18. kafli
Bernhard Osenberg opnaði augun hægt og varlega. Birtan sem mætti honum gaf til kynna að hann væri ekki kominn yfir móðuna miklu heldur væri sennilega á einhvers konar spítala. Hann hreyfði fingurna örlítið og síðan tærnar. Jú, allt virtist vera á sínum stað. Hann fann ekki mikið til en það gat hann þakkað öllum þeim verkja- og deyfilyfjum sem búið var að dæla í hann. Bernhard mundi óljóst eftir slysinu. Þetta hafði allt gerst mjög hratt. Fyrr en varði voru sjúkraflutningamenn að færa hann á börur. Útundan sér hafði hann séð hvernig Helmut var borinn í skyndi í burtu með súrefnisgrímu á andlitinu
Eftir dágóða stund opnuðust dyrnar á sjúkraherberginu og einhverjir komu gangandi inn.
– Góðan dag, ég heiti Hilda, mælti gömul kona á þýsku sem nú stóð við rúmið hans. – Hvernig líður þér?
– Ég finn ekkert til, svaraði Bernhard þvoglumæltur. – Hvað með Helmut? Er hann á lífi?
Gamla konan sneri sér að lækni sem líka stóð við rúmið. Eftir stutt orðaskipti við hann sneri hún sér aftur að Bernhard.
– Hann er á gjörgæsludeild. Hann er í góðum höndum hérna á spítalanum. Við þurfum hins vegar að spyrja þig nokkurra spurninga. Með mér er Örvar Þór, læknir.
Örvar Þór kinkaði vinsamlega kolli til Bernhards.
– Þú ert töluvert meiddur, herra Osenberg, hélt hún áfram. – Það þarf að framkvæma uppskurð á þér til að koma í veg fyrir að mænan skaðist. Doktor Örvar Þór vill vita hvort þú sért samþykkur slíkri aðgerð.
Bernhard hreyfði aftur tærnar örlítið og reyndi að brosa.
– Er ég nokkuð lamaður? spurði hann síðan.
Örvar Þór hristi góðlátlega hausinn og hvíslaði einhverju til Hildu.
– Þú ert með beinbrot á alvarlegum stað nálægt mænunni sem verður að huga að áður en það byrjar að gróa, sagði Hilda síðan.
– Ef læknirinn telur aðgerðina nauðsynlega þá er ég til, svaraði Bernhard eftir stutta stund.
Hilda þýddi svarið yfir á íslensku og læknirinn kinkaði brosandi kolli.
– Ertu með ofnæmi eða tekurðu inn lyf reglulega? spurði Hilda síðan.
Berhard hristi hausinn.
– Þú verður skorinn upp á eftir, sagði Hilda og tók hughreystandi í höndina á Bernhard.
– Hafðu engar áhyggjur, þú ert í mjög góðum höndum!


Tveimur hæðum ofar á sömu sjúkrastofnun lá prófessor Helmut Hartmann á gjörgæsludeild. Hann var í einhverskonar móki og það var eins og hann væri að dreyma. Gamlar minningar sóttu á hann. Voru þetta endalokin? Er ég að deyja? Birtist ævi mín fyrir augu mér eins og kvikmynd?
Viðvörunarbjöllurnar fóru í gang. Enn ein árásin. Ætlar þessu bölvaða stríði aldrei að ljúka?– Það yfirgefur enginn bygginguna fyrr en við höfum eytt öllum þessum pappírum, hrópaði yfirmaður deildarinnar í gegnum flugvélagnýinn
– Hartmann!
– Já, herra!
– Hartmann, þú berð persónulega ábyrgð á því að allir dulmálskóðar verði eyðilagðir!
– Já, herra!
– Hartmann!
– Já, herra!
– Þú gerir þér grein fyrir því hvað gerist ef þess kóðar komast í hendur óvinarins?
– Já, herra!
– Af stað!
– Já, herra!
Helmut Hartmann gekk rösklega af skrifstofu yfirmanns síns og inn í álmuna þar sem dulmálskóðarnir voru geymdir. Hann var að því kominn að opna skápinn þegar fyrstu sprengjurnar lentu. Byggingin skalf og nötraði og Helmut kastaði sér á gólfið. Hann leit til skiptis á skápinn með kóðunum og skrifborðið sitt.
