6. Kafli
„Velkomin heim!“
Hannesi fannst það alltaf jafn fyndið að flugfreyjurnar hjá Flugleiðum skyldu bjóða alla farþega velkomna heim í gegnum hátalarakerfið þegar fluginu til Keflavíkur var lokið og flugvélin á leið upp að landgöngurananum. Auðvitað var þetta notalegt fyrir Íslendingana um borð en aðrir farþegar voru hins vegar ekki á neinni heimleið. Hvað um það, þeir skyldu hvort eð er fæstir íslensku og þar af leiðandi skipti þetta ekki svo miklu máli.
Þetta ferðaleg var orðið eitt það ánægjulegasta sem Hannes hafði upplifað lengi. Sabine var ótrúlega skemmtileg, sérstaklega af stelpu að vera. Hún var líka laus við alla tilgerð, ekkert að sýnast og ansi sæt. Þau höfðu spjallað saman um heima og geima á leiðinni og höfðu komist að því að þau ættu sameiginleg áhugamál og hefðu svipaðan tónlistarsmekk.
– Það kemst engin hljómsveit með tærnar þar sem Bítlarnir hafa hælana, sagði Sabine.
– Mér finnst þeir frábærir, sérstaklega síðustu plöturnar þeirra, bætti Hannes við. Queen eru líka góðir eða voru góðir þegar Freddy Mercury var enn á lífi og söng með þeim!
„I want to break free.“ Hannes hélt um endann á öryggisbeltinu og söng með tilheyrandi tilþrifum byrjunina á uppáhalds laginu sínu með Queen. Sabine greip um sitt öryggisbelti og söng með.
Flugvélin hafði stöðvast og farþegar stóðu á fætur.
– Ætlarðu að hjálpa mér með pokana? Ingibjörg leit biðjandi til Hannesar.
– Þetta er svo mikið, sagði hún, ég nú bara með tvær hendur!“
Farþegarnir voru byrjaðir að mjakast út og Hannes sá á eftir Sabine þar sem hún gekk í átt að rananum. Hún sneri sér við og brosti til hans. Hannes brosti til baka. Hann átti eftir að kveðja hana en þau myndu áræðanlega hittast í fríhöfninni.
– Hérna, taktu þessa Hannes!
Hannes var kominn með þrjá troðfulla innkaupapoka í hendurnar. Tveir voru frá flugvellinum í Frankfurt og einn úr flugvélinni.
– Þetta er meira en góðu hófi gegnir!
Andvari, pabbi Hannesar, hafði lítið haft sig í frammi á leiðinni en blöskraði nú greinilega öll innkaup konu sinnar.
– Við verðum sennilega stoppuð í tollinum. Þetta er allt of mikið!
Þau voru síðustu farþegarnir til að yfirgefa vélina. Andvari brosti vandræðalega til flugfreyjunnar sem kvaddi þau við innganginn. Hannes svipaðist strax um eftir Sabine en sá hana hvergi.
– Jæja, nú drífum við okkur beint heim, sagði Andvari óþolinmóður þegar þau voru að nálgast hliðið hjá tollinum.
– Ég þarf aðeins að skreppa í fríhöfnina! Ingibjörg var ekki búin að svala innkaupaþörf sinni að fullu.
– Það kemur ekki til greina!, sagði Andvari og var byrjaður að reiðast en kunni ekki við að beita röddinni að neinu marki því þetta var á háannatíma og flugstöðin því full af fólki. Ingibjörg var þar að auki rokin inn í fríhafnarverslunina og hafði ekki heyrt skammirnar í manni sínum.
—Bless, kallaði Sabine og vinkaði til Hannesar um leið og hún gekk í gegnum tollinn. Hún hafði greinilega sótt farangurinn sinn strax og ekki komið við í fríhöfninni. Um leið og hún hvarf í gegnum hliðið blikkaði hún til Hannesar sem varð strax rauður í framan eins og pabbi sinn og kom ekki upp orði.
Nokkrum mínútum síðar var Ingibjörg komin með tvo fulla poka úr fríhafnarversluninni og Hannes og Andvari voru búnir að setja allar töskurnar og pokana á töskukerru.
