5. Kafli
– Á ég að trúa þessari vitleysu?
Bernhard leit vantrúaður á prófessor Hartmann.
– Þú ert bara ekki með öllum mjalla! Ætlastu virkilega til að ég trúi því að þú hafi stungið bréfinu í vasann hjá einhverjum ljóshærðum unglingi sem var að pissa?
– Ég myndi ekki ljúga að þér, Bernhard, sagði Helmut Hartmann skömmustulegur á svipinn. Það veistu. Ég er kannski farinn að kalka og auðvitað átti ég að láta bréfið eiga sig en ég er ekki lygari. Strákurinn tók ekkert eftir þessu. Hann var íslenskur og greinilega á heimleið.
Allt í einu var eins og Bernhard hefði fengið hugmynd.
– Við verðum að láta stöðva drenginn þegar hann kemur til Íslands, sagði hann og sneri sér að Andreasi lögreglumanni. Getið þér farið með okkur á skrifstofu aðaltollstjórans hér á flugvellingum?
Nokkrum mínútum síðar gengu þremenningarnir inn á tollstöðina í aðalbyggingu flugvallarsins í Frankfurt. Andreas fylgdi Bernhard og prófessor Hartmann beint að dyrum tollstjórans.
– Kærar þakkir. Ég þarfnast yðar ekki lengur, sagði Bernhard og brosti kurteisislega til Andreasar. Síðan bankaði hann síðan létt á hurðina.
– Þér bjargið yður áræðanlega. Prófessorinn lítur ekki út fyrir að vera neinn glæpamaður, sagði Andreas brosandi og blikkaði síðan til Helmuts áður en hann gekk í burtu.
Hurðin á skrifstofu tollstjórans opnaðist og ungur maður vísaði þeim inn. Handan við stórt skrifborð sat ljóshærð kona á fertugsaldri og talaði í síma.
– Gæti ég fengið að tala við aðaltollstjórann, spurði Bernhard vingjarnlega þegar konan hafði lokið símtalinu.
– Hermine Wieland, sagði konan og brosti til Bernhards. Ég er aðaltollstjóri flugvallarins. Hvað get ég gert fyrir yður?
Bernhard stóð kyrr í smástund eins og hann hefði verið tekinn úr sambandi.
– Afsakið, ég vissi ekki að tollstjórinn væri kona, sagði hann loks og sá strax eftir þessum heimskulegu ummælum.
– Þér eruð ekki sá fyrsti, sagði Hermine Wieland og brosti enn til Bernhards en ekki eins hlýlega og áður.
Hvaða erindi eigið þér við mig?
Bernhard dró fram pappíra og rétti tollstjóranum. Síðan skýrði hann stuttlega frá erindi sínu og lýsti því hvernig þessi ungi Íslendingur væri viðriðinn málið.
– Við verðum að láta stöðva drenginn þegar flugvélin lendir, sagði hann loks.
– Það er nú hægara sagt en gert. Lögsagnarumdæmi Þýskalands nær auðvitað ekki alla leið til þessarar litlu eyju úti á Atlandshafi. Við erum hins vegar í góðu samstarfi við tollyfirvöld á flugvellinum í Keflavík. Stundum eru grunsamlegir farþegar á ferðalagi milli landanna og þá er gott skiptast á upplýsingum.
Hermine leit á úrið á hendi sér.
– Bíðið augnarblik. Ég ætla að sjá hvað ég get gert, sagði hún og gekk síðan hröðum skrefum út úr skrifstofunni og skildi Helmut og Bernhard eina eftir.
– Strákurinn veit auðvitað ekkert um þetta allt saman. Það má ekki koma honum í einhver vandræði út af þessum elliglöpum í mér, sagði Helmut. Hann var sestur við lítið borð sem stóð fyrir miðri skrifstofunni og virtist miður sín yfir öllu saman
– Auðvitað verður þetta ekkert mál fyrir strákinn, sagði Bernhard. Hann lætur tollaverðina hafa bréfið og þá er málið leyst. Hann verður kannski dálítið undrandi en þetta er of flókið mál til þess að vera með einhverjar útskýringar.