– Nú eða aldrei, hugsaði hann með sér. Síðan stökk hann á fætur, tók bréf úr skrifborðsskúffunni og hljóp sem fætur toguðu út úr byggingunni. Glampandi sólskinið var á skjön við flugvélagnýinn og sprengingarnar.
– Hartmann! Hvert ertu að fara? öskraði yfirmaður deildarinnar á eftir honum.
Helmut snarstoppaði og sneri sér við.
– Ég kem aftur að vörmu spori.
– Kláraðu það sem fyrir þig var lagt. Á stundinni!
Helmut vissi ekki hvort hann ætti að halda áfram eða snúa við. Hann stóð því sem frosinn nokkra metra frá byggingunni og kom ekki upp orði.
Yfirmaður hans hafði tekið upp skammbyssu og beindi henni nú til Helmuts.
– Dauður hermaður er betri en óhlýðinn hermaður, Hartmann! sagði yfirmaðurinn og bjóst til að hleypa af.
Í sama mund þeyttist Helmut langa leið. Tvær sprengjur höfðu nær samstundis lent á byggingunni sem breyttist á einni svipan í brennandi rústir. Allir sem inni höfu verið létust samstundis, þar með talinn yfirmaður deildarinnar.
Helmut skreið vankaður í skjól bak við steinvegg. Hann stakk bréfinu sem bjargað hafði lífi hans inn á sig og tók að hreinsa burt sót og drullu sem safnast höfðu á gleraugun.
Hann hugsði með sér að svo kaldhæðið sem það hljómaði þá hefðu sprengjurnar hjálpað honum að framfylgja síðustu skipun yfirmannsins.
Dulmálskóðarnir voru eyddir en hann var á lífi og með bréfið á sér.

Helmut opnaði augun lítillega. Hjá honum stóð hvítklæddur maður. Helmut sá ekki mjög skýrt en eftir örskamma stund greindi hann að maðurinn sem hjá honum stóð var hann sjálfur, eins og hann hafði litið út mörgum árum áður.
– Ertu kominn til að sækja mig? spurði Helmut í gegnun súrefnisgrímuna. – Er þetta búið?
– Nei, þú verður að dvelja hérna eitthvað lengur, svaraði sá hvítklæddi brosandi. – Þú ert ekki á leið í burtu í bráð.
Helmut lokaði augunum.
Um leið og hann sofnaði velti hann því fyrir sér af hverju hann hefði talað við þennan sjálfan sig á íslensku.
(birta/fela)

17. kafli
Dúfnahópurinn safnaðist í kringum útigangsmanninn á bekknum. Hann hafði hent nokkrum brauðmolum á stéttina fyrir framan sig og fuglanir þyrptust til hans á svipstundu úr öllum áttum. Veðrið var yndislegt, 27 stiga hiti og sól. Á torginu var margt um manninn eins og venjan er á þessum tíma dags. Flestir voru á leið heim úr vinnu en svo var líka mikið um ferðamenn sem dáðust að 750 ára gamalli byggingunni sem blasti við þeim. Dómkirkjan í Köln er meira en 150 metra há. Turnar hennar gnæfa yfir nágrennið sem samanstendum af skrifstofum, verslunum og kaffihúsum. Á einu slíku sat Ludwig Kranovic og horfði óþolinmóður út um gluggann á manninn og dúfnahópinn.
– Má bjóða yður eitthvað meira? spurði þjónustustúlkan vingjarnlega um leið og hún tók tóman kaffibollann af borðinu. Hún var dökk yfirlitum og talaði þýsku með hreim sem benti til þess að hún væri af tyrkneskum uppruna.
– Annan kaffibolla, takk, svaraði Ludwig og kveikti sér í sígarettu. Hann leit á úrið og síðan á farsímann en enginn hafði hringt eða sent skilaboð.
– Hann ætti að vera kominn fyrir löngu, hugsaði Ludwig með sér. – Klukkan er orðin korter yfir fimm!
