15. kafli
– Þetta er ótrúlegt. Ég hef aldrei séð annað eins!
Bernhard Osenberg og prófessor Helmut Hartmann sátu hlið við hlið í japönskum bílaleigubíl á leið til Reykjavíkur frá Keflavíkurflugvelli. Bernhard sat við stýrið en átti fullt í fangi með að einbeita sér við aksturinn. Öll athygli hans beindist að því sem fyrir augu bar á leiðinni.
– Allt þetta hraun, sagði Bernhard. –Þetta er eins og... eins og...
– ..eins og á tunglinu, botnaði Helmut. – Það finnst flestum sem koma hingað í fyrsta sinn. Þetta breytist um leið og við komum til höfuðborgarinnar.
Bernhard var litið þvert yfir hraunið.
– Sjáðu Helmut! sagði hann. – Sjáðu, reykinn þarna. Erum við á eldfjallasvæði?
– Hér á þessu svæði hefur ekki orðið eldgos í þúsundir ára, svaraði Helmut. – Það sem þú sérð er kallað Bláa lónið. Þangað koma gestir hvaðanæfa að til að baða sig í heitu vatninu.
– Nú fer ég að skilja þessa Íslandsáráttu þína, Helmut, sagði Bernhard. – Þetta er öðruvísi en allt sem ég hef séð hingað til! Bíddu við. Er þetta jökull þarna handan hafsins?
– Snæfellsjökull. Þangað koma líka fjölmargir á hverju ári.
– Líka til að baða sig? spurði Bernhard.
– Nei flestir koma til að dást að jöklinum en svo telja margir að þarna lendi einhvern tíma geimverur.
– Geimverur?
– Af hverju ekki? Prófessor Hartmann brosti í laumi. – Þetta er ekki verri staður en hver annar til að sækja jörðina heim.
Bernhard hristi hausinn. Prófessorinn var greinilega ekki með öllum mjalla. Nokkrar mínútur liðu án þess að nokkur mælti orð af vör.
– Er þetta eini malbikaði vegurinn á Íslandi? spurði Bernhard allt í einu.
– Af hverju það?
– Ég sé enga fólksbíla. Það eru allir á himinháum jeppum.
– Nei, Bernhard minn. Þó að hér séu engar hraðbrautir þá eru flestir vegir malbikaðir. Þessi jeppadella hjá Íslendingum er alveg sérstakt fyrirbæri. Reyndar getur snjóað hér hressilega á veturna og þá er gott að vera á stórum bíl.
Bernhard skipti skyndilega um umræðuefni.
– Helmut. Nú erum við komnir til Íslands. Segðu mér nú loksins frá þessu bréfi.
Prófessor Helmut Hartmann hafði verið með hressara móti eftir að þeir komu út úr flugvélinni. Nú leit hann þungur á brún í gaupnir sér. Síðan tók hann af sér gleraugun og byjaði að pússa þau. Eftir skamma stund tók hann síðan til máls.
– Mér hefur sjaldan brugðið jafn mikið eins og þegar ég fékk bréfið í hendur. Gamlar minningar sóttu á mig og ég upplifði á ný atburði sem ég var búinn að reyna að gleyma, atburði sem áttu sér stað fyrir meina en hálfri öld síðan. Ég var staðsettur í Vín þegar að seinni heimstyrjöldinni lauk.
– Þetta veit ég, sagði Bernhard óþolinmóður. – Heyrðu mig nú. Það er byjað að rigna og það var blankandi sólskin þegar við lentum.
– Það getur orðið sleipt á þessum vegi þegar rignir, sagði Helmut. – Aktu ekki alveg svona hratt!
– Hafðu engar áhyggjur, ég er ýmsu vanur, svaraði Bernhard. – Hvað er nú þetta? Kross hérna við veginn. Er þetta er einhver útikapella?
– Nei þetta er minnisvarði um þá sem hafa látist hérna á þessum vegi í umferðarslysum.
– Menn verða að kunna að keyra við svona aðstæður, sagði Bernhard og sneri sér í hálfhring í bílstjórasætinu til að skoða krossinn betur.
