fela)

This page is powered by Blogger. Isn't yours?