9. kafli
Fundarherbergið í húsakynnum Julianus uppboðsfyrirtækisins í Bonn var í alla staði mjög glæsilegt. Það var langt og mjótt og tiltölulega hátt til lofts. Eftir herberginu endilöngu lá fundarborð úr vönduðum viði. Veggurinn öðru megin borðsins var þakinn málverkum frá ýmsum tímabilum listasögunnar, hinu megin var hins vegar glerveggur. Útsýnið af 14. hæð var mjög fallegt. Miðbær Bonn blasti við og minnti frekar á lítinn bæ en borg sem eitt sinn var höfuðborg Vestur-Þýskalands.
Bernhard Osenberg sat við annan enda fundarborðsins og hrærði í kaffibolla. Hann var orðin taugaóstyrkur og mátti heyra skeiðina glamra í bollanum. Fundurinn átti að hefjast klukkan 9 og flestir fundarmanna voru mættir. Andrúmsloftið var þrungið spennu því fundurinn hafði verið boðaður með mjög skömmum fyrirvara og enginn vissi eiginlega hvaða mál væru á dagskrá. Loks kom síðasti fundargesturinn inn, hurðinni var lokað og dagskráin gat hafist.
– Ágætu stjórnarmenn, sagði Bernhard. Ég vil byrja á að biðja ykkur afsökunar á því að þið skilduð verða boðaðir til stjórnarfundar með svona stuttum fyrirvara en erindið er brýnt og getur ekki beðið!
Fundarmenn litu undrandi og forvitnir í senn hver á annan. Eftir örstutta þögn hélt Bernhard síðan áfram.
– Eins og þið vitið þá er uppboðsdagur hjá okkur í dag. Við eigum von á mörgum gestum því það sem boðið verður upp eru sumt hvert mjög sérstakt og eftirsóknarvert. Flestir gestanna í dag koma þó vegna uppboðshlutar númer 542, bréfsins frá Dresden, eins og það hefur verið kallað.
Bernhard fékk sér vatnssopa og fundarmenn biðu spenntir eftir framhaldinu.
– Þetta bréf er horfið!
Fundarmenn litu þrumu lostnir allir sem einn á Bernhard. Í nokkarar sekúndur kom enginn upp orði. Doktor Garmisch, sem var elstur viðstaddra, rauf loks þögnina.
– Horfið? Var bréfinu stolið?
– Eiginlega ekki, svaraði Bernhard. – Það var bara „tekið“.
– Tekið?
– Já, tekið, svaraði Bernhard. – Leyfið mér að skýra þetta betur út. Byrjum á byrjuninni.
Bernhard fékk sér aftur vatnssopa.
– Það var í vor sem Póstminjasafnið í Dresden hafði samband við okkur út af nokkrum gömlum bréfum sem höfðu fundist þar á bæ. Í kjölfar flóðanna 2003 höfðu kjallarageymslur safnsins verið rýmdar og þá höfðu ýmsir hlutir komið í ljós sem fallið höfðu í gleymskunar dá. Meðal annars nokkur gömul sendibréf sem aldrei höfðu verið borin út. Eitt þessara bréfa vakti strax athygli vegna sérkennilegra póststimpla. Strax komu upp kenningar um að þetta bréf hefði að geyma upplýsingar sem merkilegar kynnu að vera; upplýsingar frá seinni heimstyrjöldinni eða árunum á eftir hana; upphafi kalda stríðsins. Þetta gætu verið leynilegar upplýsingar, hugsanlega tengdar njósnum og þess vegna risu upp deilur um hvort opna skildi bréfið og skoða innihald þess eða láta það ósnert og varðveita þar með verðmæti þess sem safngrips. Þrátt fyrir mikinn þrýsting ýmissa aðila var seinni kosturinn fyrir valinu og ákveðið að geyma bréfið á safninu óopnað sem safngrip. Það var síðan í vor að póstmynjasafnið hafði samband og fór þess á leit við okkur að við stæðum fyrir uppboði á bréfinu en safnið á við fjárhagserfiðleika að etja og vildi með sölu á bréfinu koma fjármálunum í réttan farveg.
– Þetta vitum við allt saman, sagði doktor Garmisch. –Viltu ekki snúa þér strax að kjarna málsins!
