17. kafli
Dúfnahópurinn safnaðist í kringum útigangsmanninn á bekknum. Hann hafði hent nokkrum brauðmolum á stéttina fyrir framan sig og fuglanir þyrptust til hans á svipstundu úr öllum áttum. Veðrið var yndislegt, 27 stiga hiti og sól. Á torginu var margt um manninn eins og venjan er á þessum tíma dags. Flestir voru á leið heim úr vinnu en svo var líka mikið um ferðamenn sem dáðust að 750 ára gamalli byggingunni sem blasti við þeim. Dómkirkjan í Köln er meira en 150 metra há. Turnar hennar gnæfa yfir nágrennið sem samanstendum af skrifstofum, verslunum og kaffihúsum. Á einu slíku sat Ludwig Kranovic og horfði óþolinmóður út um gluggann á manninn og dúfnahópinn.
– Má bjóða yður eitthvað meira? spurði þjónustustúlkan vingjarnlega um leið og hún tók tóman kaffibollann af borðinu. Hún var dökk yfirlitum og talaði þýsku með hreim sem benti til þess að hún væri af tyrkneskum uppruna.
– Annan kaffibolla, takk, svaraði Ludwig og kveikti sér í sígarettu. Hann leit á úrið og síðan á farsímann en enginn hafði hringt eða sent skilaboð.
– Hann ætti að vera kominn fyrir löngu, hugsaði Ludwig með sér. – Klukkan er orðin korter yfir fimm!
Hann fiktaði órólegur í farsímanum og askan datt af sígarettunni á borðið.
– Herra Kranovic!
Ludwig spratt á fætur og tók í höndina á sköllóttum manni á miðjum aldri.
– Góðan daginn!
Sá sköllótti settist. Hann var snyrtilegur til fara, í svörtum jakkafötum, hvítri skyrtu og með bláköflótt bindi. Einkennilegt bros lék um varir hans; það glytti í glansandi tennurnar en augntillitið var kalt og rannsakandi.
Þjónustustúlkan kom með kaffið handa Ludwig.
– Hvað má bjóða yður? spurði hún þann sköllótta.
– Ekkert, takk!
Þegar þjónustustúlkan var farin hallaði sá sköllótti sér að Ludwig.
– Allir þessir útlendingar hérna, sagði hann. – Sjáðu t.d. stúlkuna sem er að þjóna okkur. Það rennur ekkert þýskt blóð í þessum æðum. Á meðan hún gengur hér beina eru hundruðir þúsunda atvinnulausar í Þýskalandi. Væri ekki nær að senda þetta lið heim til sín og hleypa okkar fólki að?
Áður en Ludwig náði að svara einhverju hélt sá sköllótti áfram.
– En við erum ekki hingað komnir til að ræða um daginn og veginn, er það nokkuð?
Ludwig reyndi að sýnast rólegur en röddin titraði um leið og hann opnaði munninn.
– Ég tel mig vita hvar bréfið sé, sagði hann, og ég er viss um að það verður komið í okkar hendur á allra næstu dögum.
Sá sköllótti leit hvasst beint í augu Ludwigs án þess þó að hætta að brosa.
– Ég er mjög þolinmóður maður, herra Kranovic, og get líka verið mjög skilningsríkur. Þegar þú hafðir samband í gær og sagðir að töf yrði á afhendingu bréfsins var ég viss um að á því væri eðlileg skýring.
Ludwig Kranovic létti örlítið og sagði síðan:
– Prófessor Hartmann tók bréfið úr öryggishólfinu kvöldið áður en við ætluðum að láta til skarar skríða. Það eru öryggismyndavélar út um alla byggingu og við vorum búnir að búa þannig um hnútana að á þeim yrði slökkt um stundarsakir. Þá hefði ég tekið bréfið sjálfur úr hólfinu og haldið með það á brott. Eiginlega var ég bara óheppinn. Hefði sá gamli verið einum degi seinna á ferð hefði áætlunin gengið upp.
– Og nú er bréfið á Íslandi?
– Já, ég veit hvar það er niðurkomið. Við erum bara að bíða eftir réttu augnarbliki til að grípa til aðgerða. Þú verður búinn að fá bréfið í síðasta lagi eftir viku.
Sá sköllótti hallaði sér aftur á bak í stólinn og dró djúpt andann.
– Mig langar til að skýra svolítið út fyrir þér, herra Kranovic. – Við erum búnir að millifæra inn á reikning þinn í Sviss háa peningaupphæð og afganginn færðu þegar verkinu er lokið. Samtök okkar eru örlát þegar tilefni gefst. Varan sem þú ætlar að útvega okkur hefur líka mikið gildi fyrir okkur og málstað okkar.
– Ég geri mér fulla grein fyrir því, sagði Ludwig. – Ég er líka þakklátur að hafa feng....
Sá sköllótti greip fram í fyrir honum.
– Við ætlumst líka til að staðið sé við samninga sem við okkur hafa verið gerðir. Ef þú hefðir staðið við þinn hluta samningsins væri ég kominn með vöruna og seinni greiðslan væri í þann mund að eiga sér stað.
– Ég fullvissa ykkur um að....
– Þú hefur þrjá daga!
– Þrjá daga? Ég veit ekki hvort það dugar, sagði Ludwig titrandi röddu.
Sá sköllótti stóð á fætur og tók peningaveski úr jakkavasa sínum.
– Ég skal borga fyrir þig kaffið, sagði hann og lagði nokkarar evrur á borðið. Síðan dró hann upp ljósmynd úr veskinu sínu og virti hana fyrir sér. Hann lagði myndina á borðið fyrir framan Ludwig.
– Þær eru ansi sætar. Hvað eru þær gamlar? átta ára? spurði hann síðan.
Blóðið fraus í æðum Ludwig. Á myndinni voru tvær stúlkur að leika sér. Þetta voru dætur hans, tvíburarnir. Myndin var tekin fyrir framan skólann sem þær gengu í.
– Hvað á þetta að þýða, hvíslaði Ludwig hásri röddu.
– Þú hefur þrjá daga til að ljúka verkinu. Ef þrír dagar duga ekki til þá gætu örlögin gripið í taumana. Slys gera sjaldnast boð á undan sér og maður veit aldrei hver er næstur.
Brosið á andliti sköllótta mannsins vék fyrir meðaumkunarsvip og það vottaði allt í einu fyrir hlýju í annars köldu augnráðinu. Hann leit á myndina.
– Það væri synd. Þetta eru svo myndarlegar stúlkur. Báðar ljóshærðar og bláeygðar.
Ludwig kom ekki upp orði en starði á myndina fyrir framan sig. Sá sköllótti gekk nokkur skref frá borðinu og sneri sér svo við.
– Þú mátt eiga myndina, sagði hann síðan brosandi. – Hún heldur þér sennilega við efnið.
(birta/fela)

This page is powered by Blogger. Isn't yours?