6. Kafli
„Velkomin heim!“
Hannesi fannst það alltaf jafn fyndið að flugfreyjurnar hjá Flugleiðum skyldu bjóða alla farþega velkomna heim í gegnum hátalarakerfið þegar fluginu til Keflavíkur var lokið og flugvélin á leið upp að landgöngurananum. Auðvitað var þetta notalegt fyrir Íslendingana um borð en aðrir farþegar voru hins vegar ekki á neinni heimleið. Hvað um það, þeir skyldu hvort eð er fæstir íslensku og þar af leiðandi skipti þetta ekki svo miklu máli.
Þetta ferðaleg var orðið eitt það ánægjulegasta sem Hannes hafði upplifað lengi. Sabine var ótrúlega skemmtileg, sérstaklega af stelpu að vera. Hún var líka laus við alla tilgerð, ekkert að sýnast og ansi sæt. Þau höfðu spjallað saman um heima og geima á leiðinni og höfðu komist að því að þau ættu sameiginleg áhugamál og hefðu svipaðan tónlistarsmekk.
– Það kemst engin hljómsveit með tærnar þar sem Bítlarnir hafa hælana, sagði Sabine.
– Mér finnst þeir frábærir, sérstaklega síðustu plöturnar þeirra, bætti Hannes við. Queen eru líka góðir eða voru góðir þegar Freddy Mercury var enn á lífi og söng með þeim!
„I want to break free.“ Hannes hélt um endann á öryggisbeltinu og söng með tilheyrandi tilþrifum byrjunina á uppáhalds laginu sínu með Queen. Sabine greip um sitt öryggisbelti og söng með.
Flugvélin hafði stöðvast og farþegar stóðu á fætur.
– Ætlarðu að hjálpa mér með pokana? Ingibjörg leit biðjandi til Hannesar.
– Þetta er svo mikið, sagði hún, ég nú bara með tvær hendur!“
Farþegarnir voru byrjaðir að mjakast út og Hannes sá á eftir Sabine þar sem hún gekk í átt að rananum. Hún sneri sér við og brosti til hans. Hannes brosti til baka. Hann átti eftir að kveðja hana en þau myndu áræðanlega hittast í fríhöfninni.
– Hérna, taktu þessa Hannes!
Hannes var kominn með þrjá troðfulla innkaupapoka í hendurnar. Tveir voru frá flugvellinum í Frankfurt og einn úr flugvélinni.
– Þetta er meira en góðu hófi gegnir!
Andvari, pabbi Hannesar, hafði lítið haft sig í frammi á leiðinni en blöskraði nú greinilega öll innkaup konu sinnar.
– Við verðum sennilega stoppuð í tollinum. Þetta er allt of mikið!
Þau voru síðustu farþegarnir til að yfirgefa vélina. Andvari brosti vandræðalega til flugfreyjunnar sem kvaddi þau við innganginn. Hannes svipaðist strax um eftir Sabine en sá hana hvergi.
– Jæja, nú drífum við okkur beint heim, sagði Andvari óþolinmóður þegar þau voru að nálgast hliðið hjá tollinum.
– Ég þarf aðeins að skreppa í fríhöfnina! Ingibjörg var ekki búin að svala innkaupaþörf sinni að fullu.
– Það kemur ekki til greina!, sagði Andvari og var byrjaður að reiðast en kunni ekki við að beita röddinni að neinu marki því þetta var á háannatíma og flugstöðin því full af fólki. Ingibjörg var þar að auki rokin inn í fríhafnarverslunina og hafði ekki heyrt skammirnar í manni sínum.
—Bless, kallaði Sabine og vinkaði til Hannesar um leið og hún gekk í gegnum tollinn. Hún hafði greinilega sótt farangurinn sinn strax og ekki komið við í fríhöfninni. Um leið og hún hvarf í gegnum hliðið blikkaði hún til Hannesar sem varð strax rauður í framan eins og pabbi sinn og kom ekki upp orði.
Nokkrum mínútum síðar var Ingibjörg komin með tvo fulla poka úr fríhafnarversluninni og Hannes og Andvari voru búnir að setja allar töskurnar og pokana á töskukerru.
– Ég skal lofa þér því að við verðum stöðvuð af tollinum. Það mætti halda að við værum búinn að versla inn hálfa Evrópu, hvíslaði Andvari til Ingibjargar þegar þau gengu í átt að útganginum.
– Reyndu bara að brosa elskan. Þetta verður allt í lagi, sagði Ingibjörg og brosti nú sínu sætasta til tollvarðanna.
Einn af starfsmönnum tollgæslunnar stóð allt í einu fyrir aftan þau.
– Má ég biðja ykkur vinsamlegast um að koma með aðeins hér til hliðar, sagði hann og hálfpartinn ýtti allri fjölskyldunni í átt að litlu herbergi rétt við hliðið.
– Við erum nú bara með dálítið af sælgæti og nokkrar jólagjafir fyrir fjölskyldina. Þetta er alls ekki eins mikið og það lítur út fyrir að vera, sagði Ingibjörg titrandi röddu og reyndi að halda brosinu.
– Jólagjafir? Í júní? Ja, það er ekki ráð nema í tíma sé tekið, sagði tollvörðurinn og átti erfitt með að halda niðri í sér hlátrinum. Í einni svipan varð hann síðan alvarlegur aftur.
– Má ég fá að líta á vegabréfin ykkar.
Andvari rétti tollverðinum vegabréfin og sendi konu sinni um leið eitrað augnaráð sem augljóslega þýddi að nú væri endanlega nóg komið.
Tollvörðurinn sem var feitlaginn með hvítt skegg og minnti á jólasveininn, leit strax í vegabréf Hannesar og kinkaði rólega kolli.
– Þú ert okkar maður, vinur minn, sagði hann og lagði höndina á öxl Hannesar. Ertu til í að tæma buxnavasana þína og setja innihaldið hér á borðið!
Hannes gerði eins og honum var sagt og leit síðan til foreldra sinna sem bæði voru gapandi af undrun. Honum leist ekkert á blikuna. Þetta snerist augljóslega um bréfið.
– Ertu með eitthvað meira á þér vinur?, spurði tollvörðurinn þegar hann var búinn að fara í gegnum allt það sem Hannes hafði sett á borðið. Þetta voru nokkrar kvittanir, sælgætisbréf, einhverjar evrur, lítil hárgreiða og síðan húslyklarnir.