Bernhard var líka sestur og spurði nú Helmut
– En af hverju varstu á leiðinni til Íslands með bréfið?
– Ja, það er nú saga að segja frá því. Ég hef oft komið til Íslands eins og þú veist og tala meira að segja örlitla íslensku.
– Þú ert nú ekki einn fremsti prófessor í germönskum fræðum í Þýskalandi fyrir ekki neitt!, sagði Bernhard glaðlega, klappaði prófessornum á öxlina og leit beint í augu hans.
– En hvað varstu að gera með ÞETTA bréf með þér, hélt hann áfram. Ég næ bara ekki samhenginu. ÞETTA bréf hefur ekkert með Ísland að gera. Ef ég þekkti þig ekki svona vel myndi ég halda að þú hefðir ætlað að reynda að selja bréfið.
Bernhard var allur að æsast á nýjan leik.
– Og af hverju reyndirðu að smygla því til Íslands, jafnvel þó þú sjálfur kæmist ekki með?
– Þetta byrjaði nú allt saman áður en þú fæddist vinur minn, ég var nýorðinn.......
Hurðin á skrifstofunni opnaðist og Hermine Wieland kom askvaðandi inn.
– Hér er útprentun af farþegalistanum, sagði hún. Við höfum ekki langan tíma. Vélin lendir bráðum í Keflavík.“
– Látum okkur sjá, sagði Bernhard. Hann setti gleraugun upp á ennið og rýndi í listann. Eftir stutta stund leit hann upp.
– Ég er búinn að finna drenginn. Það eru bara tveir farþegar á þessu reki með vélinni og annar er kvenkyns. Okkar maður heitir Andvarason. Hannes Andvarason.
Bernhard brosti rogginn til Helmuts og Hermine og sagði síðan.
– Hann er áræðanlega á ferð með mömmu sinni eða pabba. Við skulum finna þau líka, sagði hann og leit aftur yfir listann.
– Nei þau eru ekki með. Það er bara einn Andvarason í flugvélinni!
Nú brostu hins vegar bæði Helmut og Hermine.
– Má ég kíkja á listann aftur, sagði Hermine. Hún var fljót að finna það sem hún var að leita að.
– Pabbi hans er sennilega með í vélinni. Ég er búinn að finna einn Andvara!
– Nú er ég ekki alveg með á nótunum!, sagði Bernhard og leit undrandi á Hermine.
– Íslendingar notast ekki við fjölskyldunöfn eins og flestar aðrar þjóðir, sagði Helmut, heldur bera þeir fyrsta nafn föður síns sem fjölskyldunafn og stundum nú til dags jafnvel fyrsta nafn móður sinnar. Hannes þessi heitir ekki bara Hannes Andvarason heldur er hann líka sonur Andvara.
– Ég hef samband við þá strax í Keflavík, sagði Hermine og var aftur horfin fram.
Bernhard var sestur á nýjan leik.
– Þetta er nú meiri vitleysan. Einhver strákhvolpur frá Íslandi, sem hefur ekki einu sinna sama nafn og faðir sinn, situr á bréfi án þess að vita af því, sem er að minnsta kosti tvö hundruð og fimmtíu þúsund evru virði. Allt bara vegna þess að eitthvert gamalmenni laumaði því í rassvasann hjá honum á almenningssalerni án þess að nokkur tæki eftir því!
Berhard hélt um höfuð sér.
– Ég vona bara að bréfið sé ósnert og ekki skemmt! Tvö hundruð og fimmtíu þúsund evrur!
– Bernhard minn, sagði Helmut í hálfum hljóðum. Bernhard minn, peningar eru ekki allt!

(birta/fela)

This page is powered by Blogger. Isn't yours?