4. Kafli
– Ágætu farþegar. Þetta er flugstjórinn sem talar. Við fljúgum nú í 33 þúsund feta hæð og áætlaður komutími í Keflavík er eftir tæpar tvær klukkustundir. Veðrið í Keflavík er gott, sex stiga hiti, sól og norðanátt.
Sabine fór að hlæja.
– Það eru allir alltaf svo jákvæðir á Íslandi. Í dag er 13. júní og allir eru sáttir við að hitastigið sé bara sex gráður.
– Sjáðu. Hannes hafði ekki verið að fylgjast með. Hann hélt á umslaginu og starði á utanáskriftina. Hvernig hafði þetta bréf komist í buxnavasann hans? Atvikið í Frankfurt rifjaðist upp fyrir honum. Gat verið að sá gamli hefði laumað umslaginu í vasann þegar lögreglan kom inn? Hannes fannst það ótrúlegt. Hann minntist þess þegar hann fór eitt sinn með mömmu sinni til Glasgow rétt fyrir jólin í innkaupaleiðangur. Þau höfðu innritað sig á hótelið og drifið sig með strætó beint í miðbæinn. Það var ekki mikill tími til stefnu og mikið sem átti að versla inn. Í strætó var margt um manninn og þau þurftu að standa því engin sæti voru laus. Nokkrum mínútum síðar áttaði mamma Hannesar sig á því að veskinu hafði verið stolið úr töskunni hennar. Það var því lítið um innkaup þá helgina og pabbi hans varð að borga hótelið með símgreiðslu.
– Sjáðu þetta bréf. Hannes sýndi Sabine umslagið.
– Þetta er þýskt nafn. Hver er þessi prófessor Hartmann?, spurði Sabine og leit spyrjandi á Hannes.
– Ég veit það eiginlega ekki.
Hannes sagði Sabine frá prófessornum og lögreglumönnunum. Sabine hlustaði með athygli á þessa sérkennilegu frásögn. Allt í einu kveikti Hannes á perunni. Þess vegna sagði hann takk. Honum tókst að losna við þetta bréf áður en lögreglan kom! Hann hafði einfaldlega stungið því í buxnavasann hjá mér og ég tók ekki eftir neinu!. Hannes leit í skyndi á bréfið.
– Hvað ætli sé í umslaginu?“.Hannes leit spyrjandi á Sabine eins og hún ætti að vita það eitthvað frekar.
– Við verðum að láta einhvern vita, sagði Sabine áhyggjufull. Kannski eru þetta einhver leynileg skjöl eða peningar sem þessi prófessor var búinn að stela. Hann gæti verið njósnari. Eða, eða... kannski eru þetta eiturlyf!, hélt hún afram og virtist hafa fjörugt ímyndunarafl.
Hannes lagði umslagið frá sér og fékk sér sopa af kók eins og til að ná áttum. Síðan leit hann á Sabine og sneri umslaginu við.
Það var ekki límt aftur. Hann opnaði það varlega og dró innihaldið út. Annað umslag kom í ljós. Því var pakkað inn í þunna plastfilmu. Hannes og Sabine héldu bæði niðri í sér andanum. Þetta umslag var greinilega mjög gamalt. Pappírinn var brúnleitur og slaufuleg handskriftin gamaldags. Tvö frímerki voru á bréfinu og einhverjir stimplar.
– Þetta er örugglega hundrað ára gamalt bréf!, sagði Hannes og hljómaði eins og hann væri að segja draugasögu.
– Sennilega er það nú aðeins yngra. Stimpilinn hérna er síðan úr seinni heimstyrjöldinni. Þetta er hakakross en sjáðu hina stimplana. Bréfið er ekki frá Þýskalandi heldur Austurríki. Þessi stimpill er frá Vínarborg sem er höfuðborg Austuríkis.
– Ég veit, svaraði Hannes. Hann var góður í sögu og landafræði og var hálf móðgaður yfir því að Sabine skyldi tala til hans eins og hann vissi ekki neitt. Hann sneri gamla bréfinu við.
– Það er límt aftur! Hefur sennilega aldrei verið opnað.
Aftur héldu Sabine og Hannes niðri í sér andanum.
– Við verðum að koma því í réttar hendur!, sagði Sabine og var greinilega búin að taka ákvörðun um framhald þessa máls.
– Þetta gætu verið einhver leynileg skjöl frá seinni heimstyrjöldinni, sagði Hannes. Kannski einhver gömul hernaðarleyndarmál sem enginn veit um. Þess vegna er umslagið í plastfilmunni. Það eru sennilega fingraför á því sem ekki mega skemmast!
