12. kafli
Loksins fóru foreldar Hannesar að sofa. Hannes opnaði hurðina á herberginu sínu og laumaðist fram. Það var ennþá bjart úti en samt komið fram yfir miðnætti. Hann sótti íþróttaskóna fram í forstofu og gekk síðan eins hljóðlega og hann gat inn í vaskahús. Það voru minni líkur á því að þau myndu heyra í honum ef hann færi þar út heldur en um aðalinnganginn sem lá við hliðina á hjónaherberginu.
Þegar Hannes var kominn út og búinn að sækja hjólið sitt sem stóð við hlið bílskúrsins, teymdi hann það varlega eftir innkeyrslunni. Silfurlituðum BMW var lagt fyrir framan garðinn hjá þeim. Hannes kannaðist ekkert við þennan bíl en tók eftir því að einhverjir sátu í framsætunum. Hann skildi hjólið sitt eftir og læddist eftir innkeyrslunni í átt að BMW-inum. Var kannski verið að njósna um hann? Hannes hélt niðri í sér andanum. Hann var aðeins fáeina metra frá bílnum þegar hann heyrði að að einhverjir voru að tala samen en annar framglugginn á bílnum var opinn til hálfs. Hannes laumaðist nær og lagði við hlustir.
– Ýkt frábær mynd, sagði rödd sem Hannes þekkti vel. Þetta var þá bara systir hans að koma heim með pizzusendlinum Fjölni eftir bíóferðina.
Hannes læddist til baka og sótti hjólið. Fjölni og Steinunni leist sennilega vel hvort á annað. Það væri nú alls ekki svo slæmt að fá pizzusendil inn á heimilið. Þau fengju þá fríar pizzur annað veifið!
Það var líka hægt að komast út úr garðinum fyrir aftan bílskúrinn og þangað fór Hannes með hjólið sitt. Hann var einungis klæddur í þunna úlpu og það var dálítið kalt úti en spennan yfir því sem framundan var hélt á honum hita.
Hannes varð að ná tali af Sabine sem fyrst. Þau þyrftu að leggja strax saman á ráðin varðandi bréfið. Hann hafði sent Sabine SMS allt kvöldið en ekki fengið neitt svar. Hann vissi nokkurn veginn hvar hún átti heima og ákvað því að hjóla til hennar og reyna að ná sambandi við hana þegar þangað væri komið. Þetta var alls ekki löng leið að hjóla og þegar þau væru búinn að ræða málin varðandi bréfið myndi hann hjóla til baka og laumast aftur inn heima hjá sér.
Það var dálítið skrítið að vera svona seint á ferð. Úti var ennþá bjart þótt sólin væri við það að setjast og það var varla nokkur sála á ferð. Hannes var fljótur að hjóla niður í gegnum Kópavog og fyrr en varði var hann kominn í Fossvoginum þar sem pabbi Sabine bjó.
Allt í einu hringdi farsíminn hjá Hannesi. Það var Sabine.
– Hæ, ég var með slökkt á símanum, sagði hún. – Ég var bara að kveikja á honum og sá að það voru 12 skilaboð frá þér um að hafa samband. Hvað kom fyrir?
– Þjóðverjarnir eru að koma á morgun út af bréfinu. Við þurfum að ákveða hvað við gerum við það. Við verður að hittast, núna! sagði Hannes.
– Núna? Ég var að fara að sofa, svaraði Sabine.
– Ég er kominn á hjólinu hingað í götuna hjá ykkur. Gætum við ekki bara hittst einhvers staðar hérna? Í hvaða húsnúmeri búið þið?
– Hjólaðirðu alla leiðina hingað? spurði Sabine undrandi.
– Já, við verðum að gera eitthvað við bréfið, svaraði Hannes.
– Heyrðu, ég bý í númer 24 á jarðhæðinni. Herbergið mitt snýr að götunni og glugginn er lengst til vinstri. Komdu og bankaðu á gluggann og ég hleypi þér inn, sagði Sabine.
Hannes stakk símanum inn á sig og hjólaði eftir götunni. Húsið númer 24 var 3ja hæða fjölbýlishús. Búið var að slökkva öll ljós á jarðhæðinni en glugginn hjá Sabine var rétt innan við grindverkið. Hannes lagði hjólinu við ljósastaur og klifraði inn í garðinn. Hann bankaði laust á gluggann.
Ekkert svar!
Hannes bankaði aðeins fastar og reyndi að kíkja inn um gluggann. Það var erfitt að sjá inn en Hannes þóttist greina gamla stofuklukku á veggnum og svo sá hann líka útsaumaða mynd af íslenskum sveitabæ. Drottinn blessi heimilið stóð saumað undir myndinni.
Hannes bankaði í þriðja sinn og beinlínis klessti andlitinu upp að glerinu.
– Hvað á þetta eiginlega að þýða?
Hannes hrökk aftur á bak og datt í grasið. Fyrir innan gluggann stóð gömul kerling og hvessti á hann augunum. Sú gamla opnaði gluggann.
– Hvers konar fíflagangur er þetta? Hvað á það að þýða að gera at í gamalli konu svona um miðja nótt? Áttu ekki fyrir löngu að vera kominn í rúmið krakkaskratti?
