1. Kafli
– Þú verður að flýta þér. Annars missum við af vélinni!
Það var alltaf sama sagan. Hannes var nýorðinn 15 ára gamall en alltaf var komið fram við hann eins og smákrakka. Hannes vissi að foreldrar hans meintu þetta vel en einhvern veginn var það samt óþolandi að vera ekki treyst fyrir neinu. Mamma hans, Ingibjörg Hannesdóttir, réttarlæknir, var þó öllu verri en pabbi hans.
Hannes hálfpartinn skokkaði inn á karlaklósettið, svona helst til að friða mömmu sína. Auðvitað myndu þau ekki missa af vélinni. Klukkan var rétt rúmlega tólf á hádegi og vélin átti ekki að fara í loftið fyrr en klukkan eitt. Þetta var nefnilega ekki í fyrsta skiptið sem Hannes fór til útlanda. Andvari Eggertsson bókaútgefandi, pabbi Hannesar, var bókstaflega alltaf á ferðalagi. Stundum var Hannes svo heppinn að fá að fara með pabba sínum en oftar en ekki var mamma líka með og þá var ekki eins skemmtilegt.
Dyrnar á karlaklósettinu stóðu hálfopnar og Hannes smokraði sér inn á milli stafs og hurðar. Á móti honum tók þessi sérkennilega sápulykt sem bara finnst á þýskum almenningssalernum. Eiginlega fannst Hannesi hún verri en venjuleg pissufýla en mamma hans hafði sagt honum að fyrir Þjóðverja skipti umgengni og hreinlæti miklu máli. Hvað um það, Hannes var ekki í fyrsta skipti á flugvellinum í Frankfurt og sterkur hreingerningarilmurinn aftraði honum ekki frá því sem til stóð.
„Slá í gegn, slá í gegn!“.
Hannes kunni einfaldlega öll Stuðmannalögin utanað. Mamma hans var Stuðmannaaðdáandi númer eitt á Íslandi. Hannes sönglaði gjarnan þegar hann létti af sér og „Slá í gegn“ varð í þetta skipti fyrir valinu. Hljóðið úr pissuskálinni sá um undirleikinn.
Skyndilega skelltist hurðin á karlaklósettinu aftur. Hannes hrökk í kút og bunan stoppaði um leið. Lágvaxinn, gráðhærður maður í jakkfötum með gamaldags flöskubotnagleraugu gekk hröðum skrefum beint til Hannesar. Hann var sveittur í framan og mælti með skjálfandi röddu:
– Es ist vorbei!
Hannes kunni ekki mikið í þýsku en þetta skildi hann. Þessu er lokið. Hvað var gamli maðurinn að meina? Hverju var lokið? Átti að loka klósettinu? Var flugvélin kannski farin? Sá gamli klappaði Hannesi létt á öxlina og leit beint í augu hans.
Nú var hurðinni hrundið upp. Tveir þýskir lögreglumenn gengu inn.
– Professor Hartmann! Kommen Sie bitte mit uns!
Gamli maðurinn, sem greinilega var einhver prófessor Hartmann, leit ekki af Hannesi en gekk hægum skrefum afturábak í átt að lögreglumönnunum. Rétt áður en hann sneri sér við hvíslaði hann til Hannesar.
– Danke!
Takk! Hvað er eiginlega að gerast? Hannes skildi ekki neitt í neinu. Löggurnar og prófessor Hartmann voru farin. Þetta er bara eins og í sakamálamyndaflokki í sjónvarpinu; það vantaði bara lögregluhundinn. Hannesi stóð ekki lengur á sama. Hann rauk af stað og rétt áður en hann yfirgaf salernið áttaði hann sig á því að sennilega væri betra að girða upp buxurnar áður en hann færi fram.
– Sástu prófessor Hartmann og löggurnar?, spurði Hannes mömmu sína þegar hann var búinn að finna hana við ilmvatnshillurnar í fríhöfnunni.
– Hartmann, hvað?, sagði mamma hans sem greinilega var að hugsa um eitthvað allt annað.
– Hvernig finnst þér þessi ilmur?, spurði hún allt í einu og rak blauta ilmvatnaprufu næstum því upp í nefnið á Hannesi. Hannes vissi að hann gæti svarað eins og honum sýndist, mamma hans væri hvort eð er ekkert að hlusta á hann frekar en fyrri daginn.
– Þessi ilmur minnir mig á þýsk almenningssalerni, svaraði Hannes en mamma hans var rokinn í átt að afgreiðsluborðinu og búin að taka upp kreditkortið.
Fyrir hvað var prófessorinn eiginlega að þakka mér?, hugsaði Hannes á meðan hann hann gekk hægum skrefum í átt að brottfararhliðinu.
(birta/fela)

This page is powered by Blogger. Isn't yours?