Hann fiktaði órólegur í farsímanum og askan datt af sígarettunni á borðið.
– Herra Kranovic!
Ludwig spratt á fætur og tók í höndina á sköllóttum manni á miðjum aldri.
– Góðan daginn!
Sá sköllótti settist. Hann var snyrtilegur til fara, í svörtum jakkafötum, hvítri skyrtu og með bláköflótt bindi. Einkennilegt bros lék um varir hans; það glytti í glansandi tennurnar en augntillitið var kalt og rannsakandi.
Þjónustustúlkan kom með kaffið handa Ludwig.
– Hvað má bjóða yður? spurði hún þann sköllótta.
– Ekkert, takk!
Þegar þjónustustúlkan var farin hallaði sá sköllótti sér að Ludwig.
– Allir þessir útlendingar hérna, sagði hann. – Sjáðu t.d. stúlkuna sem er að þjóna okkur. Það rennur ekkert þýskt blóð í þessum æðum. Á meðan hún gengur hér beina eru hundruðir þúsunda atvinnulausar í Þýskalandi. Væri ekki nær að senda þetta lið heim til sín og hleypa okkar fólki að?
Áður en Ludwig náði að svara einhverju hélt sá sköllótti áfram.
– En við erum ekki hingað komnir til að ræða um daginn og veginn, er það nokkuð?
Ludwig reyndi að sýnast rólegur en röddin titraði um leið og hann opnaði munninn.
– Ég tel mig vita hvar bréfið sé, sagði hann, og ég er viss um að það verður komið í okkar hendur á allra næstu dögum.
Sá sköllótti leit hvasst beint í augu Ludwigs án þess þó að hætta að brosa.
– Ég er mjög þolinmóður maður, herra Kranovic, og get líka verið mjög skilningsríkur. Þegar þú hafðir samband í gær og sagðir að töf yrði á afhendingu bréfsins var ég viss um að á því væri eðlileg skýring.
Ludwig Kranovic létti örlítið og sagði síðan:
– Prófessor Hartmann tók bréfið úr öryggishólfinu kvöldið áður en við ætluðum að láta til skarar skríða. Það eru öryggismyndavélar út um alla byggingu og við vorum búnir að búa þannig um hnútana að á þeim yrði slökkt um stundarsakir. Þá hefði ég tekið bréfið sjálfur úr hólfinu og haldið með það á brott. Eiginlega var ég bara óheppinn. Hefði sá gamli verið einum degi seinna á ferð hefði áætlunin gengið upp.
– Og nú er bréfið á Íslandi?
– Já, ég veit hvar það er niðurkomið. Við erum bara að bíða eftir réttu augnarbliki til að grípa til aðgerða. Þú verður búinn að fá bréfið í síðasta lagi eftir viku.
Sá sköllótti hallaði sér aftur á bak í stólinn og dró djúpt andann.
– Mig langar til að skýra svolítið út fyrir þér, herra Kranovic. – Við erum búnir að millifæra inn á reikning þinn í Sviss háa peningaupphæð og afganginn færðu þegar verkinu er lokið. Samtök okkar eru örlát þegar tilefni gefst. Varan sem þú ætlar að útvega okkur hefur líka mikið gildi fyrir okkur og málstað okkar.
– Ég geri mér fulla grein fyrir því, sagði Ludwig. – Ég er líka þakklátur að hafa feng....
Sá sköllótti greip fram í fyrir honum.
– Við ætlumst líka til að staðið sé við samninga sem við okkur hafa verið gerðir. Ef þú hefðir staðið við þinn hluta samningsins væri ég kominn með vöruna og seinni greiðslan væri í þann mund að eiga sér stað.
– Ég fullvissa ykkur um að....
– Þú hefur þrjá daga!
– Þrjá daga? Ég veit ekki hvort það dugar, sagði Ludwig titrandi röddu.
Sá sköllótti stóð á fætur og tók peningaveski úr jakkavasa sínum.
– Ég skal borga fyrir þig kaffið, sagði hann og lagði nokkarar evrur á borðið. Síðan dró hann upp ljósmynd úr veskinu sínu og virti hana fyrir sér. Hann lagði myndina á borðið fyrir framan Ludwig.