– Nei, ég.. ég.. er búinn að tæma alla vasana, sagði Hannes og leið vægast sagt mjög illa.
Tollvörðurinn þreifaði síðan á Hannesi hátt og lágt eins og venja var í vopnaleit fyrir brottför.
– Hvað er eiginlega um að vera? Hvað á það að þýða að taka strákinn svona í gegn?, spurði Andvari í ásökunartón.
Tollvörðurinn sem var nú búinn að leita af sér allan grun sneri sér til Andvara.
– Okkur grunar að strákurinn hafi borið með sér dálítið til landsins!
– Þú ætlar þó ekki að halda því fram að sonur minn sé eitthvað burðardýr? Hann Hannes er 14 ára gamall, er duglegur í skólanum og hvorki reykir né drekkur! Hann myndi aldrei, ég endurtek, aldrei taka þátt í einhverju smygli. Er það skilið?
Hannes hafði ekki séð þessa hlið á föður sínum áður og var glaður að heyra það traust sem pabbi hans bar til hans. Þessu trausti mátti hann ekki bregðast. Hann gæti ómögulega sagt frá bréfinu.
– Rólegan æsing, sagði tollvorðurinn. Það hefur enginn minnst á neitt smygl. Við vorum beðnir um að kanna hvort strákurinn hefði borið með sér eitt stykki umslag sem einhver á að hafa laumað í vasa hans á flugvellinum í Frankfurt.
– Já eruð þið að leita að umslaginu, sagði Hannes og beitti öllum þeim leikrænu tilburðum sem hann kunni. Það stakk einhver gamall kall þessu umslagi í rassvasann hjá mér þegar ég var að pissa. Ég fattaði það ekki fyrr en hann var farinn. Mér fannst þetta svo asnalegt að ég reif bréfið í tætlur og sturtaði því niður! Ég var nú að reyna að segja þér frá þessu mamma, en þú varst eitthvað svo upptekin.
Hannes undraðist hvað hann átti auðvelt með að hagræða sannleikanum. Það væri líka fáranlegt að fara að reyna að skýra málið út fyrir tollverðinum. Hannes átti náttúrulega fyrir löngu að vera búinn að segja frá þessu bréfi og nú var það of seint.
– Ég er þess vegna ekki með bréfið og ég þekki prófessor Hartmann bara ekki neitt!
Hannes áttaði sig um seinan á mistökunum sem hann hafði gert.
– Hver er prófessor Hartmann? spurði tollvörðurinn og pírði saman augunum eins og hann væri að reyna að sjá í gegnum Hannes.
– Nú, það nafn sá ég á umslaginu áður en ég henti því í klósettið. Ætli það hafi ekki verið kallinn sem stakk því í vasann hjá mér. Hann var ofsalega prófessorslegur, sagði Hannes og strauk sér um hökuna eins og hann væri að velta málinu betur fyrir sér.
– Hvað um það. Þú ert greinilega ekki með þetta bréf, sagði tollvörðurinn. Hinkriði augnarblik, ég þarf að hafa samband við Frankfurt.
Það liðu nokkrar sekúndur án þess að einhver segði neitt eftir að tollvörðurinn var farinn. Andvari var fyrstur til máls.
– Varstu ekkert smeykur þegar þú fannst þetta bréf? Langaði þig ekkert að vita hvað stóð í því? Þú hefur nú hingað til verið svo forvitinn og ég á bágt með að trúa það hafi eitthvað breyst.
– Ég hnýsist samt ekki í annarra manna bréf, svaraði Hannes móðgaður. Ég vissi líka ekki að þetta skipti svona miklu máli. Ég hélt að kallinn væri bara eitthvað ruglaður. Og bara svo þú vitir það næst pabbi, þá er ég 15 ára, ekki 14.
– Þetta er nú alls ekki líkt þér Hannes minn að æsa þig svona upp við hann pabba þinn, sagði Ingibjörg. Hann er reynar ekki vanur að skipta sér neitt af uppeldinu og þú verður nú að taka tillit til þess.
– Hvers konar vitleysa er þetta eiginlega kona? Sinni ég drengnum ekki nógu mikið? Andvari var orðinn öskuillur. Þér væri nær að reyna að hlusta á son þinn þegar hann er að tala við þig í stað þess að þræða allar búðir eins og geðsjúklingur og hugsa bara um að kaupa, kaupa og kaupa!
– Þú skalt ekki voga þér að tala svona til mín, Andvari Eggertsson! Ingibjörg talaði lágt en augnaráð hennar hefði hrætt naut á flótta. Ef það er einhver sem sinnir börnunum okkar þá er það ég! Þú lítur ekki upp frá þessari tölvudruslu þinni, hvort sem þú ert heima eða á ferðalagi.
Hannes horfði til skiptis á mömmu sína og pabba. Þau voru alls ekki vön að rífast neitt en þessi uppákoma var þeim greinilega ofviða. Hann vissi að það borgaði sig ekki að segja þeim sannleikann úr því sem komið var. Þau myndu þá nefnilega hætta að skammast hvort út í annað en láta alla reiði sína og bræði bitna á honum sjálfum.
– Ég hef nú bara aldrei upplifað annað eins! Andvari var farinn að anda örar og andlitið var orðið þrútið af reiði. Hann greip í handlegg Ingibjargar.
– Þakkaðu bara fyrir...
Í því kom jólasveinslegi tollvörðurinn aftur og bjargaði þar með málunum. Hannes var orðinn hræddur um að foreldrar hans færu einfaldlega að slást eins og smákrakkar.
– Jæja. Þið megið þá fara. Ef þið skylduð muna eitthvað sem máli skiptir þá er símanúmerið hjá mér hérna, sagði tollvörðurinn og rétti þeim nafnspjald. Ég biðst afsökunar á því að hafa tafið ykkur svona.
– Þetta er allt í lagi. Ingibjörgu var greinilega létt. Við héldum reyndar að þú værir að stoppa okkur vegna alls dótsins sem við erum að koma með heim.
Tollvörðurinn fór að skellihlæja.
– Ég var nú bara búinn að gleyma öllum „jólagjöfunum“ í júní! Fyrst þú minntist á það, þá sakar nú sennilega ekki að þið sýnið mér aðeins í pokana.

