9. kafli
Fundarherbergið í húsakynnum Julianus uppboðsfyrirtækisins í Bonn var í alla staði mjög glæsilegt. Það var langt og mjótt og tiltölulega hátt til lofts. Eftir herberginu endilöngu lá fundarborð úr vönduðum viði. Veggurinn öðru megin borðsins var þakinn málverkum frá ýmsum tímabilum listasögunnar, hinu megin var hins vegar glerveggur. Útsýnið af 14. hæð var mjög fallegt. Miðbær Bonn blasti við og minnti frekar á lítinn bæ en borg sem eitt sinn var höfuðborg Vestur-Þýskalands.
Bernhard Osenberg sat við annan enda fundarborðsins og hrærði í kaffibolla. Hann var orðin taugaóstyrkur og mátti heyra skeiðina glamra í bollanum. Fundurinn átti að hefjast klukkan 9 og flestir fundarmanna voru mættir. Andrúmsloftið var þrungið spennu því fundurinn hafði verið boðaður með mjög skömmum fyrirvara og enginn vissi eiginlega hvaða mál væru á dagskrá. Loks kom síðasti fundargesturinn inn, hurðinni var lokað og dagskráin gat hafist.
– Ágætu stjórnarmenn, sagði Bernhard. Ég vil byrja á að biðja ykkur afsökunar á því að þið skilduð verða boðaðir til stjórnarfundar með svona stuttum fyrirvara en erindið er brýnt og getur ekki beðið!
Fundarmenn litu undrandi og forvitnir í senn hver á annan. Eftir örstutta þögn hélt Bernhard síðan áfram.
– Eins og þið vitið þá er uppboðsdagur hjá okkur í dag. Við eigum von á mörgum gestum því það sem boðið verður upp eru sumt hvert mjög sérstakt og eftirsóknarvert. Flestir gestanna í dag koma þó vegna uppboðshlutar númer 542, bréfsins frá Dresden, eins og það hefur verið kallað.
Bernhard fékk sér vatnssopa og fundarmenn biðu spenntir eftir framhaldinu.
– Þetta bréf er horfið!
Fundarmenn litu þrumu lostnir allir sem einn á Bernhard. Í nokkarar sekúndur kom enginn upp orði. Doktor Garmisch, sem var elstur viðstaddra, rauf loks þögnina.
– Horfið? Var bréfinu stolið?
– Eiginlega ekki, svaraði Bernhard. – Það var bara „tekið“.
– Tekið?
– Já, tekið, svaraði Bernhard. – Leyfið mér að skýra þetta betur út. Byrjum á byrjuninni.
Bernhard fékk sér aftur vatnssopa.
– Það var í vor sem Póstminjasafnið í Dresden hafði samband við okkur út af nokkrum gömlum bréfum sem höfðu fundist þar á bæ. Í kjölfar flóðanna 2003 höfðu kjallarageymslur safnsins verið rýmdar og þá höfðu ýmsir hlutir komið í ljós sem fallið höfðu í gleymskunar dá. Meðal annars nokkur gömul sendibréf sem aldrei höfðu verið borin út. Eitt þessara bréfa vakti strax athygli vegna sérkennilegra póststimpla. Strax komu upp kenningar um að þetta bréf hefði að geyma upplýsingar sem merkilegar kynnu að vera; upplýsingar frá seinni heimstyrjöldinni eða árunum á eftir hana; upphafi kalda stríðsins. Þetta gætu verið leynilegar upplýsingar, hugsanlega tengdar njósnum og þess vegna risu upp deilur um hvort opna skildi bréfið og skoða innihald þess eða láta það ósnert og varðveita þar með verðmæti þess sem safngrips. Þrátt fyrir mikinn þrýsting ýmissa aðila var seinni kosturinn fyrir valinu og ákveðið að geyma bréfið á safninu óopnað sem safngrip. Það var síðan í vor að póstmynjasafnið hafði samband og fór þess á leit við okkur að við stæðum fyrir uppboði á bréfinu en safnið á við fjárhagserfiðleika að etja og vildi með sölu á bréfinu koma fjármálunum í réttan farveg.
– Þetta vitum við allt saman, sagði doktor Garmisch. –Viltu ekki snúa þér strax að kjarna málsins!
– Já, bréfinu var sem sagt komið til okkar, hélt Bernhard áfram, og okkar fyrsta hlutverk var að reyna að meta verðmæti þess. Við fengum til þess góðkunningja okkar, hinn virta prófessor Helmut Hartmann sem er, eins og þið vitið, einn virtasti sérfræðingum í gömlum frímerkjum og stimplum. Þetta er ekki í fyrsta skiptið sem við leitum til prófessorsins og öll samvinna okkar við hann hefur verið hin ánægjulegsta og um leið fyrirtæki okkar til góð.
Fundarmenn kinkuðu kolli, sumir hverir broandi, aðrir óþolinmóðir að bíða eftir að heyra framhaldið.
– Frá því prófessor Hartmann sá bréfið í fyrsta sinn var hann hinn einkennilegasti. Hann vildi sem minnst um málið tala og var tregur til að leggja mat á verðmæti þess.