– Þær eru ansi sætar. Hvað eru þær gamlar? átta ára? spurði hann síðan.
Blóðið fraus í æðum Ludwig. Á myndinni voru tvær stúlkur að leika sér. Þetta voru dætur hans, tvíburarnir. Myndin var tekin fyrir framan skólann sem þær gengu í.
– Hvað á þetta að þýða, hvíslaði Ludwig hásri röddu.
– Þú hefur þrjá daga til að ljúka verkinu. Ef þrír dagar duga ekki til þá gætu örlögin gripið í taumana. Slys gera sjaldnast boð á undan sér og maður veit aldrei hver er næstur.
Brosið á andliti sköllótta mannsins vék fyrir meðaumkunarsvip og það vottaði allt í einu fyrir hlýju í annars köldu augnráðinu. Hann leit á myndina.
– Það væri synd. Þetta eru svo myndarlegar stúlkur. Báðar ljóshærðar og bláeygðar.
Ludwig kom ekki upp orði en starði á myndina fyrir framan sig. Sá sköllótti gekk nokkur skref frá borðinu og sneri sér svo við.
– Þú mátt eiga myndina, sagði hann síðan brosandi. – Hún heldur þér sennilega við efnið.
(birta/fela)

16. kafli
Á sama tíma og prófessor Helmut Hartmann og Bernhard Osenberg voru fluttir með hraði á neyðarmótttöku Borgarspítalans sat Hannes heima hjá sér og las kennslubók í mannkynssögu. Atburðir síðustu daga og tilvist dularfulla bréfsins sem stílað var á Dorotheu Hirsch í Dresden höfðu vakið áhuga hans á seinni heimstyrjöldinni. Hann var að lesa um árin eftir stríð þegar að síminn hans hringdi.
– Hæ, þetta er ég! sagði Sabine
– Hæ!
– Góðar fréttir. Guðrún í sendiráðinu var að hringja í mig. Hún er búin að ná í konu sem kannski getur hjálpað okkur. Þessi kona heitir Hilda og hún er heima núna. Eigum við ekki að fara til hennar strax?
Hannes var sammála og klukkustund síðar stóðu þau fyrir utan húsið þar sem Hilda átti heima. Hannes hringdi dyrabjöllunni og lágvaxin, gráhærð kona kom til dyra.
– Þið hljótið að vera krakkarnir sem Guðrún sagði mér frá, sagði Hilda og brosti góðlátlega. Síðan bauð hún þeim inn.
– Sæl og blessuð. Ég heiti Hannes og þetta er Sabine, sagði Hannes og undraðist hvað hann var allt í einu orðinn kurteis. Voru þetta einhver áhrif frá Sabine?
– Komið inn í stofu og fáið ykkur sæti. Má bjóða ykkur eitthvað drekka? Gos? Mjólk? Kaffi? Te?
– Te væri fínt, takk, svaraði Sabine.
Hannes leit undrandi á Sabine.
– Te?
– Viltu líka te? spurði Hilda
– Ég? Te? Jú ætli það ekki bara, svaraði Hannes hálf ringlaður.
Á meðan Hilda fór fram að sækja drykkjarföngin, hvíslaði Sabine að Hannesi:
– Þú drekkur aldrei te, er það nokkuð?
– Jú, ég drekk mikið te, laug Hannes og undraðist hvað hann var tilbúinn að leggja mikið á sig til að geðjast Sabine.
– Hvernig te finnst þér best?
– Hvernig te? Bara svona venjulegt.... te.
Sabine fór að hlæja.
– Ég vona að þú hafir logið meira sannfærandi þegar þú varst spurður í tollinum um daginn, sagði hún síðan.
Hannes roðnaði og Hilda kom inn með þrjá bolla og te í könnu.
– Þið voruð að forvitnast um borgina Dresden, sagði Hilda.
– Við erum að leita að konu sem átti heima þar í seinni heimstyrjöldinni, sagði Sabine.
– Eiginlega erum við að leita að ákveðnu heimilisfangi, sagði Hannes.
