8. Kafli
Þetta var sannkallað bílablíðviðri. Sól skein í heiði en það var samt ekkert sérstaklega hlýtt. Nissan-jeppinn þræddi götur Garðabæjar í átt að botnlanganum þar sem Andvari og fjölskylda hans áttu heima.
Hannes horfði út um gluggann og var þungt hugsi. Klukkan var að nálgast 6 á þessum viðburðaríka degi. Foreldrar hans höfðu hnakkrifist hálfa leiðina til Garðabæjar, allt frá því að Andvari nauðhemlaði jeppanum og las yfir syni sínum. Þannig var að pabbi Sabine, sem var rithöfundur, hafði fyrir mörgum árum átt í útistöðum við bókaforlagið sem Andvari var í forsvari fyrir. Þetta hafði verið hið leiðinlegasta mál. Báðir aðilar höfðu skrifað greinar í blöðin þar sem Andvari hafði kallað Einar pabba Sabine, kommúnista og Einar þessi hafði lýst Andvara sem afturhaldskapítalista, hvað sem það þýddi nú eiginlega.
Hannes hafði fengið að heyra þetta allt á leiðinni þegar foreldarar hans hálfpartinn öskruðu hvort á annað. En málið átti sér enn lengri sögu. Þegar Andvari hafði á ákveðnum tímapunkti sagt konu sinni að halda kjafti og skipta sér ekki af því sem henni kæmi ekki við, tóku samræðurnar nýja stefnu. Ingibjörg sagði þá að Andvari væri bara afbrýðissamur. Hann hefði aldrei getað umborið það að hún hefði verið í sambandi við þennan Einar áður en þau Andvari kynntust og það væri ástæðan fyrir öllum þessum bjánalega æsingi. Eftir þessa fullyrðingu hafði enginn sagt neitt lengi, ekki fyrr en Andvari bað son sinn skyndilega afsökunar. Auðvitað mætti Hannes tala við þá krakka sem hann vildi.
Þau nálguðust nú einbýlishúsið við enda botnlangans. Andvari keyrði bílinn upp að bílskúrnum og þau stigu út.
– Hvað hefur eiginlega gerst hérna?, kallaði Ingibjörg skyndilega.
Andvari leit yfir runnann og inn í garðinn. Útigrillið lá á hliðinni og veröndin var öll í glerbrotum. Þá flaut pizzukassi í heita pottinum.
– Það er einhver kall inni í stofu!, hvíslaði Hannes til foreldra sinna og benti á hávaxinn mann sem gekk hægt framhjá stofuglugganum.
– Guð minn góður, það hefur eitthvað komið fyrir, sagði Ingibjörg á innsoginu og tók farsímann upp úr veskinu. Ég hringi á lögregluna!, hélt hún áfram.
– Vonandi er allt í lagi með Steinunni, sagði Andvari. Við getum ekki beðið. Ég fer inn!
Andvari tróð sér í gegnum runnana, stökk yfir blómabeð og þreif í útidyrahurðina. Hún var læst. Hann dinglaði og bankaði kröftulega til skiptis um leið og hann leitaði að húslyklunum í vösum sínum. Hannes fylgdi föður sínum eftir en Ingibjörg var komin í samband við neyðarlínuna og búin að biðja um lögregluna i einum grænum hvelli.
Útidyrnar opnuðust og hávaxinn strákur um tvítugt með úfið hár, í gallabuxum og ber að ofan blasti við Andvara.
– Rólegan æsing, sagði strákurinn. Ertu að koma með pizzuna? Mundirðu eftir hvítlauksolíunni?
Andvari opnaði munninn til að segja eitthvað en kom ekki upp orði.
– Pabbi? Eruð þið komin heim? Steinunn, systir Hannesar, stóð allt í einu við hlið stráksins og brosti vandræðalega til föður síns. Hún var klædd í gulan íþróttagalla og sítt skolleitt hár hennar teygði sig langt niður á bak.
– Áttuð þið ekki að koma heim á morgun?
Andvari stóð enn orðlaus með opinn munninn þegar Ingibjörg ruddist framhjá honum og faðmaði dóttur sína að sér.
– Það er þá allt í lagi með þig, Steina mín, sagði hún hálfgrátandi. Ég fékk næstum taugaáfall þegar ég sá aðkomuna hérna við húsið! Hún þrýsti Steinunni enn fastar að sér og var litið á strákinn á gallabuxunum.