– Ég skal lofa þér því að við verðum stöðvuð af tollinum. Það mætti halda að við værum búinn að versla inn hálfa Evrópu, hvíslaði Andvari til Ingibjargar þegar þau gengu í átt að útganginum.
– Reyndu bara að brosa elskan. Þetta verður allt í lagi, sagði Ingibjörg og brosti nú sínu sætasta til tollvarðanna.
Einn af starfsmönnum tollgæslunnar stóð allt í einu fyrir aftan þau.
– Má ég biðja ykkur vinsamlegast um að koma með aðeins hér til hliðar, sagði hann og hálfpartinn ýtti allri fjölskyldunni í átt að litlu herbergi rétt við hliðið.
– Við erum nú bara með dálítið af sælgæti og nokkrar jólagjafir fyrir fjölskyldina. Þetta er alls ekki eins mikið og það lítur út fyrir að vera, sagði Ingibjörg titrandi röddu og reyndi að halda brosinu.
– Jólagjafir? Í júní? Ja, það er ekki ráð nema í tíma sé tekið, sagði tollvörðurinn og átti erfitt með að halda niðri í sér hlátrinum. Í einni svipan varð hann síðan alvarlegur aftur.
– Má ég fá að líta á vegabréfin ykkar.
Andvari rétti tollverðinum vegabréfin og sendi konu sinni um leið eitrað augnaráð sem augljóslega þýddi að nú væri endanlega nóg komið.
Tollvörðurinn sem var feitlaginn með hvítt skegg og minnti á jólasveininn, leit strax í vegabréf Hannesar og kinkaði rólega kolli.
– Þú ert okkar maður, vinur minn, sagði hann og lagði höndina á öxl Hannesar. Ertu til í að tæma buxnavasana þína og setja innihaldið hér á borðið!
Hannes gerði eins og honum var sagt og leit síðan til foreldra sinna sem bæði voru gapandi af undrun. Honum leist ekkert á blikuna. Þetta snerist augljóslega um bréfið.
– Ertu með eitthvað meira á þér vinur?, spurði tollvörðurinn þegar hann var búinn að fara í gegnum allt það sem Hannes hafði sett á borðið. Þetta voru nokkrar kvittanir, sælgætisbréf, einhverjar evrur, lítil hárgreiða og síðan húslyklarnir.
– Nei, ég.. ég.. er búinn að tæma alla vasana, sagði Hannes og leið vægast sagt mjög illa.
Tollvörðurinn þreifaði síðan á Hannesi hátt og lágt eins og venja var í vopnaleit fyrir brottför.
– Hvað er eiginlega um að vera? Hvað á það að þýða að taka strákinn svona í gegn?, spurði Andvari í ásökunartón.
Tollvörðurinn sem var nú búinn að leita af sér allan grun sneri sér til Andvara.
– Okkur grunar að strákurinn hafi borið með sér dálítið til landsins!
– Þú ætlar þó ekki að halda því fram að sonur minn sé eitthvað burðardýr? Hann Hannes er 14 ára gamall, er duglegur í skólanum og hvorki reykir né drekkur! Hann myndi aldrei, ég endurtek, aldrei taka þátt í einhverju smygli. Er það skilið?
Hannes hafði ekki séð þessa hlið á föður sínum áður og var glaður að heyra það traust sem pabbi hans bar til hans. Þessu trausti mátti hann ekki bregðast. Hann gæti ómögulega sagt frá bréfinu.
– Rólegan æsing, sagði tollvorðurinn. Það hefur enginn minnst á neitt smygl. Við vorum beðnir um að kanna hvort strákurinn hefði borið með sér eitt stykki umslag sem einhver á að hafa laumað í vasa hans á flugvellinum í Frankfurt.
– Já eruð þið að leita að umslaginu, sagði Hannes og beitti öllum þeim leikrænu tilburðum sem hann kunni. Það stakk einhver gamall kall þessu umslagi í rassvasann hjá mér þegar ég var að pissa. Ég fattaði það ekki fyrr en hann var farinn. Mér fannst þetta svo asnalegt að ég reif bréfið í tætlur og sturtaði því niður! Ég var nú að reyna að segja þér frá þessu mamma, en þú varst eitthvað svo upptekin.