Þegar hann leit aftur fram var bíllinn kominn út í kantinn. Bernhard tók snöggt í stýrið en við það missti hann algerlega stjórn á bílnum sem rann þvert yfir akreinarnar á móti og endasentist út í hraunið. Eftir nokkrar veltur lá japanskur bílaleigubíllinn á hvolfi langt utan vegar og annað afturdekkið snerist í rigningunni.
Fjölmargir vegfarendur urðu vitni að slysinu og eftir skamma stund voru sjúkrabílar og lögregla komin frá Hafnafirði. Merkja mátti að báðir farþegarnir væru enn á lífi en greinlega mikið slasaðir. Um það leiti sem sjúkrabílarnir héldu til höfuðborgarinnar lagði annar japanskur bílaleigubíll í vegkantinn skammt frá slysstað. Ung hávaxinn kona með sítt dökkt hár og svört sólgleraugu steig út úr bílstjórasætinu og gekk til hóps manna sem var að fylgjast með. Þar spurði hún á bjagaðri ensku hvað hefði komið fyrir. Hún fékk þau svör að á einhvern óskiljanlegan hátt væru báðir sem í bílnum voru enn á lífi; bílstjóri á miðjum aldri og annar eldri. Sennilega væri um útlendinga að ræða því þeir voru á bílaleigubíl.
Lena Andermann gekk hröðum skrefum til baka að bílnum sem hún hafði komið á og settist inn. Hún tók niður sólgleraugun og sótti farsíma í handtöskuna. Hún valdi númer í Þýskalandi.
– Málið hefur tekið nýja stefnu, sagðu hún í símann eftir stutta stund. – Herra Osenberg og Prófessor Hartmann lentu í umferðarslysi. Þeir voru ekki komnir á áfangastað. Kannski eru einhverjar vísbendingar í farangri þeirra um hvert leið þeirra lá. Ég athuga það mál við fyrsta tækifæri.
– Við vitum hvert leið þeirra lá, sagði Ludwig Kranovic á hinum enda línunnar. – Ég sendi þér heimilsfangið með SMS um hæl. Þetta er venjuleg fjölskylda sem býr í nágrenni höfuðborgarinnar. Sá sem veit um bréfið er aðeins 15 ára.
– Hvað má ég ganga langt? spurði Lena
– Þú gengur eins langt og nauðsyn krefur!
(birta/fela)

14. kafli
Þýska sendiráðið á Íslandi er til húsa við Laufásveg í Reykjavík. Fyrr um morguninn hafði Sabine hringt þangað og talað við Guðrúnu nokkra Stolz. Guðrún þessi vann við almannatengsl fyrir sendiráðið, auk þess að sinna ýmsum óvenjulegum málum sem þar á borð komu. Sabine hafði síðan hringt í Hannes og svo höfðu þau mælt sér mót fyrir utan sendiráðið eftir hádegið. Hannes hafði fengið far með mömmu sinni til Reykjavíkur og hún hafði hleypt honum út á Lækjartorgi.
Það var hlýtt í veðri og sól en dálítið hvasst. Hannes var í nýjum fötum sem mamma hans hafði keypt í Frankfurt og með derhúfu á höfðinu. Sjálfur hafði hann keypt sér sólgleraugu í sömu ferð og nú var hann með þau í fyrsta skipti.
– Ég ætlaði varla að þekkja þig, sagði Sabine og smellti kossi á vangann á Hannesi.
– Maður verður að klæða sig eftir veðri, svaraði Hannes brosandi.
– Hannes!
Hannes og Sabine litu yfir götuna.
– Dísus kræst, hvíslaði Hannes lágt.
– Hæ, Hannes, langt síðan maður séð þig. Hvar ertu búinn að halda þig?
Stelpa á svipuðu reki og Hannes og Sabine kom labbandi yfir götuna.
– Hæ Gunnhildur, sagði Hannes.
– Sæl, ég heiti Sabine, sagði Sabine brosandi og rétti fram höndina til að heilsa Gunnhildi.