Hálftíma síðar sat fjölskyldan þögul í Nissan jeppanum og stefndi í átt til höfuðborgarinnar. Enginn hafði mælt orð af vör frá því þau settust í bílinn. Þessi „vöruskoðun“ í tollinum hafði kostað sitt. Þau voru auðvitað með miklu meira en 3ja manna fjölskylda má flytja með sér inn í landið. Tollvörðurinn góðlegi hafði látið þau borga skatt af þeirri upphæð sem var yfir því sem leyfilegt var en sem betur fer hafði hann sleppt þeim við að borga sekt.
– Það er ekki nóg með að þú hlustir ekki þegar við þig er talað, heldur þarftu endilega að opna munninn þegar hann ætti helst að vera lokaður!
Andvara var ekki alveg runnin reiðin en æsingurinn var farinn úr röddinni og hann var ekki eins rauður í framan og hann hafði verið nokkru áður.
– Æi láttu ekki svona elskan, sagði Ingibjörg brosandi. Þetta voru samt sem áður góð kaup allt saman, jafnvel þó við höfum þurft að borga einhvern smá toll. Við höfum nú alveg efni á þessu.
Ingibjörg opnaði hanskahólfið og tók út geisladisk með Stuðmönnum. Hún setti hann hann í tækið og fyrr en varði glumdi tónlistin í bílnum.
– Þarf þetta endilega að vera svona hátt, kallaði Andvari.
Ingibjörg lækkaði strax í Stuðmönnum.
– Elskan mín ertu eitthvað tens? Við erum bráðum komin heim og þá skal ég láta renna í heitt bað handa þér. Þá líður úr þér þetta stress.
Stuðmenn sungu um haustið sjötíu og fimm og Andvari greip þéttingsfast en þó blíðlega um hönd konu sinnar.
– Imba mín, ég ætlaði nú ekkert að æsa mig þarna áðan. Þú verður að fyrirgefa mér. Þetta atvik í tollinum sló mig alveg út af laginu.
Hannes hélt niðri í sér andanum. Hann hafði verið að hugsa um Sabine en hafði alveg gleymt vandræðunum sem hann var kominn í út af bréfinu. Hann yrði að hafa samband við hana við fyrsta tækifæri. Hannes kveikti á farsímanum sínum og sló inn leyninúmerið. Eftir örskamma stund birtust tvö ný skilaboð á skjánum. Annað var frá systur hans, Steinunni sem var átján ára gömul og hafði verið ein heima meðan fjölskyldan var í útlöndum.
„Hvenær lendið þið á morgun?“ stóð í skeytinu. Hannes skildi þetta nú ekki alveg. Voru þessi skilaboð kannski síðan daginn áður eða var systir hans eitthvað að ruglast?
Hitt skeytið var frá Sabine. Hún þakkaði fyrir samveruna í flugvélinni og vonaðist til að heyra frá honum hið fyrsta. Hannes skrifaði henni strax til baka en minntist ekkert á uppákomuna í tollinum. Hann sagðist hins vegar ætla að hringja í hana síðar.
– Hvaða stelpu varstu að spjalla við á leiðinni?, spurði Ingibjörg allt í einu eins og hún hefði lesið hugsanir sonar síns.
– Hún heitir Sabine og er hálf íslensk og hálf þýsk, svaraði Hannes. Pabbi hennar er rithöfundur, kannski vitið þið hver hann er.
– Hvað heitir maðurinn?, spurði Andvari
– Hann heitir Einar, Einar Þór Agnarsson minnir mig.
Andvari rikkti Nissan-jeppann út í kantinn og snarhemlaði. Síðan sneri hann sér að Hannesi og sagði kuldalega:
– Þú talar aldrei við þessa stúlku aftur!
Í bakgrunni sungu Stuðmenn um íslenska karlmenn sem væru sko alls engar gungur.

