13. kafli
Það tekur ekki mikið lengri tíma að hjóla úr Garðabænum til Reykjavíkur heldur en að keyra sömu leið til baka. Hannes komst að þessu þar sem hann sat í aftursæti volvo-bifreiðar á leið heim til sín eftir viðburðaríka heimsókn í Fossvoginum. Við hlið hans sat Sabine, sem nú var orðin kærastan hans að nafninu til. Frammí sat Einar Þór Agnarson, pabbi Sabine og sambýliskona hans, Birta Björnsdóttir. Einar og Birta voru á svipuðum aldri og foreldrar Hannesar. Sabine var mjög lík pabba sínum og ef hann myndi setja á sig svarta síða hárkollu þá væri hægt að ruglast á þeim, úr fjarlægð að vísu.
Einar og Birta höfðu tekið tengdasyninum nýja nokkuð vel, miðað við aðstæður. Einari var reyndar brugðið að sjá Hannes í rúmi dóttur sinnar, liggjandi undir teppi. Honum létti svo þegar Hannes stóð á fætur, fullklæddur og meira að segja ennþá í skónum og úlpunni. Hannesi var síðan boðið inn í stofu og þar hitti hann Birtu, sambýliskonu Einars. Síðan var hann spurður spjörunum úr; m.a. hvað hann væri að gera í heimsókn að nóttu til og af hverju hann notaði ekki útidyrnar eins og venjan væri á þessu heimili. Áður en Hannes var búinn að hugsa upp einhverja skýringu hafði Sabine svarað fyrir hann. Hún sagði að þau hefðu verið búinn að ákveða að hittast en Hannes hefði ekki komist fyrr. Þau hefðu síðan ekki viljað vera með neinn umgang svona seint um kvöld þar sem allir voru farnir að sofa.
Þegar Hannes greindi síðan frá því hverra manna hann væri, rak Einar upp mikinn hlátur. Kannski einmitt þess vegna ákvað hann að best væri að hringja strax í foreldra Hannesar og láta þau vita hvar sonur þeirra héldi sig þessa stundina. Þetta gerði Einar síðan og nú voru þau á leið í Garðabæinn með Hannes en hjólið hafði hann skilið eftir í Fossvoginum.
Þegar þangað var komið var BMWinn á bak og burt. Andvari og Ingibjörg stóðu á stéttinni og biðu eftir týnda syninum sem enginn var reyndar farinn að sakna þangað til Einar hafði hringt. Þegar allir höfðu heilsast á hálf vandræðalegan hátt var gestunum boðið í bæinn. Andvari leit til Hannesar og af svipnum af dæma virtist hann hvorki reiður né áhyggjufullur.
– Við þurfum að tala betur saman á eftir, sagði hann og klappaði Hannesi létt á öxlina.
– Má ekki bjóða ykkur inn í stofu? spurði Ingibjörg.
– Það er nú komið fram á nótt; ég held við þurfum að koma okkur, svaraði Einar.
– Auðvitað kíkjum við aðeins inn, sagði Birta og ýtti við Einari.
Gestirnir tóku af sér og settust inn í stofu. Hannes og Sabine sátu hlið við hlið í einum stofusófanum eins og sakborningar í yfirheyrslu.
– Sast þú ekki hjá Hannesi í flugvélinni? spurði Ingibjörg allt í einu.
– Jú, svaraði Sabine.
– Eruð þið búin að þekkjast lengi? spurði Einar.
– Nei, bara síðan þá, svaraði Hannes.
– Og nú einum og hálfum degi síðar eruð þið sem sagt kærustupar, sagði Andvari og leit sposkur á svipinn til skiptis á Hannes og Sabine.
– Neeeei, kannski ekki alveg kærustupar, ekki þannig sko, svaraði Hannes.
– Við erum mjög góðir vinir, sagði Sabine ákveðin.
– Þið eruð full ung til að standa í einhvers konar sambandi, er það ekki?, spurði Andvari alvarlegur.
– Andi minn, láttu ekki svona. Þetta eru bara krakkar, sagði Ingibjörg. – Hannes, sýndu Sabine herbergið þitt. Við fullorðna fólkið ættum líklegast að nota tækirfærið og kveða niður gamla fortíðardrauga.
Hannes benti Sabine að koma með sér og saman gengu þau úr stofunni og inn í herbergið hans. Þá um vorið hafði Ingibjörg loksins fengið son sinn til að taka herbergið í gegn. Áður höfðu veggirnir verið skreyttir með myndum af ofurhetjum úr heimi hasarblaða og allir skápar og hillur verið fullar af svonefndum “matchbox” bílum sem Hannes hafði sankað að sér í gegnum tíðína. Nú voru ofurhetjurnar og smábílarnir á bak og burt en stór mynd af Freddy Mercury hékk fyrir ofan rúm Hannesar. Húsgögnunum hafði líka verið skipt út þá um vorið og auk rúms og fataskáps var komið stórt skrifborð sem stóð við gluggann. Hannes var feginn að þessar breytingar á herberginu höfðu átt sér stað. Það hefði verið pínlegt að bjóða Sabine inn herbergið eins og það hafði litið út hálfu ári áður. Hannes settist á skrifborðstólinn og Sabine á rúmið.
– Flott herbergi, sagði Sabine.
– Takk, svaraði Hannes.
– Jæja, pabbar okkar fóru ekki að slást.