Gunnhildur leit forviða á höndina, síðan á Hannes og loks á Sabine.
– Hæ, sagði hún loks með töffaralegt bros á vör en tók ekki í höndina á Sabine.
Gunnhildur Fransdóttir var bekkjarsystir Hannesar. Hún bjó m.a.s. í sömu götu og hann og þau höfðu þekkst vel síðan þau voru lítil. Mamma Gunnhildar var kölluð Sissa og hún og Ingibjörg mamma Hannesar voru miklar vinkonur. Fjölskyldurnar höfðu oft farið saman í ferðalög og Hannes og Gunnhildur voru miklir vinir alveg þangað til þau voru orðin 12 ára gömul. Þá gjörbreyttist Gunnhildur á einum vetri. Áður hafði hún allaf verið skemmtileg og í góðu skapi en nú hafði hún allt á hornum sér. Hannes var ekki nógu “cool” vinur og að auki var hún hætt að þola foreldra sína. Þréttán ára gömul var Gunnhildur svo komin á fast með strák sem var að byrja í Verslunarskólanum. Mamma hennar og pabbi vildu allt fyrir hana gera en aldrei var hún ánægð. Það eina sem Gunnhildi fannst skemmtilegt var að fylgja nýjustu straumunum í tískuheiminum. Þetta áhugamál hennar var dýrt og sífellt var hún klædd og sminkuð eins og fyrirsætur í glanstímaritum. Þar til viðbótar átti hún alltaf nýjustu geisladiskana og var búin láta Hannes heyra það oftar en einu sinni að hann hefði glataðan tónlistarsmekk. Hver nennir eiginlega að hlusta á þessa hallærislegu bítlatónlist? Hannes hafði áður fundist Gunnhildur dálítið sæt en sú hrifning hafði minnkað með hverju árinu sem leið. Nú stóð hún þarna á móti þeim og bliknaði algerlega í samanburði við Sabine.
– Hannes, geturðu lánað mér þúsundkall?
– Þúsundkall? bíddu aðeins. Hannes fálmaði í rassvasann og fann tvo þúsund króna seðla.
– Lánaðu mér tvö þúsund, sagði Gunnhildur meira skipandi en biðjandi þegar hún sá báða seðlana.
Hannesi brá. Það var eitthvað skrítið í fari Gunnhildar. Hún var ekki eins og hún var vön að vera. Að vísu voru fötin samkvæmt nýjustu tísku en þau voru krumpuð og einhvern veginn var Gunnhildur dálítið drusluleg. Hún var líka svo einkennileg til augnanna. Það var eins og hún væri nýbúinn að hágráta og þegar hún leit á Hannes var eins og hún væri ekki að horfa á hann.
Gunnhildur þreif seðlana til sín og brosti vandræðalega. Í sama mund ók silfurlitaður sportbíll upp að gangstéttinni hjá þeim. Tveir töffarar á menntaskólaaldri sátu í bílnum. Annar opnaði gluggann og kallaði til Gunnhildar.
– Ertu að koma Gunnsa?
Sá sem sat í farþegasætinu opnaði dyrnar og steig út. Hann setti sætið fram og Gunnhildur stökk inn. Síðan settist hann aftur inn í bílinn og leit glottandi til Hannesar.
– Krakkar mínir. Vinka bless!, sagði hann og geiflaði sig framan í Hannes og Sabine.
Það rauk úr dekkjunum þegar sportbíllinn spólaði af stað og hláturinn í þremenningunum hljómaði í gegnum ískrið. Hannes og Sabine stóðu orðlaus eftir á gangstéttinni.
– Það var aldeilis, sagði Sabine eftir stutta stund.
– Nú er Gunnhildur lent í einhverju rugli, hugsaði Hannes og vorkenndi þessari fyrrum vinkonu sinni.