(birta/fela)

5. Kafli
– Á ég að trúa þessari vitleysu?
Bernhard leit vantrúaður á prófessor Hartmann.
– Þú ert bara ekki með öllum mjalla! Ætlastu virkilega til að ég trúi því að þú hafi stungið bréfinu í vasann hjá einhverjum ljóshærðum unglingi sem var að pissa?
– Ég myndi ekki ljúga að þér, Bernhard, sagði Helmut Hartmann skömmustulegur á svipinn. Það veistu. Ég er kannski farinn að kalka og auðvitað átti ég að láta bréfið eiga sig en ég er ekki lygari. Strákurinn tók ekkert eftir þessu. Hann var íslenskur og greinilega á heimleið.
Allt í einu var eins og Bernhard hefði fengið hugmynd.
– Við verðum að láta stöðva drenginn þegar hann kemur til Íslands, sagði hann og sneri sér að Andreasi lögreglumanni. Getið þér farið með okkur á skrifstofu aðaltollstjórans hér á flugvellingum?
Nokkrum mínútum síðar gengu þremenningarnir inn á tollstöðina í aðalbyggingu flugvallarsins í Frankfurt. Andreas fylgdi Bernhard og prófessor Hartmann beint að dyrum tollstjórans.
– Kærar þakkir. Ég þarfnast yðar ekki lengur, sagði Bernhard og brosti kurteisislega til Andreasar. Síðan bankaði hann síðan létt á hurðina.
– Þér bjargið yður áræðanlega. Prófessorinn lítur ekki út fyrir að vera neinn glæpamaður, sagði Andreas brosandi og blikkaði síðan til Helmuts áður en hann gekk í burtu.
Hurðin á skrifstofu tollstjórans opnaðist og ungur maður vísaði þeim inn. Handan við stórt skrifborð sat ljóshærð kona á fertugsaldri og talaði í síma.
– Gæti ég fengið að tala við aðaltollstjórann, spurði Bernhard vingjarnlega þegar konan hafði lokið símtalinu.
– Hermine Wieland, sagði konan og brosti til Bernhards. Ég er aðaltollstjóri flugvallarins. Hvað get ég gert fyrir yður?
Bernhard stóð kyrr í smástund eins og hann hefði verið tekinn úr sambandi.
– Afsakið, ég vissi ekki að tollstjórinn væri kona, sagði hann loks og sá strax eftir þessum heimskulegu ummælum.
– Þér eruð ekki sá fyrsti, sagði Hermine Wieland og brosti enn til Bernhards en ekki eins hlýlega og áður.
Hvaða erindi eigið þér við mig?
Bernhard dró fram pappíra og rétti tollstjóranum. Síðan skýrði hann stuttlega frá erindi sínu og lýsti því hvernig þessi ungi Íslendingur væri viðriðinn málið.
– Við verðum að láta stöðva drenginn þegar flugvélin lendir, sagði hann loks.
– Það er nú hægara sagt en gert. Lögsagnarumdæmi Þýskalands nær auðvitað ekki alla leið til þessarar litlu eyju úti á Atlandshafi. Við erum hins vegar í góðu samstarfi við tollyfirvöld á flugvellinum í Keflavík. Stundum eru grunsamlegir farþegar á ferðalagi milli landanna og þá er gott skiptast á upplýsingum.
Hermine leit á úrið á hendi sér.
– Bíðið augnarblik. Ég ætla að sjá hvað ég get gert, sagði hún og gekk síðan hröðum skrefum út úr skrifstofunni og skildi Helmut og Bernhard eina eftir.
– Strákurinn veit auðvitað ekkert um þetta allt saman. Það má ekki koma honum í einhver vandræði út af þessum elliglöpum í mér, sagði Helmut. Hann var sestur við lítið borð sem stóð fyrir miðri skrifstofunni og virtist miður sín yfir öllu saman
– Auðvitað verður þetta ekkert mál fyrir strákinn, sagði Bernhard. Hann lætur tollaverðina hafa bréfið og þá er málið leyst. Hann verður kannski dálítið undrandi en þetta er of flókið mál til þess að vera með einhverjar útskýringar.
Bernhard var líka sestur og spurði nú Helmut
– En af hverju varstu á leiðinni til Íslands með bréfið?
– Ja, það er nú saga að segja frá því. Ég hef oft komið til Íslands eins og þú veist og tala meira að segja örlitla íslensku.
– Þú ert nú ekki einn fremsti prófessor í germönskum fræðum í Þýskalandi fyrir ekki neitt!, sagði Bernhard glaðlega, klappaði prófessornum á öxlina og leit beint í augu hans.
– En hvað varstu að gera með ÞETTA bréf með þér, hélt hann áfram. Ég næ bara ekki samhenginu. ÞETTA bréf hefur ekkert með Ísland að gera. Ef ég þekkti þig ekki svona vel myndi ég halda að þú hefðir ætlað að reynda að selja bréfið.
Bernhard var allur að æsast á nýjan leik.
– Og af hverju reyndirðu að smygla því til Íslands, jafnvel þó þú sjálfur kæmist ekki með?
– Þetta byrjaði nú allt saman áður en þú fæddist vinur minn, ég var nýorðinn.......
Hurðin á skrifstofunni opnaðist og Hermine Wieland kom askvaðandi inn.
– Hér er útprentun af farþegalistanum, sagði hún. Við höfum ekki langan tíma. Vélin lendir bráðum í Keflavík.“
– Látum okkur sjá, sagði Bernhard. Hann setti gleraugun upp á ennið og rýndi í listann. Eftir stutta stund leit hann upp.
– Ég er búinn að finna drenginn. Það eru bara tveir farþegar á þessu reki með vélinni og annar er kvenkyns. Okkar maður heitir Andvarason. Hannes Andvarason.
Bernhard brosti rogginn til Helmuts og Hermine og sagði síðan.
– Hann er áræðanlega á ferð með mömmu sinni eða pabba. Við skulum finna þau líka, sagði hann og leit aftur yfir listann.
– Nei þau eru ekki með. Það er bara einn Andvarason í flugvélinni!
Nú brostu hins vegar bæði Helmut og Hermine.
– Má ég kíkja á listann aftur, sagði Hermine. Hún var fljót að finna það sem hún var að leita að.
– Pabbi hans er sennilega með í vélinni. Ég er búinn að finna einn Andvara!
– Nú er ég ekki alveg með á nótunum!, sagði Bernhard og leit undrandi á Hermine.
– Íslendingar notast ekki við fjölskyldunöfn eins og flestar aðrar þjóðir, sagði Helmut, heldur bera þeir fyrsta nafn föður síns sem fjölskyldunafn og stundum nú til dags jafnvel fyrsta nafn móður sinnar. Hannes þessi heitir ekki bara Hannes Andvarason heldur er hann líka sonur Andvara.
– Ég hef samband við þá strax í Keflavík, sagði Hermine og var aftur horfin fram.
Bernhard var sestur á nýjan leik.
– Þetta er nú meiri vitleysan. Einhver strákhvolpur frá Íslandi, sem hefur ekki einu sinna sama nafn og faðir sinn, situr á bréfi án þess að vita af því, sem er að minnsta kosti tvö hundruð og fimmtíu þúsund evru virði. Allt bara vegna þess að eitthvert gamalmenni laumaði því í rassvasann hjá honum á almenningssalerni án þess að nokkur tæki eftir því!
Berhard hélt um höfuð sér.
– Ég vona bara að bréfið sé ósnert og ekki skemmt! Tvö hundruð og fimmtíu þúsund evrur!
– Bernhard minn, sagði Helmut í hálfum hljóðum. Bernhard minn, peningar eru ekki allt!

(birta/fela)

Viltu fylgjast með?
Ég þakka frábærar viðtökur.