– Já, bréfinu var sem sagt komið til okkar, hélt Bernhard áfram, og okkar fyrsta hlutverk var að reyna að meta verðmæti þess. Við fengum til þess góðkunningja okkar, hinn virta prófessor Helmut Hartmann sem er, eins og þið vitið, einn virtasti sérfræðingum í gömlum frímerkjum og stimplum. Þetta er ekki í fyrsta skiptið sem við leitum til prófessorsins og öll samvinna okkar við hann hefur verið hin ánægjulegsta og um leið fyrirtæki okkar til góð.
Fundarmenn kinkuðu kolli, sumir hverir broandi, aðrir óþolinmóðir að bíða eftir að heyra framhaldið.
– Frá því prófessor Hartmann sá bréfið í fyrsta sinn var hann hinn einkennilegasti. Hann vildi sem minnst um málið tala og var tregur til að leggja mat á verðmæti þess.
Bernhard fékk sér enn einn sopann úr vatnsglasinu sem reyndar var orðið tómt.
– Helmut Hartmann tók bréfið síðan traustataki og hafði það með sér á brott!
Kliður fór um fundarherbergið. Sumir hristu hausinn vantrúaðir og aðrir litu skilningsvana á næsta mann. Fyrr en varði voru samræður komnar í fullan gang og fundarmenn áttu bágt með að trúa því sem þeir höfðu heyrt.
Bernhard hélt áfram.
– Við höfðum upp á prófessor Hartmann þar sem hann var á leið til Íslands. Bréfinu hafði hann hins vegar komið frá sér og það er núna staðsett einhverstaðar í nágrenni Reykjavíkur en prófessorinn hefur enga skýringu gefið á hátterni sínu.
– Til Íslands?, spurði doktor Garmisch. Hvað er bréfið að gera þar?
– Því miður hef ég bara enga hugmynd um það, svaraði Bernhard.
– Ég vissi alltaf að það væri eitthvað loðið við þetta bréf, sagði sá sem sat fjærst Bernhard og hét Ludwig Kranovic.
– Prófessorinn er sennilega á mála hjá einhverjum samtökum eða stofnun sem ekki vill að innhald bréfsins komi í ljós, hélt Ludwig áfram. – Hvað vitum við eiginlega um fortíð prófessors Hartmanns?
– Mér finnst afar ósennilegt að prófessor Hartmann tengist utanaðkomandi aðilum, svaraði Bernhard hvasst. – Mín skýring er sú að gamli maðurinn sé einfaldlega farinn að kalka. Bréfið hefur einfaldlega minnt hann á seinni heimstyrjöldina og þá hefur eitthvað slegið saman hjá honum. Það má guð vita hvað hann upplifði á þessum tímum. Hann gegndi herskyldu.
– Þarna er skýringin komin, sagði Ludwig Kranovic ákveðinn. – Einhver sem ekki vill að innihald bréfsins komi í ljós hefur beitt gamla manninn þrýstingi. Kannski hefur hann sjálfur tengst njósnum og er hræddur um að einhver gömul leyndarmál komi upp á yfirborðið.
– Við getum velt þessu fyrir okkur fram og til baka, sagði doktor Garmisch. – Spurningin er hins vegar: Hvar er bréfið og hvernig komum við því í okkar hendur aftur? Þetta er það sem skiptir fyrirtækið máli. Orðspor Julianus er einstakt í heimi uppboðsfyrirtækja og við getur ekki hætt á að þetta orðspor skaðist á neinn hátt.
– Við teljum okkur vita hvar bréfið er niðurkomið, sagði Bernhard. – Hugmynd mín er sú að ég fari á morgun til Íslands og hafi upp á bréfinu. Ég held að það ætti að geta gengið. Ég myndi taka prófessor Hartmann með mér!
– Er hann ekki kominn í varðhald fyrir þjófnað?, spurði Ludwig undrandi. Ekki ferðu að taka sökudólginn með þér?
Bernhard þagði um stund og leit síðan á fundarmenn einn af öðrum.
