2. Kafli
Vélin tók að hristast. Hávaðinn í hreyflunum varð meiri og meiri. Hannes leit til foreldra sinna sem sátu hinu meginn við ganginn. Mamma hans hélt niðri í sér andanum og var orðin hvít í framan. Flugtak var ekki hennar skemmtilegasta upplifun. Andvari leit brosandi til konu sinnar og hvíslaði:
– Þetta er allt í lagi, elskan. Slepptu nú höndinni á mér áður en þú brýtur á mér fingurna. Mig langar að skreppa aðeins í tölvuna á eftir.
Allt í einu þaut flugvélin af stað. Hristingurinn jókst og hávaðinn eftir því. Ingibjörg keyrði höfuðið aftur og herpti aftur augun. Í þann mund sem flugvélin tókst á loft saup hún hveljur og rétt á eftir færðist sælubros yfir andlit hennar.
– Þá er það búið, sagði hún eins og ekkert hefði í skorist. Hannes brosti með sjálfum sér. Eitt það skemmtilegasta sem hann gerði á þessum ferðalögum var að fylgjast með móður sinni við flugtak. Stundum héldu farþegar í næstu sætum að eitthvað væri að en Ingibjörg kreisti þá fram brosgrettu og þar með var málið leyst. Að nokkrum mínútum liðnum var hún síðan venjulegast komin á kaf í sölubækling Sagaklass og farin að velta fyrir sér hvernig hún gæti eytt meiri peningum.
Þessu er lokið. Takk. Hannes var ennþá að reyna að skilja hvað hafði eiginlega gerst á flugvellinum Hver var þessi gamli maður? Var þetta einhver glæpamaður? Eða kannski ruglað gamalmenni sem sloppið hafði af einhverju sjúkrahúsi í nágrenninu? Pabbi Hannesar hafði ekki tekið eftir neinu. Sagðist hafa verið að senda tölvupóst og ekki litið upp frá skjánum. Í hálfum hljóðum endurtók Hannes það sem prófessor Hartmann hafði sagt:
– Es ist vorbei!
– Was ist vorbei?
Hannes hrökk við. Hún var dökkhærð, með stór blá augu og andlitið var eitt spurningamerki. Hann hafði ekki tekið eftir henni þegar hann settist í vélina. Hún sat við hliðina á honum, var greinilega þýsk og bara dálítið sæt.
– Eeh, sorry, I don’t speak þý...., German eeh, sorry...kræst
– Do you speak English?
– Eeeh, ja, yes I, I, do.... djöfulsins
Stóra sæta spurningamerkið breyttist í eitt stórt bros. Hún hló.
– Þú talar þó alla vega íslensku, er það ekki?
Hannes varpaði öndinni léttar. Nú vissi hann hvernig mömmu sinni leið við flugtak.
– Ég hélt þú værir Þjóðverji, sagði hann. Ég vissi ekki að þú værir íslensk.
– Ég er líka hvort tveggja. Mamma mín er þýsk en pabbi minn er íslenskur. Sæll, ég er Sabine, sagði hún og rétti brosandi fram höndina. Nú tók Hannes eftir smá hreim hjá henni.
– Hæ, Ég heiti Hannes, sagði hann. Hún var greinilega ekki alíslensk og alls ekkert feimin. Að auki var hann ekki vanur svona kurteisi af jafnöldrum sínum.
– Áttu heima á Íslandi?, spurði hann svona til að reyna að beina athyglinni frá því hvað hann hafði roðnað mikið.
– Já og nei!
Pabbi hennar hafði verið við nám í Austur-Berlín og þar kynntist hann mömmu hennar. Þau höfðu búið saman um tíma þegar Sabine fæddist en skömmu síðar slitnaði sambandið milli þeirra. Þetta höfðu verið miklir umbrotatímar í Þýskalandi og einhvern veginn áttu þau ekki lengur samleið. Þau skildu samt í vináttu og pabbi Sabine hélt til Íslands. Síðan þá hafði Sabine komið 2-3svar á ári til Íslands og stundum dvalist þar heilu sumrin, annað hvort hjá pabba sínum eða ömmu sinni og afa í Hafnafirði. Nú stæði hins vegar til að Sabine yrði lengur á Íslandi en venjulega.
– Það er náttúrulega best að vera á Íslandi, sagði Hannes glottandi og fullur sjálfsöryggi og þjóðarstolti.
– Það er alveg ágætt að vera á Íslandi, sagði Sabine, en það er líka mjög fínt að búa í Þýskalandi og þar á ég miklu fleiri vini og kunningja en á Íslandi.
Allt í einu var eins og Sabine væri í öðrum heimi. Brosið var horfið og röddin hljómaði einkennilega.
– Ég ætla að búa hjá pabba næsta vetur. Mamma er veik og ég veit ekki....
Hannes skynjaði að ekki var allt með felldu og ákvað að spyrjast einskis frekar. Hún var annars ekki sem verst þessi Sabine. Hannes hafði sennilega aldrei hitt stelpu eins og hana áður. Hún var opinská og laus við alla tilgerð. Var ekkert að sýnast. Honum var hugsað til skólasystra sinna sem sumar hverjar höguðu sér eins og leikarar í sápuóperu eða þátttakendur í raunveruleikasjónvarpi allan daginn.
– Má bjóða ykkur eitthvað að drekka með matnum?, spurði stífmáluð flugfreyjan og tannkremsbrosið náði út að eyrum.
– Kók, takk, svaraði Hannes.
– Það gera 100 krónur!
– Þú getur borgað gosið þitt sjálfur, Hannes, kallaði mamma hans þvert yfir ganginn. Hannes reis upp til hálfs og sótti 100 krónu mynt í rassvasann. Eitthvað bréf eða umslag þvældist fyrir honum. Hann borgaði flugfreyjunni og leit á umslagið. Það var eins og hann hefði séð draug. Á miðju umslaginu stóð skrifað með prentstöfum.

prof. Helmut Hartmann

(birta/fela)

This page is powered by Blogger. Isn't yours?