11. kafli
Það jafnast enginn matur á við nýjan íslenskan fisk. Hannes hámaði í sig steikta ýsu með kartöflum og salati. Fjölskyldan sat þögul í eldhúsinu og borðaði eins og það hefði ekki verið matartími í heila viku. Það var ágætis mælikvaði á hvernig smakkaðist að fylgjast með hve mikið var talað saman í matartímanum. Ef enginn sagði neitt var maturinn yfirleitt frábær.
Hannes rifjaði upp atburði dagsins. Bréfið verðmæta olli honum og Sabine heilabrotum. Þau höfðu ákveðið að kanna málið á eigin spýtur. Var þessi gata í Dresden til? Hvað með Dorotheu Hirsch? Hafði hún einhvern tíma verið til? Var hún ennþá lifandi? Sabine hafði komið með þá hugmynd að þau myndu hittast daginn eftir og hafa samband við þýska sendiráðið. Kannski fengju þau þar einhverjar upplýsingar sem varpað gætu ljósi á málið. Eftir heimsóknina í Frímerkjahellinn höfðu þau labbað niður Laugarveginn og spjallað saman. Hannes sagði Sabine frá viðbrögðum pabba síns þegar sá fékk að vita hverra manna hún væri. Það var skemmtileg tilviljun að Einar, pabbi Sabine, og Ingibjörg, mamma Hannesar, hefðu einhvern tíma verið vinir, jafnvel kærustupar.
Sabine sagði Hannesi síðan meira frá fjölskyldu sinni. Móðir hennar var búin að vera lengi veik. Hún átti við þunglyndi að stríða og hafði oft dvalið lengi á spítölum. Þetta hafði verið erfitt fyrir alla í fjölskyldunni, sérstaklega Sabine og nú höfðu foreldrar hennar ákveðið að hún flytti til pabba síns í bili. Hannes hafði oft heyrt foreldra sína tala um þunglyndi og vissi þess vegna vel hvernig Sabine leið. Afabróðir hans í föðurætt hafði verið erfiður í umgengni og lengi vel var sagt að hann væri þungur í skapi; lokaður og geðstirður. Hann hafði síðan að lokum látið til leiðast og farið til geðlæknis. Þá hafði strax komið í ljós að hann væri með þunglyndi. Eftir langa lyfjameðferð og viðtöl bæði hjá geðlækni og sálfræðingi tókst honum síðan að snúa blaðinu við og ná heilsu.
Sabine gladdist að heyra þetta. Hún vonaði að mamma sín næði sér einhvern tímann en þunglyndið hafði verið til staðar síðan Sabine mundi eftir sér. Stundum komu langir kaflar þar sem allt lék í lyndi og mamma hennar var í góðu jafnvægi en þess á milli var ástandið oft mjög erfitt.
Þegar síðan Sabine og Hannes kvöddust hafði hún kysst hann á kinnina og þakkað honum fyrir skemmtilegan dag. Hannes strauk sér nú í framan þar sem hann hafði verið kysstur fyrr um daginn og hugsaði til þessarar skemmtilegu þýsk-íslensku stelpu.
– Ertu með tannpínu, Hannes minn? spurði mamma hans.
– Nei, nei. Ég var bara að hugsa, svaraði Hannes.
Fiskurinn var búinn og Andvari bar ís á borðið í eftirrétt. Steinunn systir Hannesar sat beint á móti bróður sínum við matborðið. Hún leit með reglulegu millibili á úrið sitt og virtist ekkert sérlega lystug.
– Hvaða krakkar komu á laugardaginn? spurði Ingibjörg.
– Þau eru öll að vinna með mér í Hagkaup, svaraði Steinunn. – Þið þekkið þau ekki neitt.
– Varstu með fullt hús af einhverju liði? spurði Andvari áhyggjufullur. – Þér væri nær, fyrst þú ert að halda partý á annað borð, að bjóða bekkjarfélögum þínum úr menntaskólanum. Ég vil ekki hafa ókunnuga valsandi um húsið okkar þegar ég er ekki heima!
– Æi, pabbi, sagði Steinunn.
Ingibjörg leit blíðlega til Andvara.
– Andvari minn, láttu ekki svona elskan! Þetta hefur allt gengið vel. Það er allt á sínum stað. Þetta eru bara krakkar! Hvað gerðuð þið ykkur til skemmtunar?
– Við tókum mynd á leigunni og svo hlustuðum við á tónlist, svaraði Steinunn og leit aftur á úrið.
– Áttuð þið nokkuð við gömlu plöturnar mínar? spurði Ingibjörg brosandi en ákveðið.
– Neeei, ekki mikið, svaraði Steinunn hikandi.
Ingibjörg spratt á fætur og skundaði inn í stofu. Steinunn fór á salernið og Hannes og Andvari tóku til af matarborðinu.
– Hvar er “Með allt á hreinu”? heyrðist kallað innan úr stofu.
– Ég veit það ekki, heyrðist svarað úr baðherberginu.
Ingibjörg kom inn í eldhús.
– Það hefur einhver tekið plötuna! sagði hún alvarleg í bragði. – Þetta er platan sem þeir árituðu fyrir mig í Atlavík um árið! Það er bókstaklega ekki hægt að treysta þessum krökkum. Einhver hefur stolið plötunni!
Í þessu hringdi dyrabjallan. Hannes stökk fram í andyri og opnaði útidyrnar. Fyrir utan stóð pizzusendillinn frá deginum áður.
– Við pöntuðum enga pizzu! sagði Hannes og átti sig síðan á því að sendillinn var alls ekki með neinn pizzukassa í fanginu.
– Er Steinunn heima? stamaði sendillinn loks út úr sér.
Ingibjörg var komin fram í andyrið. Hún leit hvöss á gestinn sem stóð í gættinni.
– Stalst þú Stuðmönnum?
– Stuðmönnum?
Síminn hringdi.
– Ég tek símann, kallaði Andvari.
Steinunn birtist nú í forstofunni og klæddi sig í strigaskó og fór í jakka.
– Við Fjölnir ætlum í bíó, sagði hún síðan. Ég kem kannski seint heim. Bless.
Þar með var hún rokin í bíó með pizzusendlinum Fjölni.
– Hvað hefur eiginlega orðið um plötuna mína? sagði Ingibjörg örvæntingarfull og leit til Hannesar.
– Ertu búin að kíkja á plötuspilarann sjálfan? stakk Hannes upp á.
Ingibjörg rauk beint inn í stofu og af fagnaðaröskrinu að dæma sem á eftir fylgdi mátti ráða að platan væri loksins fundin. Hannes gekk inn í stofu.
– Plötuumslagið er hérna líka, það hefur dottið uppfyrir græjurnar, sagði Ingibjörg.
– Ertu búin að finna Stuðmennina þína? spurði Andvari sem nú kom innan úr eldhúsinu þar sem hann hafði verið að tala í símann.
– Hver var að hringja? spurði Ingibjörg.
– Það koma menn til mín í heimsókn annað kvöld, svaraði Andvari. – Þetta eru Þjóðverjar. Þeir eiga eitthvað erindi við mig og ég held að þetta tengist útgáfumálum okkar í Þýskalandi. Það var samt skrítið að sá sem hringdi talaði íslensku og kynnti sig sem fornafni. Hann heitir Helmut.
Hannesi rann kalt vatn milli skinns og hörunds.
(birta/fela)

This page is powered by Blogger. Isn't yours?