– Eins og prófessor Garmisch benti á áðan, sagði hann loks, þá er orðspor fyrirtækisins að veði. Við ættum að reyna að halda lögreglunni utan við málið eins lengi og hægt er. Það eina sem við verðum að gera er að fresta þessu uppboði um óákveðinn tíma. Ég tók mér það bessaleyfi að tala við Póstmynjasafnið í Dresden og skýra málið út fyrir þeim. Þeir eru tilbúinir að gefa okkur dálítið svigrúm til að leysa þetta mál áður en lögreglan verður kölluð til. Ég legg því til, ágætu fundarmenn, að við frestum öllum ákvörðunum fram í byrjun næstu viku. Við prófessor Hartmann förum með fyrsta flugi á morgun til Íslands. Ég verð að hafa prófessorinn með því hann þekkir til þess einstaklings sem er með bréfið í fórum sínum. Ég mun auðvitað hafa samband við ykkur hvern og einn ef eitthvað nýtt kemur í ljós í þessu máli!
Fundarmenn gáfu samþykki sitt og Bernhard sleit fundinum. Eftir skamma stund höfðu allir yfirgefið fundarherbergið nema Bernhard sem sat einn eftir. Honum hafði tekist að fá gálgafrest í málinu og hann vonaði að ferðin til Íslands yrði ekki til einskis.
Nokkrum mínútum síðar settist Ludwig Kranovic í Benz bifreið sína í bílageymslu fyrirtækisins. Hann tók upp farsímann og sló inn símanúmer sem hann hafði oft valið síðustu vikurnar.
Þegar svarað var á hinum enda línunnar sagði Ludwig varfærnislega:
– Það er komið upp vandamál sem breytir áætlunum okkar algerlega. Hefurðu einhvern tíma komið til Íslands?
(birta/fela)
8. Kafli
Þetta var sannkallað bílablíðviðri. Sól skein í heiði en það var samt ekkert sérstaklega hlýtt. Nissan-jeppinn þræddi götur Garðabæjar í átt að botnlanganum þar sem Andvari og fjölskylda hans áttu heima.
Hannes horfði út um gluggann og var þungt hugsi. Klukkan var að nálgast 6 á þessum viðburðaríka degi. Foreldrar hans höfðu hnakkrifist hálfa leiðina til Garðabæjar, allt frá því að Andvari nauðhemlaði jeppanum og las yfir syni sínum. Þannig var að pabbi Sabine, sem var rithöfundur, hafði fyrir mörgum árum átt í útistöðum við bókaforlagið sem Andvari var í forsvari fyrir. Þetta hafði verið hið leiðinlegasta mál. Báðir aðilar höfðu skrifað greinar í blöðin þar sem Andvari hafði kallað Einar pabba Sabine, kommúnista og Einar þessi hafði lýst Andvara sem afturhaldskapítalista, hvað sem það þýddi nú eiginlega.
Hannes hafði fengið að heyra þetta allt á leiðinni þegar foreldarar hans hálfpartinn öskruðu hvort á annað. En málið átti sér enn lengri sögu. Þegar Andvari hafði á ákveðnum tímapunkti sagt konu sinni að halda kjafti og skipta sér ekki af því sem henni kæmi ekki við, tóku samræðurnar nýja stefnu. Ingibjörg sagði þá að Andvari væri bara afbrýðissamur. Hann hefði aldrei getað umborið það að hún hefði verið í sambandi við þennan Einar áður en þau Andvari kynntust og það væri ástæðan fyrir öllum þessum bjánalega æsingi. Eftir þessa fullyrðingu hafði enginn sagt neitt lengi, ekki fyrr en Andvari bað son sinn skyndilega afsökunar. Auðvitað mætti Hannes tala við þá krakka sem hann vildi.
Þau nálguðust nú einbýlishúsið við enda botnlangans. Andvari keyrði bílinn upp að bílskúrnum og þau stigu út.
– Hvað hefur eiginlega gerst hérna?, kallaði Ingibjörg skyndilega.
Andvari leit yfir runnann og inn í garðinn. Útigrillið lá á hliðinni og veröndin var öll í glerbrotum. Þá flaut pizzukassi í heita pottinum.
– Það er einhver kall inni í stofu!, hvíslaði Hannes til foreldra sinna og benti á hávaxinn mann sem gekk hægt framhjá stofuglugganum.
– Guð minn góður, það hefur eitthvað komið fyrir, sagði Ingibjörg á innsoginu og tók farsímann upp úr veskinu. Ég hringi á lögregluna!, hélt hún áfram.