Þeir sem vilja fá póst sendan þegar nýr kafli er settur á síðuna, geta sent mér mail á bjthkr@hotmail.com. Ég bæti þeim þá á lesendapóstlistann.
Ef þið vitið um einhvern sem hefði gaman af að lesa, hikið þá ekki við að benda viðkomandi á síðuna.

með kveðju
Bjarni
(birta/fela)

4. Kafli
– Ágætu farþegar. Þetta er flugstjórinn sem talar. Við fljúgum nú í 33 þúsund feta hæð og áætlaður komutími í Keflavík er eftir tæpar tvær klukkustundir. Veðrið í Keflavík er gott, sex stiga hiti, sól og norðanátt.
Sabine fór að hlæja.
– Það eru allir alltaf svo jákvæðir á Íslandi. Í dag er 13. júní og allir eru sáttir við að hitastigið sé bara sex gráður.
– Sjáðu. Hannes hafði ekki verið að fylgjast með. Hann hélt á umslaginu og starði á utanáskriftina. Hvernig hafði þetta bréf komist í buxnavasann hans? Atvikið í Frankfurt rifjaðist upp fyrir honum. Gat verið að sá gamli hefði laumað umslaginu í vasann þegar lögreglan kom inn? Hannes fannst það ótrúlegt. Hann minntist þess þegar hann fór eitt sinn með mömmu sinni til Glasgow rétt fyrir jólin í innkaupaleiðangur. Þau höfðu innritað sig á hótelið og drifið sig með strætó beint í miðbæinn. Það var ekki mikill tími til stefnu og mikið sem átti að versla inn. Í strætó var margt um manninn og þau þurftu að standa því engin sæti voru laus. Nokkrum mínútum síðar áttaði mamma Hannesar sig á því að veskinu hafði verið stolið úr töskunni hennar. Það var því lítið um innkaup þá helgina og pabbi hans varð að borga hótelið með símgreiðslu.
– Sjáðu þetta bréf. Hannes sýndi Sabine umslagið.
– Þetta er þýskt nafn. Hver er þessi prófessor Hartmann?, spurði Sabine og leit spyrjandi á Hannes.
– Ég veit það eiginlega ekki.
Hannes sagði Sabine frá prófessornum og lögreglumönnunum. Sabine hlustaði með athygli á þessa sérkennilegu frásögn. Allt í einu kveikti Hannes á perunni. Þess vegna sagði hann takk. Honum tókst að losna við þetta bréf áður en lögreglan kom! Hann hafði einfaldlega stungið því í buxnavasann hjá mér og ég tók ekki eftir neinu!. Hannes leit í skyndi á bréfið.
– Hvað ætli sé í umslaginu?“.Hannes leit spyrjandi á Sabine eins og hún ætti að vita það eitthvað frekar.
– Við verðum að láta einhvern vita, sagði Sabine áhyggjufull. Kannski eru þetta einhver leynileg skjöl eða peningar sem þessi prófessor var búinn að stela. Hann gæti verið njósnari. Eða, eða... kannski eru þetta eiturlyf!, hélt hún afram og virtist hafa fjörugt ímyndunarafl.
Hannes lagði umslagið frá sér og fékk sér sopa af kók eins og til að ná áttum. Síðan leit hann á Sabine og sneri umslaginu við.
Það var ekki límt aftur. Hann opnaði það varlega og dró innihaldið út. Annað umslag kom í ljós. Því var pakkað inn í þunna plastfilmu. Hannes og Sabine héldu bæði niðri í sér andanum. Þetta umslag var greinilega mjög gamalt. Pappírinn var brúnleitur og slaufuleg handskriftin gamaldags. Tvö frímerki voru á bréfinu og einhverjir stimplar.
– Þetta er örugglega hundrað ára gamalt bréf!, sagði Hannes og hljómaði eins og hann væri að segja draugasögu.
– Sennilega er það nú aðeins yngra. Stimpilinn hérna er síðan úr seinni heimstyrjöldinni. Þetta er hakakross en sjáðu hina stimplana. Bréfið er ekki frá Þýskalandi heldur Austurríki. Þessi stimpill er frá Vínarborg sem er höfuðborg Austuríkis.
– Ég veit, svaraði Hannes. Hann var góður í sögu og landafræði og var hálf móðgaður yfir því að Sabine skyldi tala til hans eins og hann vissi ekki neitt. Hann sneri gamla bréfinu við.
– Það er límt aftur! Hefur sennilega aldrei verið opnað.
Aftur héldu Sabine og Hannes niðri í sér andanum.
– Við verðum að koma því í réttar hendur!, sagði Sabine og var greinilega búin að taka ákvörðun um framhald þessa máls.
– Þetta gætu verið einhver leynileg skjöl frá seinni heimstyrjöldinni, sagði Hannes. Kannski einhver gömul hernaðarleyndarmál sem enginn veit um. Þess vegna er umslagið í plastfilmunni. Það eru sennilega fingraför á því sem ekki mega skemmast!
– Við þurfum alla vega að skila bréfinu. Sabina stóð föst á sínu. Til réttra aðila auðvitað.
– Hvað meinarðu? Hannes var ekki viss um hvern Sabine meinti. Eigum við að láta lögregluna hafa bréfið?
– Auðvitað ekki! Við þurfum að koma bréfinu til Dorotheu. Dorotheu Hirsch!
– Dorotheu Hirsch?
Hannes botnaði ekki neitt í neinu.
– Hver er það nú eiginlega?
– Líttu á bréfið!
Hannes las framan á bréfið. An Frau Dorothea Hirsch.
– Já en... Hannesi fannst þetta alveg fráleit hugmynd.
– Af hverju ekki? Bréfið er til hennar. Hún á það! Sabina var greinilega fljót að mynda sér skoðun á hlutunum.
– Hún er örugglega löngu dauð.... eða flutt einhvert. Þetta gæti líka verið eitthvert dulnefni. Mér finnst við ættum að koma bréfinu til lögreglunnar, sagði Hannes vantrúaður.
– Hvað ætlarðu að segja lögreglunni? Að einhver gamall prófessor hafi laumað því í rassvasann hjá þér þegar þú varst að pissa á flugvellinum í Frankfurt?. Sabine brosti til Hannesar. Þetta hljómar mjög trúverðuglega. Þeir halda frekar að þú hafir stolið því.
Hannes sem aftur hafði roðnað þegar Sabine leit brosandi til hans, fölnaði nú skyndilega.
– Sjáðu til. Pabbi minn gæti hjálpað okkur að koma bréfinu til skila. Heimilisfangið á umslaginu er í borginni Dresden sem er rétt hjá Berlín. Pabbi á nokkra vini þar og þeir gætu leitað að þessari Dorotheu. Ef hún á heima þarna ennþá, nú þá stingum við bara bréfinu í annað umslag og sendum það með pósti.
Hugmyndin var ekki svo slæm. Hannes leist líka betur og betur á Sabine. Hún var ekki bara sæt og skemmtileg heldur líka klár.
– Ef þú vilt skal ég taka bréfið, sagði Sabine. Áttu gemsa? Við getum verið í sambandi. Hvaða númer ertu með?
Hannes var fljótur að segja Sabine farsímanúmerið sitt. Þetta var kjörið tækifæri til að kynnast henni aðeins betur. Sabine lokaði augunum og tuldraði númerið fyrir munni sér.
– Ég er búinn að leggja númerið á minnið og ég skal senda þér sms þegar við erum lent, sagði Sabine og brosti enn einu sinni til Hannesar sem stakk gamla bréfinu í umslagið og rétti henni.
– Langar þig í eitthvað dót eða leikfang?, kallaði Ingibjörg. Hún var búinn að versla inn hálfan Sagaklass söluvagninn og sneri sér nú spyrjandi að syni sínum.
– Nei mamma!, hvíslaði Hannes í gegnum samanbitnar tennurnar og fann hvernig hann roðnaði aftur í framan.
– Pabbi er líka svona, sagði Sabine skilningsrík. Hann á rosa erfitt með að sætta sig við að ég sé ekkert smábarn lengur. Annars leyfir hann mér miklu meira en mamma úti í Þýskalandi.
– Mamma er alveg ágæt. Hún á bara eitt áhugamál og það er að versla. Þegar einhverjar búðir eru í nágrenninu þá missir hún gjörsamlega stjórn á sjálfri sér og hættir að hugsa rökrétt.
– En veistu hvað hún gerir í vinnunni?, hélt Hannes áfram. Hún rannsakar lík fyrir lögregluna!
– Er hún í leynilögreglunni eða eitthvað svoleiðis?, spurði Sabine og leit í skyndi yfir ganginn til Ingibjargar eins og hún ætti erfitt með að trúa Hannesi.
– Nei hún er réttarlæknir. Hún kryfur lík. Þú veist, sker þau í sundur og skoðar innyflin og svoleiðis.
Hannes var ekki að segja frá starfi móður sinnar í fyrsta skipti og naut þess til hins ýtrasta.
– Það fyndna er að þrátt fyrir að mamma sé að skera upp dautt fólk daginn út og daginn inn þá býður henni við að hreinsa kjúkling ef við erum með hann í matinn!