Bernhard fékk sér enn einn sopann úr vatnsglasinu sem reyndar var orðið tómt.
– Helmut Hartmann tók bréfið síðan traustataki og hafði það með sér á brott!
Kliður fór um fundarherbergið. Sumir hristu hausinn vantrúaðir og aðrir litu skilningsvana á næsta mann. Fyrr en varði voru samræður komnar í fullan gang og fundarmenn áttu bágt með að trúa því sem þeir höfðu heyrt.
Bernhard hélt áfram.
– Við höfðum upp á prófessor Hartmann þar sem hann var á leið til Íslands. Bréfinu hafði hann hins vegar komið frá sér og það er núna staðsett einhverstaðar í nágrenni Reykjavíkur en prófessorinn hefur enga skýringu gefið á hátterni sínu.
– Til Íslands?, spurði doktor Garmisch. Hvað er bréfið að gera þar?
– Því miður hef ég bara enga hugmynd um það, svaraði Bernhard.
– Ég vissi alltaf að það væri eitthvað loðið við þetta bréf, sagði sá sem sat fjærst Bernhard og hét Ludwig Kranovic.
– Prófessorinn er sennilega á mála hjá einhverjum samtökum eða stofnun sem ekki vill að innhald bréfsins komi í ljós, hélt Ludwig áfram. – Hvað vitum við eiginlega um fortíð prófessors Hartmanns?
– Mér finnst afar ósennilegt að prófessor Hartmann tengist utanaðkomandi aðilum, svaraði Bernhard hvasst. – Mín skýring er sú að gamli maðurinn sé einfaldlega farinn að kalka. Bréfið hefur einfaldlega minnt hann á seinni heimstyrjöldina og þá hefur eitthvað slegið saman hjá honum. Það má guð vita hvað hann upplifði á þessum tímum. Hann gegndi herskyldu.
– Þarna er skýringin komin, sagði Ludwig Kranovic ákveðinn. – Einhver sem ekki vill að innihald bréfsins komi í ljós hefur beitt gamla manninn þrýstingi. Kannski hefur hann sjálfur tengst njósnum og er hræddur um að einhver gömul leyndarmál komi upp á yfirborðið.
– Við getum velt þessu fyrir okkur fram og til baka, sagði doktor Garmisch. – Spurningin er hins vegar: Hvar er bréfið og hvernig komum við því í okkar hendur aftur? Þetta er það sem skiptir fyrirtækið máli. Orðspor Julianus er einstakt í heimi uppboðsfyrirtækja og við getur ekki hætt á að þetta orðspor skaðist á neinn hátt.
– Við teljum okkur vita hvar bréfið er niðurkomið, sagði Bernhard. – Hugmynd mín er sú að ég fari á morgun til Íslands og hafi upp á bréfinu. Ég held að það ætti að geta gengið. Ég myndi taka prófessor Hartmann með mér!
– Er hann ekki kominn í varðhald fyrir þjófnað?, spurði Ludwig undrandi. Ekki ferðu að taka sökudólginn með þér?
Bernhard þagði um stund og leit síðan á fundarmenn einn af öðrum.
– Eins og prófessor Garmisch benti á áðan, sagði hann loks, þá er orðspor fyrirtækisins að veði. Við ættum að reyna að halda lögreglunni utan við málið eins lengi og hægt er. Það eina sem við verðum að gera er að fresta þessu uppboði um óákveðinn tíma. Ég tók mér það bessaleyfi að tala við Póstmynjasafnið í Dresden og skýra málið út fyrir þeim. Þeir eru tilbúinir að gefa okkur dálítið svigrúm til að leysa þetta mál áður en lögreglan verður kölluð til. Ég legg því til, ágætu fundarmenn, að við frestum öllum ákvörðunum fram í byrjun næstu viku. Við prófessor Hartmann förum með fyrsta flugi á morgun til Íslands. Ég verð að hafa prófessorinn með því hann þekkir til þess einstaklings sem er með bréfið í fórum sínum. Ég mun auðvitað hafa samband við ykkur hvern og einn ef eitthvað nýtt kemur í ljós í þessu máli!
Fundarmenn gáfu samþykki sitt og Bernhard sleit fundinum. Eftir skamma stund höfðu allir yfirgefið fundarherbergið nema Bernhard sem sat einn eftir. Honum hafði tekist að fá gálgafrest í málinu og hann vonaði að ferðin til Íslands yrði ekki til einskis.

Nokkrum mínútum síðar settist Ludwig Kranovic í Benz bifreið sína í bílageymslu fyrirtækisins. Hann tók upp farsímann og sló inn símanúmer sem hann hafði oft valið síðustu vikurnar.
Þegar svarað var á hinum enda línunnar sagði Ludwig varfærnislega:
– Það er komið upp vandamál sem breytir áætlunum okkar algerlega. Hefurðu einhvern tíma komið til Íslands?
(birta/fela)

This page is powered by Blogger. Isn't yours?