– Vonandi er allt í lagi með Steinunni, sagði Andvari. Við getum ekki beðið. Ég fer inn!
Andvari tróð sér í gegnum runnana, stökk yfir blómabeð og þreif í útidyrahurðina. Hún var læst. Hann dinglaði og bankaði kröftulega til skiptis um leið og hann leitaði að húslyklunum í vösum sínum. Hannes fylgdi föður sínum eftir en Ingibjörg var komin í samband við neyðarlínuna og búin að biðja um lögregluna i einum grænum hvelli.
Útidyrnar opnuðust og hávaxinn strákur um tvítugt með úfið hár, í gallabuxum og ber að ofan blasti við Andvara.
– Rólegan æsing, sagði strákurinn. Ertu að koma með pizzuna? Mundirðu eftir hvítlauksolíunni?
Andvari opnaði munninn til að segja eitthvað en kom ekki upp orði.
– Pabbi? Eruð þið komin heim? Steinunn, systir Hannesar, stóð allt í einu við hlið stráksins og brosti vandræðalega til föður síns. Hún var klædd í gulan íþróttagalla og sítt skolleitt hár hennar teygði sig langt niður á bak.
– Áttuð þið ekki að koma heim á morgun?
Andvari stóð enn orðlaus með opinn munninn þegar Ingibjörg ruddist framhjá honum og faðmaði dóttur sína að sér.
– Það er þá allt í lagi með þig, Steina mín, sagði hún hálfgrátandi. Ég fékk næstum taugaáfall þegar ég sá aðkomuna hérna við húsið! Hún þrýsti Steinunni enn fastar að sér og var litið á strákinn á gallabuxunum.
– Hver ertu þú?, spurði hún síðan.
– Þetta er hann Siggi, svaraði Steinunn og losaði sig úr faðmlögum móður sinnar. Hann fékk að gista í stofunni eftir partíið!
– Eftir hvaða partí?, spurði Andvari alvarlegur. Ertu að segja mér Steinunn að það hafi verið haldið partí hérna í húsinu á meðan við vorum í Þýskalandi? Er aðkoman hérna eins og hún er út af einhverju partí?
Andvari var allur að æsast upp og blés nú úr nös eins og brjálaður tuddi. Andlitið var orðið þrútið og minnti einna helst á pizzu með skinku og pepperoni.
– Ég held ég fari bara að drífa mig heim, sagði Siggi flóttalega og stefndi beinustu leið yfir garðinn út á götu.
– Ferðu allra þinna ferða svona ber að ofan og á sokkaleistunum, kallaði Ingibjörg háðslega á eftir honum.
Siggi snarstoppaði og skokkaði síðan vandræðalegur á svipinn aftur inn um útidyrnar. Hann kom aftur út að vörmu spori með peysugarm í hendinni og tróð sér í strigaskó sem lágu í óreiðu á stéttinni. Síðan var hann þotinn á braut.
Enginn sagði neitt. Ingibjörg og Steinunn stóðu í dyragættini, Andvari starði móður og másandi á eftir Sigga og Hannes virti draslið í garðinum fyrir sér.
– Pabbi vertu ekki að æsa þig svona upp. Þetta var bara ósköp venjulegt partí, sagði Steinunn loks. Siggi fékk að sofa í stofunni og hann hjálpaði mér meira að segja að taka til inni. Við ætluðum síðan að hreinsa garðinn. Ég hélt bara að þið kæmuð ekki fyrr en á morgun!
– Þetta er allt í lagi Steina mín, sagði Ingibjörg og faðmaði dóttur sína aftur að sér.
– Hann pabbi þinn er ekki í góðu jafnvægi í dag, hélt hún áfram. Hann æsir sig upp af minnsta tilefni!
– Minnsta tilefni? Minnsta tilefni? Þú ert nú bara ekki með öllum mjalla sjálf, kona! Það er ekki nóg með að þú komir okkur í klandur með kaupæðinu í þér, heldur leggur dóttir okkar heimilið í rúst og lætur svo einhvern aumingja sofa í stofusófanum!
Andvari sem var orðinn verulega æstur, strunsaði nú fram og til baka um garðinn eins og til að fá útrás fyrir reiði sína.
Rauður Fiat keyrði inn innkeyrsluna og að vörmu spori kom rauðklæddur pizzasendill blístrandi inn í garðinn.