– Við þurfum alla vega að skila bréfinu. Sabina stóð föst á sínu. Til réttra aðila auðvitað.
– Hvað meinarðu? Hannes var ekki viss um hvern Sabine meinti. Eigum við að láta lögregluna hafa bréfið?
– Auðvitað ekki! Við þurfum að koma bréfinu til Dorotheu. Dorotheu Hirsch!
– Dorotheu Hirsch?
Hannes botnaði ekki neitt í neinu.
– Hver er það nú eiginlega?
– Líttu á bréfið!
Hannes las framan á bréfið. An Frau Dorothea Hirsch.
– Já en... Hannesi fannst þetta alveg fráleit hugmynd.
– Af hverju ekki? Bréfið er til hennar. Hún á það! Sabina var greinilega fljót að mynda sér skoðun á hlutunum.
– Hún er örugglega löngu dauð.... eða flutt einhvert. Þetta gæti líka verið eitthvert dulnefni. Mér finnst við ættum að koma bréfinu til lögreglunnar, sagði Hannes vantrúaður.
– Hvað ætlarðu að segja lögreglunni? Að einhver gamall prófessor hafi laumað því í rassvasann hjá þér þegar þú varst að pissa á flugvellinum í Frankfurt?. Sabine brosti til Hannesar. Þetta hljómar mjög trúverðuglega. Þeir halda frekar að þú hafir stolið því.
Hannes sem aftur hafði roðnað þegar Sabine leit brosandi til hans, fölnaði nú skyndilega.
– Sjáðu til. Pabbi minn gæti hjálpað okkur að koma bréfinu til skila. Heimilisfangið á umslaginu er í borginni Dresden sem er rétt hjá Berlín. Pabbi á nokkra vini þar og þeir gætu leitað að þessari Dorotheu. Ef hún á heima þarna ennþá, nú þá stingum við bara bréfinu í annað umslag og sendum það með pósti.
Hugmyndin var ekki svo slæm. Hannes leist líka betur og betur á Sabine. Hún var ekki bara sæt og skemmtileg heldur líka klár.
– Ef þú vilt skal ég taka bréfið, sagði Sabine. Áttu gemsa? Við getum verið í sambandi. Hvaða númer ertu með?
Hannes var fljótur að segja Sabine farsímanúmerið sitt. Þetta var kjörið tækifæri til að kynnast henni aðeins betur. Sabine lokaði augunum og tuldraði númerið fyrir munni sér.
– Ég er búinn að leggja númerið á minnið og ég skal senda þér sms þegar við erum lent, sagði Sabine og brosti enn einu sinni til Hannesar sem stakk gamla bréfinu í umslagið og rétti henni.
– Langar þig í eitthvað dót eða leikfang?, kallaði Ingibjörg. Hún var búinn að versla inn hálfan Sagaklass söluvagninn og sneri sér nú spyrjandi að syni sínum.
– Nei mamma!, hvíslaði Hannes í gegnum samanbitnar tennurnar og fann hvernig hann roðnaði aftur í framan.
– Pabbi er líka svona, sagði Sabine skilningsrík. Hann á rosa erfitt með að sætta sig við að ég sé ekkert smábarn lengur. Annars leyfir hann mér miklu meira en mamma úti í Þýskalandi.
– Mamma er alveg ágæt. Hún á bara eitt áhugamál og það er að versla. Þegar einhverjar búðir eru í nágrenninu þá missir hún gjörsamlega stjórn á sjálfri sér og hættir að hugsa rökrétt.
– En veistu hvað hún gerir í vinnunni?, hélt Hannes áfram. Hún rannsakar lík fyrir lögregluna!
– Er hún í leynilögreglunni eða eitthvað svoleiðis?, spurði Sabine og leit í skyndi yfir ganginn til Ingibjargar eins og hún ætti erfitt með að trúa Hannesi.
– Nei hún er réttarlæknir. Hún kryfur lík. Þú veist, sker þau í sundur og skoðar innyflin og svoleiðis.
Hannes var ekki að segja frá starfi móður sinnar í fyrsta skipti og naut þess til hins ýtrasta.
– Það fyndna er að þrátt fyrir að mamma sé að skera upp dautt fólk daginn út og daginn inn þá býður henni við að hreinsa kjúkling ef við erum með hann í matinn!

(birta/fela)

This page is powered by Blogger. Isn't yours?