3. Kafli
– Viljið þér sykur eða mjólk með kaffinu?
Það var ekki á hverjum degi sem flugvallarlögreglan í Frankfurt var beðin um að handtaka farþega á nýræðisaldri. Skilaboðin frá aðalvarðstofunni höfðu verið skýr. Prófessor Helmut Hartmann á leið til Íslands skyldi færður til yfirheyrslu. Hann væri 82ára gamall, við lélega heilsu en reyndar alveg hættulaus. Tveir lögreglumenn frá deild 2E höfðu verið sendir inn fyrir vopnaleitina og fundið prófessor Hartmann á leið inn á karlaklósettið. Hann hafði komið með þeim til baka á varðstofuna án þess að hreifa við mótmælum. Það var eins og hann vissi upp á sig sökina. En hvaða sök? Andreas Horst hafði starfað sem lögreglumaður í nokkur ár en honum fannst óþægilegt að þurfa að færa þennan aldraða mann til yfirheyrslu. Það minnsta sem hægt var að gera í stöðunni var að bjóða þeim gamla upp á kaffisopa.
– Smá mjólk, takk. Prófessor Hartmann sat við annan endann á löngu borði og horfði á kaffibollann fyrir framan sig. Hann var að mestu búinn að jafna sig á mæðinni og svitinn var hættur að renna niður andlitið. Síðastu dagar höfðu verið erfiðir og þessi uppákoma á flugvellinum var ekki til að bæta ástandið. Þetta var líklega eina tækifærið sem ég hafði. Ég er enginn unglingur lengur. Örlögin voru mér ekki hliðholl fyrir sextíu árum síðan og þau eru það svo sannarlega ekki núna, hugsaði prófessor Hartmann. Hugur hans hafði oft reikað til baka síðustu vikurnar. Það var eins og plástri hefði verið flett af gömlu sári og það væri byrjað að blæða aftur. Enginn veit sína ævina fyrr en öll er. Þessi gamli íslenski málsháttur kom upp í hugann. Hvað ætli sé gert við afbrotamenn á mínum aldri. Örlítil brosvipra læddist á andlit prófessorins. Í besta falli verð ég settur á stofnun.
– Kæri vinur!
Prófessor Hartmann leit upp. Hann hafði verið svo djúpt sokkinn í hugsanir sínar að það hafði algerlega farið framhjá honum að einhver væri kominn inn í herbergið. Hjá honum stóð snyrtilega klæddur maður um fertugt með stutt, grásprengt hár og kolsvart slaufulaga yfirvaraskegg.
– Hvað hefur hlaupið í þig, Helmut?
Snyrtilega klæddi maðurinn settist skáhált á móti prófessornum og tók varlega í hönd hans.
– Við erum búin að vera að leita að þér í viku!“
– Og nú ertu búinn að finna mig, Bernhard. Prófessorinn talaði í uppgjafartón. Hvort ætlarðu nú að láta stinga mér inn eða loka mig inni á stofnun?
– Í Guðanna bænum. Þú hefur þá ekki meira álit á mér en þetta? Ég fer ekki að loka góðan vin og þekktan fræðimann á bak við lás og slá?, sagði Bernhard og vissi ekki hvort hann átti reiðast eða hlæja. Hann stóð á fætur og hélt áfram.
– Ég varð samt að ná í þig sem fyrst. Þú veist að uppboðið er á morgun. Ég hafði strax samband við lögregluna þegar ég vissi hvað um var að vera. Þú keyptir flugmiðann með kreditkorti. Þannig höfðum við upp á þér.
Bernhard settist aftur og hálf hvíslaði til prófessors Hartmanns.
– Þetta er samt ekkert lögreglumál. Það verður enginn kæra lögð fram og þú kemur auðvitað með mér aftur til Bonn á eftir.
Prófessor Hartmann sagði ekki neitt en leit vandræðalega í kringum sig og klóraði sér í hnakkanum.
– Jæja. Láttu mig hafa bréfið. Við þurfum að leggja í hann sem fyrst! Bernhard var aftur staðinn á fætur. Hann leit á gamla manninn sem sýndi engin merki þess að ætla að verða við þessari beiðni.
– Hvar er bréfið? Bernhard var á svipstundu orðinn mjög æstur.
– Hvar er bréfið?
Prófessor Hartmann leit á úr sitt og svo rólega upp til Bernhards.
– Það er sennilega einhverstaðar yfir Bretlandseyjum!

(birta/fela)

This page is powered by Blogger. Isn't yours?