– Hver ertu þú?, spurði hún síðan.
– Þetta er hann Siggi, svaraði Steinunn og losaði sig úr faðmlögum móður sinnar. Hann fékk að gista í stofunni eftir partíið!
– Eftir hvaða partí?, spurði Andvari alvarlegur. Ertu að segja mér Steinunn að það hafi verið haldið partí hérna í húsinu á meðan við vorum í Þýskalandi? Er aðkoman hérna eins og hún er út af einhverju partí?
Andvari var allur að æsast upp og blés nú úr nös eins og brjálaður tuddi. Andlitið var orðið þrútið og minnti einna helst á pizzu með skinku og pepperoni.
– Ég held ég fari bara að drífa mig heim, sagði Siggi flóttalega og stefndi beinustu leið yfir garðinn út á götu.
– Ferðu allra þinna ferða svona ber að ofan og á sokkaleistunum, kallaði Ingibjörg háðslega á eftir honum.
Siggi snarstoppaði og skokkaði síðan vandræðalegur á svipinn aftur inn um útidyrnar. Hann kom aftur út að vörmu spori með peysugarm í hendinni og tróð sér í strigaskó sem lágu í óreiðu á stéttinni. Síðan var hann þotinn á braut.
Enginn sagði neitt. Ingibjörg og Steinunn stóðu í dyragættini, Andvari starði móður og másandi á eftir Sigga og Hannes virti draslið í garðinum fyrir sér.
– Pabbi vertu ekki að æsa þig svona upp. Þetta var bara ósköp venjulegt partí, sagði Steinunn loks. Siggi fékk að sofa í stofunni og hann hjálpaði mér meira að segja að taka til inni. Við ætluðum síðan að hreinsa garðinn. Ég hélt bara að þið kæmuð ekki fyrr en á morgun!
– Þetta er allt í lagi Steina mín, sagði Ingibjörg og faðmaði dóttur sína aftur að sér.
– Hann pabbi þinn er ekki í góðu jafnvægi í dag, hélt hún áfram. Hann æsir sig upp af minnsta tilefni!
– Minnsta tilefni? Minnsta tilefni? Þú ert nú bara ekki með öllum mjalla sjálf, kona! Það er ekki nóg með að þú komir okkur í klandur með kaupæðinu í þér, heldur leggur dóttir okkar heimilið í rúst og lætur svo einhvern aumingja sofa í stofusófanum!
Andvari sem var orðinn verulega æstur, strunsaði nú fram og til baka um garðinn eins og til að fá útrás fyrir reiði sína.
Rauður Fiat keyrði inn innkeyrsluna og að vörmu spori kom rauðklæddur pizzasendill blístrandi inn í garðinn.
– Vá, það er bara partí í gangi, sagði hann glottandi. Hvar á ég að setja pizzuna? Kannski bara beint í heita pottinn eins og þessa þarna!, hélt hann hlæjandi áfram og kinkaði kolli í áttina að pottinum.
Andvari gekk til sendilsins með geðveikislegt bros á vör.
– Það er kannski ekki svo vitlaus hugmynd, sagði hann síðan. Því næst greip hann um axlir sendilsins, sem átti sér alls einskis ills von, og henti honum beint ofan í pottinn með pizzunni og öllu saman.
– Andvari!, kallaði Ingibjörg þrumu lostin. Hvað ertu að gera!
Allt í einu var eins og Andvari næði áttum. Hann leit afsökunaraugum á pizzusendilinn sem stóð í miðjum heita pottinum og á einhvern óskiljanlegan hátt var ennþá með pizzuna í hendinni.
– Fyrirgefðu! Ég ætlaði ekkert að gera þetta, tuldraði Andvari fyrir munni sér. Þetta var bara óvart! Ég....
Lengra komst Andvari ekki því skyndilega var honum skellt á magann með andlitið beint inn í blómabeð.
– Rólegur vinur, engan æsing!
Einkennisklæddur lá á Andvara og þrýsti honum á jörðina. Hann og félagi hans höfðu verið í nágrenninu þegar útkall kom í gegnum talstöðina. Einhver kona hafði hringt í neyðarlínuna og beðið um hjálp. Heimili hennar væri umsetið afbrotamönnum og dóttir hennar sennilega í lífshættu. Lögregluþjónarnir höfðu ekið beinustu leið á heimilsfangið sem gefið hafði verið upp og séð úr fjarlægð hvernig maður á miðjum aldri gekk berserksgang fyrir framan húsið.