– Þið segið nokkuð, sagði Hilda. – Það er harla ólíklegt að ég geti hjálpað ykkur mikið. Það væri mikil hundaheppni ef ég kannaðist við þessa konu sem þið eruð að leita að. Ég flutti frá Dresden 1945 og ég er bara einu sinni búin að fara þangað síðan.
– Ertu þýsk? spurði Hannes undrandi. – Ég heyri engan hreim þegar þú talar.
– Mér finnst ég nú vera orðinn Íslendingur eftir allan þennan tíma, svaraði Hilda.
– Af hverju fluttirðu til Íslands? spurði Hannes.
– Við komum ansi margar hingað eftir stríð. Þannig var að þegar að heimstyrjöldinni lauk var ástandið í Evrópu vægast sagt mjög slæmt. Í Þýskalandi var mikil fátækt og margar ungar konur voru búnar að missa mennina sína. Þess vegna fluttu margir til annarra landa. Hingað til Íslands komu nokkrar konur sem flestar hófu störf sem vinnukonur á sveitabæum. Þannig var það líka með mig.
Hilda leit brosandi á krakkana til skiptis. Síðan færðist angurvær svipur yfir andlit hennar og hún leit út um stofugluggann án þess þó að hún væri að horfa á eitthvað sérstakt.
– Ég var að auki með lítinn son minn með mér en pabbi hans, sem var í hernum, fórst í stríðinu. Foreldrar mínir og systkini létust síðan á örlagaríkum degi þegar ráðist var á Dresden rétt fyrir stríðslok!
Aftur leit Hilda brosandi á Hannes og Sabine.
– Ég ætlaði ekki að vera á Íslandi nema í nokkur ár en eitthvað er ég búin að ílengjast hér því nú er liðin meira en hálf öld síðan ég kom hingað.
Allt í einu hringdi síminn. Hilda stóð á fætur og gekk fram á gang til að svara.
– Ég var búinn að segja þér það, sagði Hannes glottandi. – Ísland er best. Auðvitað vildi Hilda ekki snúa aftur til Þýskalands eftir að hafa kynnst besta landi í heimi.
– Kannski voru aðrar ástæður fyrir því, sagði Sabine.
– Nú?
– Kannski varð hún ástfangin!
– Ástfangin?
– Það getur komið fyrir besta fólk, sagði Sabine.
Hilda gekk rösklega aftur inn í stofuna.
– Krakkar, þið verðið að fyrirgefa en ég verð að fara upp á spítala, sagði hún. – Sonur minn er læknir og hann biður mig stundum að koma ef Þjóðverjar eru lagðir inn. Ég hjálpa til við að túlka ef sjúklingarnir tala ekki íslensku eða ensku. Þið verðið að koma við einhverntímann seinna. Þið getið fengið far með mér niður í miðbæ ef þið viljið.

Stuttu síðan sátu þau öll þrjú í bíl Hildu á leið í gegnum Vesturbæinn.
– Tveir þýskir ferðamenn lentu í bílslysi á Reykjanesbrautinni og liggja báðir á gjörgæsludeild, sagði Hilda. – Annar þeirra er við meðvitund og læknarnir vilja spyrja hann nokkurra spurninga áður en hann verður skorinn upp. Þess vegna er leitað til mín.
– Af hverju fluttirðu ekki aftur til Þýskalands? spurði Hannes. Sabine kleip hann og leit ásakandi til hans.
– Ég meina, af hverju ílengdist þú á Íslandi, hélt Hannes síðan áfram.
– Ég ætlaði alltaf aftur til baka en ég sá að það var syni mínum fyrir bestu að við héldum hér kyrru fyrir. Svo kynntist ég líka honum Guðmundi mínum og hann gekk stráknum í föðurstað; ól hann upp eins og hann væri hans eiginn sonur.
– Sagði ég ekki, hvíslaði Sabine til Hannesar.
Hilda hleypti krökkunum út úr bílnum við tjörnina og þau þökkuðu fyrir sig.
– Við þökkum fyrir okkur, Hilda, sagði Hannes.
– Ekkert að þakka. Þið getið komið aftur á morgun ef þið viljið, svaraði Hilda. – Þið skuluð bara hringja á undan ykkur. Eruð þið með númerið mitt?