– Fyrirgefðu, ég ruglaðist bara á glugga, sagði Hannes vandræðalegur og stóð á fætur.
– Nú, ætlaðirðu að gera at í einhverjum öðrum? Á ég að hringja á lögregluna? Ætlaðirðu kannski að brjótast inn og ræna mig gamalmennið?
– Nei, nei, svaraði Hannes fljótur. – Ég ætlaði bara að hitta stelpu og ég hélt hún ætti heima hérna.
– Jæja ljúfurinn. Gamla illskulega kerlingin breyttist í einni svipan í brosandi ömmu. – Ætlaðirðu að heimsækja stúlku? Ertu kominn með kærustu svona ungur. kallinn minn?
– Ha, nei ég er ekki kominn með neina kærustu. Hún er bara, bara vinkona mín, svaraði Hannes.
– Það á engin stúlka heima hér ljúfurinn, sagði sú gamla. – Ekki nema bara ég og varla vildirðu hitta mig, hélt hún áfram og blikkaði til Hannesar.
– Nei takk, ég meina, nei. Ég hringi bara í hana aftur og spyr betur til vegar.
– Góða nótt Rómeó, sagði gamla konan og vinkaði til Hannesar þegar hann gekk út úr garðinum.
Hannes tók farsímann upp í flýti og hringdi í Sabine.
– Ertu ekki að koma? spurði hún strax og samband hafði nást.
– Ég bankaði á vitlausan glugga, sagði Hannes. – Er þinn gluggi ekki sá sem er lengst til vinstri og snýr að götunni.
– Jú
– Í númer 24?
– 24. Bíddu aðeins, Sabine hugsaði sig um. – Fyrirgefðu það er númer 42. Ég ruglast alltaf á þessum númerum. Á þýsku segir maður fjórir og tuttugu þegar um tuttugu og fjóra er að ræða.
– Ég kem þá í hvelli, sagði Hannes og settist á hjólið.
Eftir skamma stund var hann kominn að húsi númer 42. Hann skildi hjólið eftir á gangstéttinni og fann strax gluggann sem hann var að leita að. Þetta var líka einhvers konar svalahurð og þar stóð Sabine og gaf honum merki um að koma. Hún var í íþróttagalla en berfætt. Sítt dökkt hárið féll niður um herðarnar á henni og Hannes fann fyrir fiðring í maganum við að sjá hana.
– Komdu inn, hvíslaði Sabine og Hannes smeygði sér inn um svalahurðina. Herbergið hennar var ekki mjög stórt en mjög smekklega innréttað. Öðru megin var stór hvítur fataskápur og við hliðina á honum lítið skrifborð í viðarlit. Hinum megin var rúmið og þar settist Sabine.
– Sestu hérna, hvíslaði hún og lagði höndina á rúmið við hlið sér.
Hannes settist í rúmið við hliðina á Sabine og vissi ekki hvort það var hún eða bréfið sem gerði það að verkum að hann var farinn að skjálfa pínulítið.
– Er þér kalt?, spurði Sabine. – Hérna, settu á þig teppið, sagði hún og lagði ullarteppi sem var í rúminu yfir axlir Hannesar.
– Hvaða menn eru að koma út af bréfinu? spurði hún síðan.
Hannes sagði Sabine frá Þjóðverjunum sem hringt höfðu í pabba hans. Annar hefði heitað Helmut og væri örugglega professor Helmut Hartmann. Þeir höfðu hins vegar ekki vilja segja hvaða erindi þeir ættu.
– Þú verður að halda þig við þína útgáfu af sögunni, sagði Sabine. – Að þú hafir hent bréfinu í klósettið. Þeir geta ómögulega vitað að þú sért ekki að segja satt. Við verðum að komast að meiru áður en við gerum eitthvað við bréfið.
– Þá er líklega best að þú geymir það áfram, sagði Hannes.
– Ég skal gera það og ég held við ættum ekki að segja neinum frá þessu, sagði Sabine.
Hannesi fannst þetta líka besta lausnin. Sabine virtist alltaf hafa lausnir við öllum vandamálum sem upp komu. Nú sat Hannes í nokkurra sentimetra fjarlægð frá þessari stúlku sem hann var nýbúinn að kynnast. Á skrifborðinu logaði lampi og það var eina ljósið sem kveikt var á í herberginu. Hannes fann á ný fyrir fiðring í maganum og hann var orðinn undarlega þurr í hálsinum þegar dyrnar á herberginu opnuðust allt í einu upp á gátt.
– Varstu að kalla, Sab....
Undrunarsvipurinn á Einari Þór Agnarsyni gaf til kynna að sennilega hefði hann átt von á flestu öðru en að sjá einkadóttur sína 14 ára gamla sitjandi við hliðina á einhverjum strák sem hann hafði aldrei áður augum litið.
– Hver ert þú?
– Ég heiti Hannes, ég er....
Sabine greip skyndilega í hönd Hannesar.
– Hannes er í heimsókn. Hann er kærastinn minn!
Sabine kreist hönd Hannesar fast og hann vissi að þetta var eina skýringin sem þau gætu gefið í stöðunni
Innst inni óskaði hann sér þó að hún hefði verið að segja satt.
(birta/fela)

This page is powered by Blogger. Isn't yours?