(birta/fela)

3. Kafli
– Viljið þér sykur eða mjólk með kaffinu?
Það var ekki á hverjum degi sem flugvallarlögreglan í Frankfurt var beðin um að handtaka farþega á nýræðisaldri. Skilaboðin frá aðalvarðstofunni höfðu verið skýr. Prófessor Helmut Hartmann á leið til Íslands skyldi færður til yfirheyrslu. Hann væri 82ára gamall, við lélega heilsu en reyndar alveg hættulaus. Tveir lögreglumenn frá deild 2E höfðu verið sendir inn fyrir vopnaleitina og fundið prófessor Hartmann á leið inn á karlaklósettið. Hann hafði komið með þeim til baka á varðstofuna án þess að hreifa við mótmælum. Það var eins og hann vissi upp á sig sökina. En hvaða sök? Andreas Horst hafði starfað sem lögreglumaður í nokkur ár en honum fannst óþægilegt að þurfa að færa þennan aldraða mann til yfirheyrslu. Það minnsta sem hægt var að gera í stöðunni var að bjóða þeim gamla upp á kaffisopa.
– Smá mjólk, takk. Prófessor Hartmann sat við annan endann á löngu borði og horfði á kaffibollann fyrir framan sig. Hann var að mestu búinn að jafna sig á mæðinni og svitinn var hættur að renna niður andlitið. Síðastu dagar höfðu verið erfiðir og þessi uppákoma á flugvellinum var ekki til að bæta ástandið. Þetta var líklega eina tækifærið sem ég hafði. Ég er enginn unglingur lengur. Örlögin voru mér ekki hliðholl fyrir sextíu árum síðan og þau eru það svo sannarlega ekki núna, hugsaði prófessor Hartmann. Hugur hans hafði oft reikað til baka síðustu vikurnar. Það var eins og plástri hefði verið flett af gömlu sári og það væri byrjað að blæða aftur. Enginn veit sína ævina fyrr en öll er. Þessi gamli íslenski málsháttur kom upp í hugann. Hvað ætli sé gert við afbrotamenn á mínum aldri. Örlítil brosvipra læddist á andlit prófessorins. Í besta falli verð ég settur á stofnun.
– Kæri vinur!
Prófessor Hartmann leit upp. Hann hafði verið svo djúpt sokkinn í hugsanir sínar að það hafði algerlega farið framhjá honum að einhver væri kominn inn í herbergið. Hjá honum stóð snyrtilega klæddur maður um fertugt með stutt, grásprengt hár og kolsvart slaufulaga yfirvaraskegg.
– Hvað hefur hlaupið í þig, Helmut?
Snyrtilega klæddi maðurinn settist skáhált á móti prófessornum og tók varlega í hönd hans.
– Við erum búin að vera að leita að þér í viku!“
– Og nú ertu búinn að finna mig, Bernhard. Prófessorinn talaði í uppgjafartón. Hvort ætlarðu nú að láta stinga mér inn eða loka mig inni á stofnun?
– Í Guðanna bænum. Þú hefur þá ekki meira álit á mér en þetta? Ég fer ekki að loka góðan vin og þekktan fræðimann á bak við lás og slá?, sagði Bernhard og vissi ekki hvort hann átti reiðast eða hlæja. Hann stóð á fætur og hélt áfram.
– Ég varð samt að ná í þig sem fyrst. Þú veist að uppboðið er á morgun. Ég hafði strax samband við lögregluna þegar ég vissi hvað um var að vera. Þú keyptir flugmiðann með kreditkorti. Þannig höfðum við upp á þér.
Bernhard settist aftur og hálf hvíslaði til prófessors Hartmanns.
– Þetta er samt ekkert lögreglumál. Það verður enginn kæra lögð fram og þú kemur auðvitað með mér aftur til Bonn á eftir.
Prófessor Hartmann sagði ekki neitt en leit vandræðalega í kringum sig og klóraði sér í hnakkanum.
– Jæja. Láttu mig hafa bréfið. Við þurfum að leggja í hann sem fyrst! Bernhard var aftur staðinn á fætur. Hann leit á gamla manninn sem sýndi engin merki þess að ætla að verða við þessari beiðni.
– Hvar er bréfið? Bernhard var á svipstundu orðinn mjög æstur.
– Hvar er bréfið?
Prófessor Hartmann leit á úr sitt og svo rólega upp til Bernhards.
– Það er sennilega einhverstaðar yfir Bretlandseyjum!