– Nei, svaraði Sabine.
– Þið finnið mig í símaskránni undir Þórhildur Hjartardóttir, sagði Hilda.
– Þórhildur Hjartardóttir? endurtók Hannes. – Það er alveg rammíslenskt nafn?
– Já, ég aðlagaði nafnið mitt að íslenskri nafnahefð þegar ég flutti hingað, svaraði Hilda.
– Áður hét ég Dorothea, hélt hún áfram. – Dorothea Hirsch!
(birta/fela)

15. kafli
– Þetta er ótrúlegt. Ég hef aldrei séð annað eins!
Bernhard Osenberg og prófessor Helmut Hartmann sátu hlið við hlið í japönskum bílaleigubíl á leið til Reykjavíkur frá Keflavíkurflugvelli. Bernhard sat við stýrið en átti fullt í fangi með að einbeita sér við aksturinn. Öll athygli hans beindist að því sem fyrir augu bar á leiðinni.
– Allt þetta hraun, sagði Bernhard. –Þetta er eins og... eins og...
– ..eins og á tunglinu, botnaði Helmut. – Það finnst flestum sem koma hingað í fyrsta sinn. Þetta breytist um leið og við komum til höfuðborgarinnar.
Bernhard var litið þvert yfir hraunið.
– Sjáðu Helmut! sagði hann. – Sjáðu, reykinn þarna. Erum við á eldfjallasvæði?
– Hér á þessu svæði hefur ekki orðið eldgos í þúsundir ára, svaraði Helmut. – Það sem þú sérð er kallað Bláa lónið. Þangað koma gestir hvaðanæfa að til að baða sig í heitu vatninu.
– Nú fer ég að skilja þessa Íslandsáráttu þína, Helmut, sagði Bernhard. – Þetta er öðruvísi en allt sem ég hef séð hingað til! Bíddu við. Er þetta jökull þarna handan hafsins?
– Snæfellsjökull. Þangað koma líka fjölmargir á hverju ári.
– Líka til að baða sig? spurði Bernhard.
– Nei flestir koma til að dást að jöklinum en svo telja margir að þarna lendi einhvern tíma geimverur.
– Geimverur?
– Af hverju ekki? Prófessor Hartmann brosti í laumi. – Þetta er ekki verri staður en hver annar til að sækja jörðina heim.
Bernhard hristi hausinn. Prófessorinn var greinilega ekki með öllum mjalla. Nokkrar mínútur liðu án þess að nokkur mælti orð af vör.
– Er þetta eini malbikaði vegurinn á Íslandi? spurði Bernhard allt í einu.
– Af hverju það?
– Ég sé enga fólksbíla. Það eru allir á himinháum jeppum.
– Nei, Bernhard minn. Þó að hér séu engar hraðbrautir þá eru flestir vegir malbikaðir. Þessi jeppadella hjá Íslendingum er alveg sérstakt fyrirbæri. Reyndar getur snjóað hér hressilega á veturna og þá er gott að vera á stórum bíl.
Bernhard skipti skyndilega um umræðuefni.
– Helmut. Nú erum við komnir til Íslands. Segðu mér nú loksins frá þessu bréfi.
Prófessor Helmut Hartmann hafði verið með hressara móti eftir að þeir komu út úr flugvélinni. Nú leit hann þungur á brún í gaupnir sér. Síðan tók hann af sér gleraugun og byjaði að pússa þau. Eftir skamma stund tók hann síðan til máls.
– Mér hefur sjaldan brugðið jafn mikið eins og þegar ég fékk bréfið í hendur. Gamlar minningar sóttu á mig og ég upplifði á ný atburði sem ég var búinn að reyna að gleyma, atburði sem áttu sér stað fyrir meina en hálfri öld síðan. Ég var staðsettur í Vín þegar að seinni heimstyrjöldinni lauk.
– Þetta veit ég, sagði Bernhard óþolinmóður. – Heyrðu mig nú. Það er byjað að rigna og það var blankandi sólskin þegar við lentum.
