15. kafli
– Þetta er ótrúlegt. Ég hef aldrei séð annað eins!
Bernhard Osenberg og prófessor Helmut Hartmann sátu hlið við hlið í japönskum bílaleigubíl á leið til Reykjavíkur frá Keflavíkurflugvelli. Bernhard sat við stýrið en átti fullt í fangi með að einbeita sér við aksturinn. Öll athygli hans beindist að því sem fyrir augu bar á leiðinni.
– Allt þetta hraun, sagði Bernhard. –Þetta er eins og... eins og...
– ..eins og á tunglinu, botnaði Helmut. – Það finnst flestum sem koma hingað í fyrsta sinn. Þetta breytist um leið og við komum til höfuðborgarinnar.
Bernhard var litið þvert yfir hraunið.
– Sjáðu Helmut! sagði hann. – Sjáðu, reykinn þarna. Erum við á eldfjallasvæði?
– Hér á þessu svæði hefur ekki orðið eldgos í þúsundir ára, svaraði Helmut. – Það sem þú sérð er kallað Bláa lónið. Þangað koma gestir hvaðanæfa að til að baða sig í heitu vatninu.
– Nú fer ég að skilja þessa Íslandsáráttu þína, Helmut, sagði Bernhard. – Þetta er öðruvísi en allt sem ég hef séð hingað til! Bíddu við. Er þetta jökull þarna handan hafsins?
– Snæfellsjökull. Þangað koma líka fjölmargir á hverju ári.
– Líka til að baða sig? spurði Bernhard.
– Nei flestir koma til að dást að jöklinum en svo telja margir að þarna lendi einhvern tíma geimverur.
– Geimverur?
– Af hverju ekki? Prófessor Hartmann brosti í laumi. – Þetta er ekki verri staður en hver annar til að sækja jörðina heim.
Bernhard hristi hausinn. Prófessorinn var greinilega ekki með öllum mjalla. Nokkrar mínútur liðu án þess að nokkur mælti orð af vör.
– Er þetta eini malbikaði vegurinn á Íslandi? spurði Bernhard allt í einu.
– Af hverju það?
– Ég sé enga fólksbíla. Það eru allir á himinháum jeppum.
– Nei, Bernhard minn. Þó að hér séu engar hraðbrautir þá eru flestir vegir malbikaðir. Þessi jeppadella hjá Íslendingum er alveg sérstakt fyrirbæri. Reyndar getur snjóað hér hressilega á veturna og þá er gott að vera á stórum bíl.
Bernhard skipti skyndilega um umræðuefni.
– Helmut. Nú erum við komnir til Íslands. Segðu mér nú loksins frá þessu bréfi.
Prófessor Helmut Hartmann hafði verið með hressara móti eftir að þeir komu út úr flugvélinni. Nú leit hann þungur á brún í gaupnir sér. Síðan tók hann af sér gleraugun og byjaði að pússa þau. Eftir skamma stund tók hann síðan til máls.
– Mér hefur sjaldan brugðið jafn mikið eins og þegar ég fékk bréfið í hendur. Gamlar minningar sóttu á mig og ég upplifði á ný atburði sem ég var búinn að reyna að gleyma, atburði sem áttu sér stað fyrir meina en hálfri öld síðan. Ég var staðsettur í Vín þegar að seinni heimstyrjöldinni lauk.
– Þetta veit ég, sagði Bernhard óþolinmóður. – Heyrðu mig nú. Það er byjað að rigna og það var blankandi sólskin þegar við lentum.
– Það getur orðið sleipt á þessum vegi þegar rignir, sagði Helmut. – Aktu ekki alveg svona hratt!
– Hafðu engar áhyggjur, ég er ýmsu vanur, svaraði Bernhard. – Hvað er nú þetta? Kross hérna við veginn. Er þetta er einhver útikapella?
– Nei þetta er minnisvarði um þá sem hafa látist hérna á þessum vegi í umferðarslysum.
– Menn verða að kunna að keyra við svona aðstæður, sagði Bernhard og sneri sér í hálfhring í bílstjórasætinu til að skoða krossinn betur.
Þegar hann leit aftur fram var bíllinn kominn út í kantinn. Bernhard tók snöggt í stýrið en við það missti hann algerlega stjórn á bílnum sem rann þvert yfir akreinarnar á móti og endasentist út í hraunið. Eftir nokkrar veltur lá japanskur bílaleigubíllinn á hvolfi langt utan vegar og annað afturdekkið snerist í rigningunni.
Fjölmargir vegfarendur urðu vitni að slysinu og eftir skamma stund voru sjúkrabílar og lögregla komin frá Hafnafirði. Merkja mátti að báðir farþegarnir væru enn á lífi en greinlega mikið slasaðir. Um það leiti sem sjúkrabílarnir héldu til höfuðborgarinnar lagði annar japanskur bílaleigubíll í vegkantinn skammt frá slysstað. Ung hávaxinn kona með sítt dökkt hár og svört sólgleraugu steig út úr bílstjórasætinu og gekk til hóps manna sem var að fylgjast með. Þar spurði hún á bjagaðri ensku hvað hefði komið fyrir. Hún fékk þau svör að á einhvern óskiljanlegan hátt væru báðir sem í bílnum voru enn á lífi; bílstjóri á miðjum aldri og annar eldri. Sennilega væri um útlendinga að ræða því þeir voru á bílaleigubíl.
Lena Andermann gekk hröðum skrefum til baka að bílnum sem hún hafði komið á og settist inn. Hún tók niður sólgleraugun og sótti farsíma í handtöskuna. Hún valdi númer í Þýskalandi.
– Málið hefur tekið nýja stefnu, sagðu hún í símann eftir stutta stund. – Herra Osenberg og Prófessor Hartmann lentu í umferðarslysi. Þeir voru ekki komnir á áfangastað. Kannski eru einhverjar vísbendingar í farangri þeirra um hvert leið þeirra lá. Ég athuga það mál við fyrsta tækifæri.
– Við vitum hvert leið þeirra lá, sagði Ludwig Kranovic á hinum enda línunnar. – Ég sendi þér heimilsfangið með SMS um hæl. Þetta er venjuleg fjölskylda sem býr í nágrenni höfuðborgarinnar. Sá sem veit um bréfið er aðeins 15 ára.
– Hvað má ég ganga langt? spurði Lena
– Þú gengur eins langt og nauðsyn krefur!
(birta/fela)

This page is powered by Blogger. Isn't yours?