(birta/fela)

2. Kafli
Vélin tók að hristast. Hávaðinn í hreyflunum varð meiri og meiri. Hannes leit til foreldra sinna sem sátu hinu meginn við ganginn. Mamma hans hélt niðri í sér andanum og var orðin hvít í framan. Flugtak var ekki hennar skemmtilegasta upplifun. Andvari leit brosandi til konu sinnar og hvíslaði:
– Þetta er allt í lagi, elskan. Slepptu nú höndinni á mér áður en þú brýtur á mér fingurna. Mig langar að skreppa aðeins í tölvuna á eftir.
Allt í einu þaut flugvélin af stað. Hristingurinn jókst og hávaðinn eftir því. Ingibjörg keyrði höfuðið aftur og herpti aftur augun. Í þann mund sem flugvélin tókst á loft saup hún hveljur og rétt á eftir færðist sælubros yfir andlit hennar.
– Þá er það búið, sagði hún eins og ekkert hefði í skorist. Hannes brosti með sjálfum sér. Eitt það skemmtilegasta sem hann gerði á þessum ferðalögum var að fylgjast með móður sinni við flugtak. Stundum héldu farþegar í næstu sætum að eitthvað væri að en Ingibjörg kreisti þá fram brosgrettu og þar með var málið leyst. Að nokkrum mínútum liðnum var hún síðan venjulegast komin á kaf í sölubækling Sagaklass og farin að velta fyrir sér hvernig hún gæti eytt meiri peningum.
Þessu er lokið. Takk. Hannes var ennþá að reyna að skilja hvað hafði eiginlega gerst á flugvellinum Hver var þessi gamli maður? Var þetta einhver glæpamaður? Eða kannski ruglað gamalmenni sem sloppið hafði af einhverju sjúkrahúsi í nágrenninu? Pabbi Hannesar hafði ekki tekið eftir neinu. Sagðist hafa verið að senda tölvupóst og ekki litið upp frá skjánum. Í hálfum hljóðum endurtók Hannes það sem prófessor Hartmann hafði sagt:
– Es ist vorbei!
– Was ist vorbei?
Hannes hrökk við. Hún var dökkhærð, með stór blá augu og andlitið var eitt spurningamerki. Hann hafði ekki tekið eftir henni þegar hann settist í vélina. Hún sat við hliðina á honum, var greinilega þýsk og bara dálítið sæt.
– Eeh, sorry, I don’t speak þý...., German eeh, sorry...kræst
– Do you speak English?
– Eeeh, ja, yes I, I, do.... djöfulsins
Stóra sæta spurningamerkið breyttist í eitt stórt bros. Hún hló.
– Þú talar þó alla vega íslensku, er það ekki?
Hannes varpaði öndinni léttar. Nú vissi hann hvernig mömmu sinni leið við flugtak.
– Ég hélt þú værir Þjóðverji, sagði hann. Ég vissi ekki að þú værir íslensk.
– Ég er líka hvort tveggja. Mamma mín er þýsk en pabbi minn er íslenskur. Sæll, ég er Sabine, sagði hún og rétti brosandi fram höndina. Nú tók Hannes eftir smá hreim hjá henni.
– Hæ, Ég heiti Hannes, sagði hann. Hún var greinilega ekki alíslensk og alls ekkert feimin. Að auki var hann ekki vanur svona kurteisi af jafnöldrum sínum.
– Áttu heima á Íslandi?, spurði hann svona til að reyna að beina athyglinni frá því hvað hann hafði roðnað mikið.
– Já og nei!
Pabbi hennar hafði verið við nám í Austur-Berlín og þar kynntist hann mömmu hennar. Þau höfðu búið saman um tíma þegar Sabine fæddist en skömmu síðar slitnaði sambandið milli þeirra. Þetta höfðu verið miklir umbrotatímar í Þýskalandi og einhvern veginn áttu þau ekki lengur samleið. Þau skildu samt í vináttu og pabbi Sabine hélt til Íslands. Síðan þá hafði Sabine komið 2-3svar á ári til Íslands og stundum dvalist þar heilu sumrin, annað hvort hjá pabba sínum eða ömmu sinni og afa í Hafnafirði. Nú stæði hins vegar til að Sabine yrði lengur á Íslandi en venjulega.
– Það er náttúrulega best að vera á Íslandi, sagði Hannes glottandi og fullur sjálfsöryggi og þjóðarstolti.
– Það er alveg ágætt að vera á Íslandi, sagði Sabine, en það er líka mjög fínt að búa í Þýskalandi og þar á ég miklu fleiri vini og kunningja en á Íslandi.
Allt í einu var eins og Sabine væri í öðrum heimi. Brosið var horfið og röddin hljómaði einkennilega.
– Ég ætla að búa hjá pabba næsta vetur. Mamma er veik og ég veit ekki....
Hannes skynjaði að ekki var allt með felldu og ákvað að spyrjast einskis frekar. Hún var annars ekki sem verst þessi Sabine. Hannes hafði sennilega aldrei hitt stelpu eins og hana áður. Hún var opinská og laus við alla tilgerð. Var ekkert að sýnast. Honum var hugsað til skólasystra sinna sem sumar hverjar höguðu sér eins og leikarar í sápuóperu eða þátttakendur í raunveruleikasjónvarpi allan daginn.
– Má bjóða ykkur eitthvað að drekka með matnum?, spurði stífmáluð flugfreyjan og tannkremsbrosið náði út að eyrum.
– Kók, takk, svaraði Hannes.
– Það gera 100 krónur!
– Þú getur borgað gosið þitt sjálfur, Hannes, kallaði mamma hans þvert yfir ganginn. Hannes reis upp til hálfs og sótti 100 krónu mynt í rassvasann. Eitthvað bréf eða umslag þvældist fyrir honum. Hann borgaði flugfreyjunni og leit á umslagið. Það var eins og hann hefði séð draug. Á miðju umslaginu stóð skrifað með prentstöfum.