– Nei, en þeir voru nú samt hálf vandræðalegir.
– Hvenær koma Þjóðverjarnir á morgun? spurði Sabine.
– Þeir koma ekki fyrr en annað kvöld, svaraði Hannes.
– Eigum við þá ekki að gera eins og við vorum búin að ákveða? spurði Sabine. – Við getum hittst í fyrramálið og haft samband við þýska sendiráðið.
– Heyrðu! sagði Hannes. – Pabbi veit ekki af hverju þeir eru að koma í heimsókn. Ég þarf bara að passa mig á því að vera ekki heima annað kvöld!
– Þú meinar það. Við gætum til dæmis farið saman í bíó, stakk Sabine upp á.
– Frábær hugmynd, svaraði Hannes. – Kíkjum á netið og sjáum hvaða myndir er verið að sýna.
Hannes kveikti á tölvunni og saman skoðuðu þau síðan heimasíður kvikmyndahúsanna. Eftir miklar pælingar ákváðu þau loks á hvaða mynd þau ætluðu að fara.
Sabine leit á úrið sitt.
– Klukkan er að verða tvö. Af hverju erum við ekki farin heim?
– Kíkjum fram, sagði Hannes.
Sabine og Hannes gengu inn í stofu. Einar og Andvari sátu hlið við hlið í stofusófanum og voru að ræða eitthvað á alvarlegum nótum. Koníakflaska og tvö glös voru á borðinu. Þeir voru augljóslega búnir að fá sér oftar en einu sinni í glösin. Sabine og Hannes litu brosandi hvort á annað.
– Ég er búinn að lesa þær allar, allar með tölu, sagði Andvari og var orðinn örlítið þvoglumæltur af drykkjunni. – Þú ert frábær rithöfundur og ef þú hefðir ekki... ekki verið með Imbu þarna um árið... þá... þá væri ég búinn að segja þér það fyrir löngu.
– Á ég að segja þér soldið. Við vorum aldrei saman, sagði Einar og lagði handlegginn um axlir Andvara. – Hún vildi mig ekki!
– Vildi þig ekki?
– Ég var búinn að ganga á eftir henni með grasið í skónum heilan vetur. Við vorum orðnir mjög góðir vinir og hún var held ég orðin hrifin af mér líka, þegar hún kynntist þessum heildsalasyni úr MR. Hún tók þig fram fyrir mig! Við vorum aldrei saman og hún vildi ekki einu sinni kyssa mig.
Einar fékk sér sopa af koníaki. – Ég var í ástarsorg og ákvað þá að fara út til Þýskaland að læra.
– Heyrðu. Fyrst Imba vildi ekki kyssa þig, þá skal ég bara gera það, sagði Andvari og síðan ráku þeir báðir upp mikinn hlátur. Sabine og Hannes gengu flissandi inn í eldhús. Ingibjörg og Birta sátu báðar við eldhúsborðið.
– Viltu eitthvað að drekka, djús kannski? spurði Hannes.
Sabine jánkaði því og Hannes sótti glas, hellti ávaxtasafa í og rétti henni.
– Vaktafyrirkomulagið hjá okkur á endurkomudeildinni er alveg út í hött, sagði Birta. – Stundum er auðvitað lítið að gera en svo koma rosalegar tarnir þar sem við getum engan veginn sinnt þeim sem er að koma til okkar. Eftir svoleiðis vaktir er maður gersamlega búinn. Veistu, sumir geta ekki einu sinni skipt sjálfir um plástur og koma þess vegna til okkar. Svo eru allir svo mikið að flýta sér og þurfa að láta sinna sér á stundinni.
– Mínir skjólstæðingar eru öllu þolinmóðari, sagði Ingibjörg brosandi og leit síðan til Hannesar og Sabine. – Jæja, Hannes minn, ertu búinn að sýna Sabine herbergið þitt?
– Guð minn góður! kallaði Birta upp yfir sig. – Klukkan er farin að ganga þrjú! Við verður að fara að koma okkur heim. Einar!
Þau gengu öll saman inn í stofu. Einar og Andvari sátu enn í stofusófanum og voru orðnir hinir mestu mátar.
– Eigum við ekki að fara að drífa okkur, Einar minn, sagði Birta. Hún sneri sér að Ingibjörgu. – Má ég hringja hjá þér á leigubíl?
Það var auðsótt mál og Einar og Andvari stóðu á fætur.
– Jæja, eruð þið búnir að ræða málin? spurði Ingibjörg.
– Hann er mikill öðlingur, hann Einar vinur minn, sagði Andvari og faðmaði þennan nýja vin að sér. – Þú ert alveg frábær, hélt hann áfram. – Var ég nokkuð búinn að segja þér að ég elska bækurnar þínar? Þessi þjóðlegi stíll sjáðu til og svo þessi sýn á íslenskt samfélag sem menn fá bara ef þeir búa í útlöndum.
Stuttu síðar kom leigubíllinn og fjölskyldurnar kvöddust á stéttinni. Það var komið myrkur og úti var blankalogn. Andvari og Ingibjörg fóru inn en Hannes horfði á eftir leigubílnum þar sem keyrði út eftir götunni. Eftir nokkra stund heyrðist ekki lengur í bílnum og úti var alveg hljótt utan þess að greina mátti kvak í einstaka fugli. Hannes gekk inn og lokaði hurðinni á eftir sér.
(birta/fela)

This page is powered by Blogger. Isn't yours?