Hannes undraðist hvað hann átti auðvelt með að hagræða sannleikanum. Það væri líka fáranlegt að fara að reyna að skýra málið út fyrir tollverðinum. Hannes átti náttúrulega fyrir löngu að vera búinn að segja frá þessu bréfi og nú var það of seint.
– Ég er þess vegna ekki með bréfið og ég þekki prófessor Hartmann bara ekki neitt!
Hannes áttaði sig um seinan á mistökunum sem hann hafði gert.
– Hver er prófessor Hartmann? spurði tollvörðurinn og pírði saman augunum eins og hann væri að reyna að sjá í gegnum Hannes.
– Nú, það nafn sá ég á umslaginu áður en ég henti því í klósettið. Ætli það hafi ekki verið kallinn sem stakk því í vasann hjá mér. Hann var ofsalega prófessorslegur, sagði Hannes og strauk sér um hökuna eins og hann væri að velta málinu betur fyrir sér.
– Hvað um það. Þú ert greinilega ekki með þetta bréf, sagði tollvörðurinn. Hinkriði augnarblik, ég þarf að hafa samband við Frankfurt.
Það liðu nokkrar sekúndur án þess að einhver segði neitt eftir að tollvörðurinn var farinn. Andvari var fyrstur til máls.
– Varstu ekkert smeykur þegar þú fannst þetta bréf? Langaði þig ekkert að vita hvað stóð í því? Þú hefur nú hingað til verið svo forvitinn og ég á bágt með að trúa það hafi eitthvað breyst.
– Ég hnýsist samt ekki í annarra manna bréf, svaraði Hannes móðgaður. Ég vissi líka ekki að þetta skipti svona miklu máli. Ég hélt að kallinn væri bara eitthvað ruglaður. Og bara svo þú vitir það næst pabbi, þá er ég 15 ára, ekki 14.
– Þetta er nú alls ekki líkt þér Hannes minn að æsa þig svona upp við hann pabba þinn, sagði Ingibjörg. Hann er reynar ekki vanur að skipta sér neitt af uppeldinu og þú verður nú að taka tillit til þess.
– Hvers konar vitleysa er þetta eiginlega kona? Sinni ég drengnum ekki nógu mikið? Andvari var orðinn öskuillur. Þér væri nær að reyna að hlusta á son þinn þegar hann er að tala við þig í stað þess að þræða allar búðir eins og geðsjúklingur og hugsa bara um að kaupa, kaupa og kaupa!
– Þú skalt ekki voga þér að tala svona til mín, Andvari Eggertsson! Ingibjörg talaði lágt en augnaráð hennar hefði hrætt naut á flótta. Ef það er einhver sem sinnir börnunum okkar þá er það ég! Þú lítur ekki upp frá þessari tölvudruslu þinni, hvort sem þú ert heima eða á ferðalagi.
Hannes horfði til skiptis á mömmu sína og pabba. Þau voru alls ekki vön að rífast neitt en þessi uppákoma var þeim greinilega ofviða. Hann vissi að það borgaði sig ekki að segja þeim sannleikann úr því sem komið var. Þau myndu þá nefnilega hætta að skammast hvort út í annað en láta alla reiði sína og bræði bitna á honum sjálfum.
– Ég hef nú bara aldrei upplifað annað eins! Andvari var farinn að anda örar og andlitið var orðið þrútið af reiði. Hann greip í handlegg Ingibjargar.
– Þakkaðu bara fyrir...
Í því kom jólasveinslegi tollvörðurinn aftur og bjargaði þar með málunum. Hannes var orðinn hræddur um að foreldrar hans færu einfaldlega að slást eins og smákrakkar.
– Jæja. Þið megið þá fara. Ef þið skylduð muna eitthvað sem máli skiptir þá er símanúmerið hjá mér hérna, sagði tollvörðurinn og rétti þeim nafnspjald. Ég biðst afsökunar á því að hafa tafið ykkur svona.
– Þetta er allt í lagi. Ingibjörgu var greinilega létt. Við héldum reyndar að þú værir að stoppa okkur vegna alls dótsins sem við erum að koma með heim.