– Vá, það er bara partí í gangi, sagði hann glottandi. Hvar á ég að setja pizzuna? Kannski bara beint í heita pottinn eins og þessa þarna!, hélt hann hlæjandi áfram og kinkaði kolli í áttina að pottinum.
Andvari gekk til sendilsins með geðveikislegt bros á vör.
– Það er kannski ekki svo vitlaus hugmynd, sagði hann síðan. Því næst greip hann um axlir sendilsins, sem átti sér alls einskis ills von, og henti honum beint ofan í pottinn með pizzunni og öllu saman.
– Andvari!, kallaði Ingibjörg þrumu lostin. Hvað ertu að gera!
Allt í einu var eins og Andvari næði áttum. Hann leit afsökunaraugum á pizzusendilinn sem stóð í miðjum heita pottinum og á einhvern óskiljanlegan hátt var ennþá með pizzuna í hendinni.
– Fyrirgefðu! Ég ætlaði ekkert að gera þetta, tuldraði Andvari fyrir munni sér. Þetta var bara óvart! Ég....
Lengra komst Andvari ekki því skyndilega var honum skellt á magann með andlitið beint inn í blómabeð.
– Rólegur vinur, engan æsing!
Einkennisklæddur lá á Andvara og þrýsti honum á jörðina. Hann og félagi hans höfðu verið í nágrenninu þegar útkall kom í gegnum talstöðina. Einhver kona hafði hringt í neyðarlínuna og beðið um hjálp. Heimili hennar væri umsetið afbrotamönnum og dóttir hennar sennilega í lífshættu. Lögregluþjónarnir höfðu ekið beinustu leið á heimilsfangið sem gefið hafði verið upp og séð úr fjarlægð hvernig maður á miðjum aldri gekk berserksgang fyrir framan húsið.
– Þið eruð aldeilis fljótir, sagði pizzusendillinn.
– Sleppið manninum mínum strax, kallaði Ingibjörg.
Lögregluþjónninn var staðinn á fætur og hann og félagi hans hífðu Andvara upp á lappirnar sem nú var kominn í handjárn.
– Þetta er allt saman misskilingur, hélt Ingibjörg áfram. Það eru engir innbrotsþjófar hérna!
Lögregluþjónarnir litu vantrúaðir hver á annan.
Hannes, sem hingað til hafði fylgst með öllu eins og úr fjarlægð, gekk til lögreglumannana.
– Þetta er alveg satt. Við eigum heima hérna öll nema þessi þarna, sagði hann og benti á pizzusendilinn í pottinum.
– Henti þessi maður þér ekki út í?, spurði annar lögreglumaðurinn.
– Ha? Nei, nei. Hann rakst bara eitthvað utan í mig, svaraði sendillinn um hæl.
Andvari hafði mælt orð af vör síðan lögreglan kom. Hann leit nú sakleysislegum augum á lögregluþjónana til skiptis.
– Nú jæja þá, sagði annar lögregluþjónninn og losaði handjárnin af Andvara.
– Ykkur er óhætt að fara. Þetta er allt á misskilningi byggt sagði Ingibjörg. Það var ég sem hringdi. Ég hélt að það hefði verið brotist inn en það var bara vitleysa.
– Er örugglega allt í lagi með ykkur öll?, spurði hinn lögregluþjóninn. Allir kinkuðu játandi kolli.
– Þig líka?, hélt hann áfram og leit á pizzusendilinn.
– Já, það er ekkert að mér, svaraði sendilinn brosandi.
Á meðan Andvari og Ingibjörg skýrðu málið betur út fyrir lögreglunni, hjálpuðu Steinunn og Hannes pizzusendlinum upp úr pottinum. Hann var holdvotur en aðeins nokkrar vatnsslettur sáust á pizzukassanum
– Viltu ekki skipta um föt?, spurði Steinunn umhyggjusöm. Þú passar örugglega í einhverja leppa af pabba.
Pizzusendillinn brosti til Steinunnar.
– Ég er til í það, svaraði hann og glotti. Hér er pizzan sem þið pöntuðuð!
Hannes tók við pizzunni og fann strax til svengdar þegar fann af henni bökunarlyktina.
Lögregluþjónarnir voru búnir að kveðja og Andvari sneri sér að blautum pizzasendlinum.