prof. Helmut Hartmann

(birta/fela)

1. Kafli
– Þú verður að flýta þér. Annars missum við af vélinni!
Það var alltaf sama sagan. Hannes var nýorðinn 15 ára gamall en alltaf var komið fram við hann eins og smákrakka. Hannes vissi að foreldrar hans meintu þetta vel en einhvern veginn var það samt óþolandi að vera ekki treyst fyrir neinu. Mamma hans, Ingibjörg Hannesdóttir, réttarlæknir, var þó öllu verri en pabbi hans.
Hannes hálfpartinn skokkaði inn á karlaklósettið, svona helst til að friða mömmu sína. Auðvitað myndu þau ekki missa af vélinni. Klukkan var rétt rúmlega tólf á hádegi og vélin átti ekki að fara í loftið fyrr en klukkan eitt. Þetta var nefnilega ekki í fyrsta skiptið sem Hannes fór til útlanda. Andvari Eggertsson bókaútgefandi, pabbi Hannesar, var bókstaflega alltaf á ferðalagi. Stundum var Hannes svo heppinn að fá að fara með pabba sínum en oftar en ekki var mamma líka með og þá var ekki eins skemmtilegt.
Dyrnar á karlaklósettinu stóðu hálfopnar og Hannes smokraði sér inn á milli stafs og hurðar. Á móti honum tók þessi sérkennilega sápulykt sem bara finnst á þýskum almenningssalernum. Eiginlega fannst Hannesi hún verri en venjuleg pissufýla en mamma hans hafði sagt honum að fyrir Þjóðverja skipti umgengni og hreinlæti miklu máli. Hvað um það, Hannes var ekki í fyrsta skipti á flugvellinum í Frankfurt og sterkur hreingerningarilmurinn aftraði honum ekki frá því sem til stóð.
„Slá í gegn, slá í gegn!“.
Hannes kunni einfaldlega öll Stuðmannalögin utanað. Mamma hans var Stuðmannaaðdáandi númer eitt á Íslandi. Hannes sönglaði gjarnan þegar hann létti af sér og „Slá í gegn“ varð í þetta skipti fyrir valinu. Hljóðið úr pissuskálinni sá um undirleikinn.
Skyndilega skelltist hurðin á karlaklósettinu aftur. Hannes hrökk í kút og bunan stoppaði um leið. Lágvaxinn, gráðhærður maður í jakkfötum með gamaldags flöskubotnagleraugu gekk hröðum skrefum beint til Hannesar. Hann var sveittur í framan og mælti með skjálfandi röddu:
– Es ist vorbei!
Hannes kunni ekki mikið í þýsku en þetta skildi hann. Þessu er lokið. Hvað var gamli maðurinn að meina? Hverju var lokið? Átti að loka klósettinu? Var flugvélin kannski farin? Sá gamli klappaði Hannesi létt á öxlina og leit beint í augu hans.
Nú var hurðinni hrundið upp. Tveir þýskir lögreglumenn gengu inn.
– Professor Hartmann! Kommen Sie bitte mit uns!
Gamli maðurinn, sem greinilega var einhver prófessor Hartmann, leit ekki af Hannesi en gekk hægum skrefum afturábak í átt að lögreglumönnunum. Rétt áður en hann sneri sér við hvíslaði hann til Hannesar.
– Danke!
Takk! Hvað er eiginlega að gerast? Hannes skildi ekki neitt í neinu. Löggurnar og prófessor Hartmann voru farin. Þetta er bara eins og í sakamálamyndaflokki í sjónvarpinu; það vantaði bara lögregluhundinn. Hannesi stóð ekki lengur á sama. Hann rauk af stað og rétt áður en hann yfirgaf salernið áttaði hann sig á því að sennilega væri betra að girða upp buxurnar áður en hann færi fram.
– Sástu prófessor Hartmann og löggurnar?, spurði Hannes mömmu sína þegar hann var búinn að finna hana við ilmvatnshillurnar í fríhöfnunni.
– Hartmann, hvað?, sagði mamma hans sem greinilega var að hugsa um eitthvað allt annað.
– Hvernig finnst þér þessi ilmur?, spurði hún allt í einu og rak blauta ilmvatnaprufu næstum því upp í nefnið á Hannesi. Hannes vissi að hann gæti svarað eins og honum sýndist, mamma hans væri hvort eð er ekkert að hlusta á hann frekar en fyrri daginn.
– Þessi ilmur minnir mig á þýsk almenningssalerni, svaraði Hannes en mamma hans var rokinn í átt að afgreiðsluborðinu og búin að taka upp kreditkortið.
Fyrir hvað var prófessorinn eiginlega að þakka mér?, hugsaði Hannes á meðan hann hann gekk hægum skrefum í átt að brottfararhliðinu.
(birta/fela)

Inngangur
Sælt veri fólkið

Ég er að skrifa sögu mér til skemmtunar. Hún er fyrir fólk á öllum aldri (ekki síst unglinga) og aðalsöguhetjan heitir Hannes. Þeir sem vilja fylgjast með og lesa söguna eins og hún verður til er það velkomið.
Að sjálfsögðu má ekki afrita söguna með neinum hætti o.s.frv.

Með von um að einhver annar en bara ég hafi gaman af....

Bjarni Thor

(birta/fela)

This page is powered by Blogger. Isn't yours?