7. Kafli
Andrúmsloftið á skrifstofu Hermine Wieland var sérkennilegt. Þetta mál var algert klúður frá upphafi til enda og Bernhard Osenberg var niðurbrotinn maður. Hann hafði ákveðið að gera hvarfið af bréfinu ekki að opinberu lögreglumáli og nú sýndist honum að sú ákvörðun hefði verið röng.
Þegar hann áttaði sig á því að bréfið var horfið hafði hann strax litið á upptökur eftirlitsmyndavéla fyrirtækisins. Kannski hafði einhver komið bréfinu tímabundið á annan stað. Það hafði hins vegar ekki farið á milli mála að prófessor Helmut Hartmann sótti bréfið í öryggishólfið og hélt beint með það úr húsi. Bernhard hafði síðan ítrekað reynt að ná í prófessorinn en það hafði engan árangur borið. Nokkrir dagar höfðu liðið án þess að tangur eða tetur sæist af Helmut þegar Bernhard fékk þá hugmynd að hafa samband við vin sin hjá bankanum sem var með aðgang að tölvuneti kreditkorta-fyrirtækjanna. Þar var síðan hægt að sjá að Helmut hefði keypt flugmiða til Íslands. Eftir eitt samtal við flugfélagið komst hann síðan að því að vélin sem prófessorinn ætti flug bókað með, færi seinna þennan sama dag. Þá hafði hann hringt í annan fyrrum skólabróður sinn sem nú var yfirmaður hjá flugvallarlögreglunni í Frankfurt og fengið hann til senda menn inn að leita að gamla manninum. Þeir höfðu síðan náð að stöðva hann áður en hann fór í vélina en bréfið var hann ekki með á sér.
Nú vissi Bernhard hins vegar um örlög þessa verðmæta bréfs. Það var nú ónýtt og synti í hundrað pörtum niður holræsarör flugstöðvarinnar.
Líklega yrði að draga Helmut til ábyrgðar þar sem trygginarfélagið myndi aldrei greiða verðmæti bréfsins. Til þess hefði þurft að tilkynna málið til lögreglu sama dag og þjófnaðurinn hafði átti sér stað og nú var meira en vika liðin frá því að það hvarf.
– Þú ert aldeilis búinn að koma mér í vandræði Helmut, sagði hann. Ég er líka hræddur um að ég verði að tala við lögregluna varðandi þinn hlut í þessu máli. Þú verður sennilega dreginn til ábyrgðar.
– Ég er nú líklega borgunarmaður fyrir þessu bréfi, mælti Helmut. Mér er svo sem líka sama. Ég á engin börn og systkyni mín eru ekki lengur á lífi.
– En að strákurinn skuli hafa eyðilagt bréfið, sagði Bernhard allt í einu. Mér finnst þetta einhvern veginn ótrúlegt!
Bernhard sneri sér að Hermine Wieland.
– Gætum við fengið að fara á vettvang? Er möguleiki að kíkja aðeins á þetta salerni þar sem bréfinu var sturtað niður. Kannski finnum við einhverjar leifar sem dottið hafa á gólfið. Það er aldrei að vita.
Hermine kinkaði hægt kolli og tók upp símann. Eftir skamma stund var bankað á dyr skrifstofunnar.
– Nei, eruð þið hérna ennþá?, sagði Andreas lögreglumaður þegar honum hafði verið vísað inn.
– Ef þér vilduð vera svo vænn og fara með þessa tvo herramenn á staðinn þar sem þið stöðvuðuð prófessor Hartmann hérna áðan, bað Hermine ákveðið.
– Augnarblik!, hélt hún áfram. Ég ætla að koma með!

– Þú varst ekki búinn að segja mér af hverju þú tókst bréfið, sagði Bernhard þegar þau voru á leið sinni um flugvallarbygginguna.
Helmut hafði ekki mælt orð af vör síðan svarið um örlög bréfsins kom frá Íslandi. Hann velti því fyrir sér hvort hann ætti nokkuð að segja frá raunverulegum ástæðum þess að hann hefði haft það á brott með sér. Fyrst að bréfið var glatað þá var sennilega best að gleyma þessu öllu saman. Það var líka vitleysa að vera að þvælast til Íslands. Það þjónaði engum tilgangi og gerði engum gagn.
– Ég skil það eiginlega ekki sjálfur, svaraði hann loks og var orðinn töluvert móður af göngunni.
Þegar þau komu inn á salernið umrædda var ræstitæknir á fullu við að þrífa og taka til rusl.
– Bíðið!, kallaði Bernhard. Síðan gekk hann rösklega úr einum klefanum í annan í leit að einhverjum leifum af bréfinu.
– Hafið þér nokkuð séð gamla bréfsnepla hérna, spurði hann ræstitækninn sem skildi ekki neitt í neinu.
– Ja, ég er nú eiginlega búninn að þrífa hérna, svaraði hann, og auðvitað var eitthvað bréfarusl sem ég fann. Hvað er það eiginlega sem....
Ræstitæknirinn komst ekki lengra því Bernhard hafði tekið ruslapoka sem þarna stóð og sturtað innihaldinu á gólfið. Alls konar bréf, pappamál og rusl flæddu um nýþrifið gólfið.
– Hvað á þetta eiginlega að þýða?, spurði ræstitæknirinn höstuglega þegar hann sá vinnu sína síðasta hálftímann hverfa fyrir lítið.
– Það getur verið að verðmætar pappírsleifar séu hérna í ruslinu, svaraði Bernhard og var lagstur á hnén til að leita.
– Hvernig lítur þessi pappír út?, spurði Andreas sem var líka kominn niður á gólf til þess að hjálpa.
– Ég veit það eiginlega ekki, svaraði Bernhard. En pappírinn er gamall og gulnaður.
Hermine Wieland var líka lögst á hnén að leita. Ræstitæknirinn brosti og var greinilega skemmt að fylgjast með öllum þessum embættismönnum skríðandi á gólfinu.
– Um hvað er að ræða?, spurði hann síðan. Get ég orðið að einhverju liði?
– Nei takk, svaraði Bernhard höstuglega. Þetta er alvarlegt lögreglumál og ekki þitt að spyrja einhverra spurninga!
Ræstitækninum var brugðið og leit á Helmut sem stóð þarna hjá og horfði á aðfarinar.
– Þetta er nú allt mér að kenna, sagði Helmut afsakandi. Bréfið hefði aldrei glatast ef ég hefði ekki komið því á strákinn. Honum hefur síðan brugðið svo mikið veslingnum þegar hann fann það að hann hefur rifið það í tætlur og sturtað því niður um klósettið.
– Það hefur þá ekki verið í dag, sagði ræstitæknirinn. Það var verið að gera við bæði klósettin hér í morgun og þau voru fyrst að komast í gagnið rétt áður en þið ruddust hér inn!
Bernhard leit upp eitt andartak, stökk síðan brosandi á fætur og faðmaði ræstitækninn þéttingsfast að sér.
– Hann hefur þá verið að ljúga blessaður drengurinn!
(birta/fela)

This page is powered by Blogger. Isn't yours?