Klukkutíma síðar sátu Hannes og Sabine á skrifstofu Guðrúnar Stolz í þýska sendiráðinu. Gömul antikhúsgögn prýddu skrifstofuna og á veggjunum voru íslensk landslagsmálverk og svo önnur sem ekki voru máluð að íslenskri fyrirmynd; til þess voru trén á þeim aðeins of há og of mörg. Á skrifborðinu voru þrír fánar: íslenski fáninn, sá þýski og svo fáni Evrópusambandsins. Guðrún Stolz var virðuleg kona á miðjum aldri sem minnti einna helst á einkaritara í gamalli bíómynd. Á borðinu fyrir framan hana var fartölva af nýjustu gerð og á veggnum fyrir aftan hana hékk mynd af þýska kanslaranum.
– Hvað segiði krakkar, eruð þið að leita að einhverjum í borginni Dresden?
– Okkar vantar að vita hvort ákveðið heimilisfang er til, sagði Hannes. – Við þurfum að komast í samband við þá sem eiga heima þar í dag. Kannski geta þeir hjálpað okkur.
– Ja, þú segir nokkuð. Og þið haldið að ég geti hjálpað ykkur?
– Við vorum að vona það, svaraði Sabine. – Við vorum að vona að kannski væru til gamlar skýrslur eða símaskrár frá Þýskalandi hérna í sendiráðinu.
Guðrún Stolz skellti upp úr. – Nei krakkar mínir, það væri full mikið af því góða ef að sendiráðið væri fullt af svoleiðis gögnum. Við vinnum fyrst og fremst í þeim málum sem lúta að samskiptum Íslands og Þýskalands.
Hannes og Sabine litu vonleysislega hvort á annað.
– Eruð þið búinn að kíkja á netið? spurði Guðrún.
– Netið? Nei, okkur hafði ekki dottið það í hug, svaraði Hannes.
Guðrún sneri sér að tölvunni sem stóð á skrifborðinu og byrjaði að slá á lyklaborðið.
– Ég hélt að þið unga fólkið væruð betur að ykkur í tölvumálum en ég, sagði Guðrún. – Hvaða heimilisfangi eruð þið að leita að?
Sabine sagði henni það og Guðrún sló götuheitið inn. Eftir nokkra stund hristi hún höfðuðið.
– Nei krakkar mínir. Þessi gata er ekki til.
– En í seinni heimstyrjöldinni, var þessi gata kannski til þá? spurði Sabine.
– Þú meinar það, sagði Guðrún. – Fáar borgir í Þýskalandi urðu eins illa úti í stríðinu og Dresden. Á tveimur sólahringum var hún gjörsamlega lögð í rúst.
Guðrún leitaði um stund á netinu en hristi svo hausinn á ný.
– Ég finn ekkert kort af Dresden frá þessum tíma en ég skal senda fyrirspurn til aðila í Þýskalandi sem gæti hjálpað ykkur. Ég ætti að fá svar í síðasta lagi á morgun.
Guðrún brosti til krakkanna. – Ég skal hringja í ykkur þegar svarið er komið.
Hannes gaf henni upp farsímanúmerið sitt og Guðrún sló það beint inn í tölvuna.
– Beint í “Outlookið”, sagði Guðrún. – Tæknin er til þess að hjálpa manni.
Hannes og Sabine þökkuðu fyrir sig og gengu út úr sendiráðinu og niður í miðbæ.
– Gatan er ekki til, sagði Hannes. – Kannski var hún aldrei til. Þetta er örugglega eitthvað tengt njósnum og prófessorinn er sennilega hættulegur stríðsglæpamaður!
– Það getur ekki verið! Við förum saman í bíó í kvöld og þú sleppur við að hitta kallana. Á morgun vitum við síðan vonandi meira, sagði Sabine. – Eigum við ekki að bíða og sjá hvað gerist?
– Sammála, sagði Hannes. Ég hringi í þig á eftir og þá getum við ákveðið hvar við hittumst í kvöld
Sabine og Hannes gengu saman um stund án þess að segja neitt. Þegar þau voru komin niður í miðbæ leit Sabine beint í augun á Hannesi. Hún brosti vandræðalega.
– Ferðu stundum í bíó með þessari Gunnhildi?
(birta/fela)

This page is powered by Blogger. Isn't yours?