– Mig langar til að biðja þig afsökunar, sagði hann, og svo vil ég þakka þér fyrir að hafa ekki sagt allan sannleikann. Þú veist að þú hefðir sennilega getað lagt fram kæru!
– Enginn er verri þótt hann vökni, sagði sendillinn brosandi. Við erum nú ýmsu vanir í heimsendingunum skal ég segja þér. Okkar mottó er: Ef kúnninn er ánægður þá erum við ánægðir.
– Steina mín, finndu föt á manninn áður en hann kvefast, sagði Ingibjörg
– Ég var að fara til þess, svaraði Steinunn pirruð og rauk af stað.
Eftir að sendilinn var síðan farinn og töskurnar höfðu verið teknar inn úr bílnum, skipti fjölskyldan pizzunni á milli sín við eldhúsborðið. Allir voru í því að biðja hina afsökunar á því sem gerst hafði nema Hannes. Eftir matinn dreif hann sig í herbergið sitt, fleygði sér í rúmið og tók upp farsímann. Hann fletti upp á skilaboðunum frá Sabine og valdi síðan númerið hennar. Hún svaraði strax.
– Hæ Hannes, sagði hún
– Hæ
– Ég er með hugmynd varðandi bréfið, sagði hún
– Já, veistu ég held við ættum.....
– Viltu hitta mig í hádeginu á morgun niðri á Hlemmi?
– Endilega
– Sjáumst kl. 12 á morgun, bless
– Bless
(birta/fela)
7. Kafli
Andrúmsloftið á skrifstofu Hermine Wieland var sérkennilegt. Þetta mál var algert klúður frá upphafi til enda og Bernhard Osenberg var niðurbrotinn maður. Hann hafði ákveðið að gera hvarfið af bréfinu ekki að opinberu lögreglumáli og nú sýndist honum að sú ákvörðun hefði verið röng.
Þegar hann áttaði sig á því að bréfið var horfið hafði hann strax litið á upptökur eftirlitsmyndavéla fyrirtækisins. Kannski hafði einhver komið bréfinu tímabundið á annan stað. Það hafði hins vegar ekki farið á milli mála að prófessor Helmut Hartmann sótti bréfið í öryggishólfið og hélt beint með það úr húsi. Bernhard hafði síðan ítrekað reynt að ná í prófessorinn en það hafði engan árangur borið. Nokkrir dagar höfðu liðið án þess að tangur eða tetur sæist af Helmut þegar Bernhard fékk þá hugmynd að hafa samband við vin sin hjá bankanum sem var með aðgang að tölvuneti kreditkorta-fyrirtækjanna. Þar var síðan hægt að sjá að Helmut hefði keypt flugmiða til Íslands. Eftir eitt samtal við flugfélagið komst hann síðan að því að vélin sem prófessorinn ætti flug bókað með, færi seinna þennan sama dag. Þá hafði hann hringt í annan fyrrum skólabróður sinn sem nú var yfirmaður hjá flugvallarlögreglunni í Frankfurt og fengið hann til senda menn inn að leita að gamla manninum. Þeir höfðu síðan náð að stöðva hann áður en hann fór í vélina en bréfið var hann ekki með á sér.
Nú vissi Bernhard hins vegar um örlög þessa verðmæta bréfs. Það var nú ónýtt og synti í hundrað pörtum niður holræsarör flugstöðvarinnar.
Líklega yrði að draga Helmut til ábyrgðar þar sem trygginarfélagið myndi aldrei greiða verðmæti bréfsins. Til þess hefði þurft að tilkynna málið til lögreglu sama dag og þjófnaðurinn hafði átti sér stað og nú var meira en vika liðin frá því að það hvarf.
– Þú ert aldeilis búinn að koma mér í vandræði Helmut, sagði hann. Ég er líka hræddur um að ég verði að tala við lögregluna varðandi þinn hlut í þessu máli. Þú verður sennilega dreginn til ábyrgðar.
– Ég er nú líklega borgunarmaður fyrir þessu bréfi, mælti Helmut. Mér er svo sem líka sama. Ég á engin börn og systkyni mín eru ekki lengur á lífi.
– En að strákurinn skuli hafa eyðilagt bréfið, sagði Bernhard allt í einu. Mér finnst þetta einhvern veginn ótrúlegt!