Tollvörðurinn fór að skellihlæja.
– Ég var nú bara búinn að gleyma öllum „jólagjöfunum“ í júní! Fyrst þú minntist á það, þá sakar nú sennilega ekki að þið sýnið mér aðeins í pokana.

Hálftíma síðar sat fjölskyldan þögul í Nissan jeppanum og stefndi í átt til höfuðborgarinnar. Enginn hafði mælt orð af vör frá því þau settust í bílinn. Þessi „vöruskoðun“ í tollinum hafði kostað sitt. Þau voru auðvitað með miklu meira en 3ja manna fjölskylda má flytja með sér inn í landið. Tollvörðurinn góðlegi hafði látið þau borga skatt af þeirri upphæð sem var yfir því sem leyfilegt var en sem betur fer hafði hann sleppt þeim við að borga sekt.
– Það er ekki nóg með að þú hlustir ekki þegar við þig er talað, heldur þarftu endilega að opna munninn þegar hann ætti helst að vera lokaður!
Andvara var ekki alveg runnin reiðin en æsingurinn var farinn úr röddinni og hann var ekki eins rauður í framan og hann hafði verið nokkru áður.
– Æi láttu ekki svona elskan, sagði Ingibjörg brosandi. Þetta voru samt sem áður góð kaup allt saman, jafnvel þó við höfum þurft að borga einhvern smá toll. Við höfum nú alveg efni á þessu.
Ingibjörg opnaði hanskahólfið og tók út geisladisk með Stuðmönnum. Hún setti hann hann í tækið og fyrr en varði glumdi tónlistin í bílnum.
– Þarf þetta endilega að vera svona hátt, kallaði Andvari.
Ingibjörg lækkaði strax í Stuðmönnum.
– Elskan mín ertu eitthvað tens? Við erum bráðum komin heim og þá skal ég láta renna í heitt bað handa þér. Þá líður úr þér þetta stress.
Stuðmenn sungu um haustið sjötíu og fimm og Andvari greip þéttingsfast en þó blíðlega um hönd konu sinnar.
– Imba mín, ég ætlaði nú ekkert að æsa mig þarna áðan. Þú verður að fyrirgefa mér. Þetta atvik í tollinum sló mig alveg út af laginu.
Hannes hélt niðri í sér andanum. Hann hafði verið að hugsa um Sabine en hafði alveg gleymt vandræðunum sem hann var kominn í út af bréfinu. Hann yrði að hafa samband við hana við fyrsta tækifæri. Hannes kveikti á farsímanum sínum og sló inn leyninúmerið. Eftir örskamma stund birtust tvö ný skilaboð á skjánum. Annað var frá systur hans, Steinunni sem var átján ára gömul og hafði verið ein heima meðan fjölskyldan var í útlöndum.
„Hvenær lendið þið á morgun?“ stóð í skeytinu. Hannes skildi þetta nú ekki alveg. Voru þessi skilaboð kannski síðan daginn áður eða var systir hans eitthvað að ruglast?
Hitt skeytið var frá Sabine. Hún þakkaði fyrir samveruna í flugvélinni og vonaðist til að heyra frá honum hið fyrsta. Hannes skrifaði henni strax til baka en minntist ekkert á uppákomuna í tollinum. Hann sagðist hins vegar ætla að hringja í hana síðar.
– Hvaða stelpu varstu að spjalla við á leiðinni?, spurði Ingibjörg allt í einu eins og hún hefði lesið hugsanir sonar síns.
– Hún heitir Sabine og er hálf íslensk og hálf þýsk, svaraði Hannes. Pabbi hennar er rithöfundur, kannski vitið þið hver hann er.
– Hvað heitir maðurinn?, spurði Andvari
– Hann heitir Einar, Einar Þór Agnarsson minnir mig.
Andvari rikkti Nissan-jeppann út í kantinn og snarhemlaði. Síðan sneri hann sér að Hannesi og sagði kuldalega:
– Þú talar aldrei við þessa stúlku aftur!
Í bakgrunni sungu Stuðmenn um íslenska karlmenn sem væru sko alls engar gungur.

(birta/fela)

This page is powered by Blogger. Isn't yours?