– Þið eruð aldeilis fljótir, sagði pizzusendillinn.
– Sleppið manninum mínum strax, kallaði Ingibjörg.
Lögregluþjónninn var staðinn á fætur og hann og félagi hans hífðu Andvara upp á lappirnar sem nú var kominn í handjárn.
– Þetta er allt saman misskilingur, hélt Ingibjörg áfram. Það eru engir innbrotsþjófar hérna!
Lögregluþjónarnir litu vantrúaðir hver á annan.
Hannes, sem hingað til hafði fylgst með öllu eins og úr fjarlægð, gekk til lögreglumannana.
– Þetta er alveg satt. Við eigum heima hérna öll nema þessi þarna, sagði hann og benti á pizzusendilinn í pottinum.
– Henti þessi maður þér ekki út í?, spurði annar lögreglumaðurinn.
– Ha? Nei, nei. Hann rakst bara eitthvað utan í mig, svaraði sendillinn um hæl.
Andvari hafði mælt orð af vör síðan lögreglan kom. Hann leit nú sakleysislegum augum á lögregluþjónana til skiptis.
– Nú jæja þá, sagði annar lögregluþjónninn og losaði handjárnin af Andvara.
– Ykkur er óhætt að fara. Þetta er allt á misskilningi byggt sagði Ingibjörg. Það var ég sem hringdi. Ég hélt að það hefði verið brotist inn en það var bara vitleysa.
– Er örugglega allt í lagi með ykkur öll?, spurði hinn lögregluþjóninn. Allir kinkuðu játandi kolli.
– Þig líka?, hélt hann áfram og leit á pizzusendilinn.
– Já, það er ekkert að mér, svaraði sendilinn brosandi.
Á meðan Andvari og Ingibjörg skýrðu málið betur út fyrir lögreglunni, hjálpuðu Steinunn og Hannes pizzusendlinum upp úr pottinum. Hann var holdvotur en aðeins nokkrar vatnsslettur sáust á pizzukassanum
– Viltu ekki skipta um föt?, spurði Steinunn umhyggjusöm. Þú passar örugglega í einhverja leppa af pabba.
Pizzusendillinn brosti til Steinunnar.
– Ég er til í það, svaraði hann og glotti. Hér er pizzan sem þið pöntuðuð!
Hannes tók við pizzunni og fann strax til svengdar þegar fann af henni bökunarlyktina.
Lögregluþjónarnir voru búnir að kveðja og Andvari sneri sér að blautum pizzasendlinum.
– Mig langar til að biðja þig afsökunar, sagði hann, og svo vil ég þakka þér fyrir að hafa ekki sagt allan sannleikann. Þú veist að þú hefðir sennilega getað lagt fram kæru!
– Enginn er verri þótt hann vökni, sagði sendillinn brosandi. Við erum nú ýmsu vanir í heimsendingunum skal ég segja þér. Okkar mottó er: Ef kúnninn er ánægður þá erum við ánægðir.
– Steina mín, finndu föt á manninn áður en hann kvefast, sagði Ingibjörg
– Ég var að fara til þess, svaraði Steinunn pirruð og rauk af stað.

Eftir að sendilinn var síðan farinn og töskurnar höfðu verið teknar inn úr bílnum, skipti fjölskyldan pizzunni á milli sín við eldhúsborðið. Allir voru í því að biðja hina afsökunar á því sem gerst hafði nema Hannes. Eftir matinn dreif hann sig í herbergið sitt, fleygði sér í rúmið og tók upp farsímann. Hann fletti upp á skilaboðunum frá Sabine og valdi síðan númerið hennar. Hún svaraði strax.
– Hæ Hannes, sagði hún
– Hæ
– Ég er með hugmynd varðandi bréfið, sagði hún
– Já, veistu ég held við ættum.....
– Viltu hitta mig í hádeginu á morgun niðri á Hlemmi?
– Endilega
– Sjáumst kl. 12 á morgun, bless
– Bless
(birta/fela)

This page is powered by Blogger. Isn't yours?