Bernhard sneri sér að Hermine Wieland.
– Gætum við fengið að fara á vettvang? Er möguleiki að kíkja aðeins á þetta salerni þar sem bréfinu var sturtað niður. Kannski finnum við einhverjar leifar sem dottið hafa á gólfið. Það er aldrei að vita.
Hermine kinkaði hægt kolli og tók upp símann. Eftir skamma stund var bankað á dyr skrifstofunnar.
– Nei, eruð þið hérna ennþá?, sagði Andreas lögreglumaður þegar honum hafði verið vísað inn.
– Ef þér vilduð vera svo vænn og fara með þessa tvo herramenn á staðinn þar sem þið stöðvuðuð prófessor Hartmann hérna áðan, bað Hermine ákveðið.
– Augnarblik!, hélt hún áfram. Ég ætla að koma með!
– Þú varst ekki búinn að segja mér af hverju þú tókst bréfið, sagði Bernhard þegar þau voru á leið sinni um flugvallarbygginguna.
Helmut hafði ekki mælt orð af vör síðan svarið um örlög bréfsins kom frá Íslandi. Hann velti því fyrir sér hvort hann ætti nokkuð að segja frá raunverulegum ástæðum þess að hann hefði haft það á brott með sér. Fyrst að bréfið var glatað þá var sennilega best að gleyma þessu öllu saman. Það var líka vitleysa að vera að þvælast til Íslands. Það þjónaði engum tilgangi og gerði engum gagn.
– Ég skil það eiginlega ekki sjálfur, svaraði hann loks og var orðinn töluvert móður af göngunni.
Þegar þau komu inn á salernið umrædda var ræstitæknir á fullu við að þrífa og taka til rusl.
– Bíðið!, kallaði Bernhard. Síðan gekk hann rösklega úr einum klefanum í annan í leit að einhverjum leifum af bréfinu.
– Hafið þér nokkuð séð gamla bréfsnepla hérna, spurði hann ræstitækninn sem skildi ekki neitt í neinu.
– Ja, ég er nú eiginlega búninn að þrífa hérna, svaraði hann, og auðvitað var eitthvað bréfarusl sem ég fann. Hvað er það eiginlega sem....
Ræstitæknirinn komst ekki lengra því Bernhard hafði tekið ruslapoka sem þarna stóð og sturtað innihaldinu á gólfið. Alls konar bréf, pappamál og rusl flæddu um nýþrifið gólfið.
– Hvað á þetta eiginlega að þýða?, spurði ræstitæknirinn höstuglega þegar hann sá vinnu sína síðasta hálftímann hverfa fyrir lítið.
– Það getur verið að verðmætar pappírsleifar séu hérna í ruslinu, svaraði Bernhard og var lagstur á hnén til að leita.
– Hvernig lítur þessi pappír út?, spurði Andreas sem var líka kominn niður á gólf til þess að hjálpa.
– Ég veit það eiginlega ekki, svaraði Bernhard. En pappírinn er gamall og gulnaður.
Hermine Wieland var líka lögst á hnén að leita. Ræstitæknirinn brosti og var greinilega skemmt að fylgjast með öllum þessum embættismönnum skríðandi á gólfinu.
– Um hvað er að ræða?, spurði hann síðan. Get ég orðið að einhverju liði?
– Nei takk, svaraði Bernhard höstuglega. Þetta er alvarlegt lögreglumál og ekki þitt að spyrja einhverra spurninga!
Ræstitækninum var brugðið og leit á Helmut sem stóð þarna hjá og horfði á aðfarinar.
– Þetta er nú allt mér að kenna, sagði Helmut afsakandi. Bréfið hefði aldrei glatast ef ég hefði ekki komið því á strákinn. Honum hefur síðan brugðið svo mikið veslingnum þegar hann fann það að hann hefur rifið það í tætlur og sturtað því niður um klósettið.
– Það hefur þá ekki verið í dag, sagði ræstitæknirinn. Það var verið að gera við bæði klósettin hér í morgun og þau voru fyrst að komast í gagnið rétt áður en þið ruddust hér inn!
Bernhard leit upp eitt andartak, stökk síðan brosandi á fætur og faðmaði ræstitækninn þéttingsfast að sér.
– Hann hefur þá verið að ljúga blessaður drengurinn!
(birta/fela)