16. kafli
Á sama tíma og prófessor Helmut Hartmann og Bernhard Osenberg voru fluttir með hraði á neyðarmótttöku Borgarspítalans sat Hannes heima hjá sér og las kennslubók í mannkynssögu. Atburðir síðustu daga og tilvist dularfulla bréfsins sem stílað var á Dorotheu Hirsch í Dresden höfðu vakið áhuga hans á seinni heimstyrjöldinni. Hann var að lesa um árin eftir stríð þegar að síminn hans hringdi.
– Hæ, þetta er ég! sagði Sabine
– Hæ!
– Góðar fréttir. Guðrún í sendiráðinu var að hringja í mig. Hún er búin að ná í konu sem kannski getur hjálpað okkur. Þessi kona heitir Hilda og hún er heima núna. Eigum við ekki að fara til hennar strax?
Hannes var sammála og klukkustund síðar stóðu þau fyrir utan húsið þar sem Hilda átti heima. Hannes hringdi dyrabjöllunni og lágvaxin, gráhærð kona kom til dyra.
– Þið hljótið að vera krakkarnir sem Guðrún sagði mér frá, sagði Hilda og brosti góðlátlega. Síðan bauð hún þeim inn.
– Sæl og blessuð. Ég heiti Hannes og þetta er Sabine, sagði Hannes og undraðist hvað hann var allt í einu orðinn kurteis. Voru þetta einhver áhrif frá Sabine?
– Komið inn í stofu og fáið ykkur sæti. Má bjóða ykkur eitthvað drekka? Gos? Mjólk? Kaffi? Te?
– Te væri fínt, takk, svaraði Sabine.
Hannes leit undrandi á Sabine.
– Te?
– Viltu líka te? spurði Hilda
– Ég? Te? Jú ætli það ekki bara, svaraði Hannes hálf ringlaður.
Á meðan Hilda fór fram að sækja drykkjarföngin, hvíslaði Sabine að Hannesi:
– Þú drekkur aldrei te, er það nokkuð?
– Jú, ég drekk mikið te, laug Hannes og undraðist hvað hann var tilbúinn að leggja mikið á sig til að geðjast Sabine.
– Hvernig te finnst þér best?
– Hvernig te? Bara svona venjulegt.... te.
Sabine fór að hlæja.
– Ég vona að þú hafir logið meira sannfærandi þegar þú varst spurður í tollinum um daginn, sagði hún síðan.
Hannes roðnaði og Hilda kom inn með þrjá bolla og te í könnu.
– Þið voruð að forvitnast um borgina Dresden, sagði Hilda.
– Við erum að leita að konu sem átti heima þar í seinni heimstyrjöldinni, sagði Sabine.
– Eiginlega erum við að leita að ákveðnu heimilisfangi, sagði Hannes.
– Þið segið nokkuð, sagði Hilda. – Það er harla ólíklegt að ég geti hjálpað ykkur mikið. Það væri mikil hundaheppni ef ég kannaðist við þessa konu sem þið eruð að leita að. Ég flutti frá Dresden 1945 og ég er bara einu sinni búin að fara þangað síðan.
– Ertu þýsk? spurði Hannes undrandi. – Ég heyri engan hreim þegar þú talar.
– Mér finnst ég nú vera orðinn Íslendingur eftir allan þennan tíma, svaraði Hilda.
– Af hverju fluttirðu til Íslands? spurði Hannes.
– Við komum ansi margar hingað eftir stríð. Þannig var að þegar að heimstyrjöldinni lauk var ástandið í Evrópu vægast sagt mjög slæmt. Í Þýskalandi var mikil fátækt og margar ungar konur voru búnar að missa mennina sína. Þess vegna fluttu margir til annarra landa. Hingað til Íslands komu nokkrar konur sem flestar hófu störf sem vinnukonur á sveitabæum. Þannig var það líka með mig.
Hilda leit brosandi á krakkana til skiptis. Síðan færðist angurvær svipur yfir andlit hennar og hún leit út um stofugluggann án þess þó að hún væri að horfa á eitthvað sérstakt.
– Ég var að auki með lítinn son minn með mér en pabbi hans, sem var í hernum, fórst í stríðinu. Foreldrar mínir og systkini létust síðan á örlagaríkum degi þegar ráðist var á Dresden rétt fyrir stríðslok!
Aftur leit Hilda brosandi á Hannes og Sabine.
– Ég ætlaði ekki að vera á Íslandi nema í nokkur ár en eitthvað er ég búin að ílengjast hér því nú er liðin meira en hálf öld síðan ég kom hingað.
Allt í einu hringdi síminn. Hilda stóð á fætur og gekk fram á gang til að svara.
– Ég var búinn að segja þér það, sagði Hannes glottandi. – Ísland er best. Auðvitað vildi Hilda ekki snúa aftur til Þýskalands eftir að hafa kynnst besta landi í heimi.
– Kannski voru aðrar ástæður fyrir því, sagði Sabine.
– Nú?
– Kannski varð hún ástfangin!
– Ástfangin?
– Það getur komið fyrir besta fólk, sagði Sabine.
Hilda gekk rösklega aftur inn í stofuna.
– Krakkar, þið verðið að fyrirgefa en ég verð að fara upp á spítala, sagði hún. – Sonur minn er læknir og hann biður mig stundum að koma ef Þjóðverjar eru lagðir inn. Ég hjálpa til við að túlka ef sjúklingarnir tala ekki íslensku eða ensku. Þið verðið að koma við einhverntímann seinna. Þið getið fengið far með mér niður í miðbæ ef þið viljið.

Stuttu síðan sátu þau öll þrjú í bíl Hildu á leið í gegnum Vesturbæinn.
– Tveir þýskir ferðamenn lentu í bílslysi á Reykjanesbrautinni og liggja báðir á gjörgæsludeild, sagði Hilda. – Annar þeirra er við meðvitund og læknarnir vilja spyrja hann nokkurra spurninga áður en hann verður skorinn upp. Þess vegna er leitað til mín.
– Af hverju fluttirðu ekki aftur til Þýskalands? spurði Hannes. Sabine kleip hann og leit ásakandi til hans.
– Ég meina, af hverju ílengdist þú á Íslandi, hélt Hannes síðan áfram.
– Ég ætlaði alltaf aftur til baka en ég sá að það var syni mínum fyrir bestu að við héldum hér kyrru fyrir. Svo kynntist ég líka honum Guðmundi mínum og hann gekk stráknum í föðurstað; ól hann upp eins og hann væri hans eiginn sonur.
– Sagði ég ekki, hvíslaði Sabine til Hannesar.
Hilda hleypti krökkunum út úr bílnum við tjörnina og þau þökkuðu fyrir sig.
– Við þökkum fyrir okkur, Hilda, sagði Hannes.
– Ekkert að þakka. Þið getið komið aftur á morgun ef þið viljið, svaraði Hilda. – Þið skuluð bara hringja á undan ykkur. Eruð þið með númerið mitt?
– Nei, svaraði Sabine.
– Þið finnið mig í símaskránni undir Þórhildur Hjartardóttir, sagði Hilda.
– Þórhildur Hjartardóttir? endurtók Hannes. – Það er alveg rammíslenskt nafn?
– Já, ég aðlagaði nafnið mitt að íslenskri nafnahefð þegar ég flutti hingað, svaraði Hilda.
– Áður hét ég Dorothea, hélt hún áfram. – Dorothea Hirsch!
(birta/fela)

This page is powered by Blogger. Isn't yours?