– Það getur orðið sleipt á þessum vegi þegar rignir, sagði Helmut. – Aktu ekki alveg svona hratt!
– Hafðu engar áhyggjur, ég er ýmsu vanur, svaraði Bernhard. – Hvað er nú þetta? Kross hérna við veginn. Er þetta er einhver útikapella?
– Nei þetta er minnisvarði um þá sem hafa látist hérna á þessum vegi í umferðarslysum.
– Menn verða að kunna að keyra við svona aðstæður, sagði Bernhard og sneri sér í hálfhring í bílstjórasætinu til að skoða krossinn betur.
Þegar hann leit aftur fram var bíllinn kominn út í kantinn. Bernhard tók snöggt í stýrið en við það missti hann algerlega stjórn á bílnum sem rann þvert yfir akreinarnar á móti og endasentist út í hraunið. Eftir nokkrar veltur lá japanskur bílaleigubíllinn á hvolfi langt utan vegar og annað afturdekkið snerist í rigningunni.
Fjölmargir vegfarendur urðu vitni að slysinu og eftir skamma stund voru sjúkrabílar og lögregla komin frá Hafnafirði. Merkja mátti að báðir farþegarnir væru enn á lífi en greinlega mikið slasaðir. Um það leiti sem sjúkrabílarnir héldu til höfuðborgarinnar lagði annar japanskur bílaleigubíll í vegkantinn skammt frá slysstað. Ung hávaxinn kona með sítt dökkt hár og svört sólgleraugu steig út úr bílstjórasætinu og gekk til hóps manna sem var að fylgjast með. Þar spurði hún á bjagaðri ensku hvað hefði komið fyrir. Hún fékk þau svör að á einhvern óskiljanlegan hátt væru báðir sem í bílnum voru enn á lífi; bílstjóri á miðjum aldri og annar eldri. Sennilega væri um útlendinga að ræða því þeir voru á bílaleigubíl.
Lena Andermann gekk hröðum skrefum til baka að bílnum sem hún hafði komið á og settist inn. Hún tók niður sólgleraugun og sótti farsíma í handtöskuna. Hún valdi númer í Þýskalandi.
– Málið hefur tekið nýja stefnu, sagðu hún í símann eftir stutta stund. – Herra Osenberg og Prófessor Hartmann lentu í umferðarslysi. Þeir voru ekki komnir á áfangastað. Kannski eru einhverjar vísbendingar í farangri þeirra um hvert leið þeirra lá. Ég athuga það mál við fyrsta tækifæri.
– Við vitum hvert leið þeirra lá, sagði Ludwig Kranovic á hinum enda línunnar. – Ég sendi þér heimilsfangið með SMS um hæl. Þetta er venjuleg fjölskylda sem býr í nágrenni höfuðborgarinnar. Sá sem veit um bréfið er aðeins 15 ára.
– Hvað má ég ganga langt? spurði Lena
– Þú gengur eins langt og nauðsyn krefur!
(birta/fela)

14. kafli
Þýska sendiráðið á Íslandi er til húsa við Laufásveg í Reykjavík. Fyrr um morguninn hafði Sabine hringt þangað og talað við Guðrúnu nokkra Stolz. Guðrún þessi vann við almannatengsl fyrir sendiráðið, auk þess að sinna ýmsum óvenjulegum málum sem þar á borð komu. Sabine hafði síðan hringt í Hannes og svo höfðu þau mælt sér mót fyrir utan sendiráðið eftir hádegið. Hannes hafði fengið far með mömmu sinni til Reykjavíkur og hún hafði hleypt honum út á Lækjartorgi.
Það var hlýtt í veðri og sól en dálítið hvasst. Hannes var í nýjum fötum sem mamma hans hafði keypt í Frankfurt og með derhúfu á höfðinu. Sjálfur hafði hann keypt sér sólgleraugu í sömu ferð og nú var hann með þau í fyrsta skipti.
– Ég ætlaði varla að þekkja þig, sagði Sabine og smellti kossi á vangann á Hannesi.
– Maður verður að klæða sig eftir veðri, svaraði Hannes brosandi.
– Hannes!
Hannes og Sabine litu yfir götuna.
– Dísus kræst, hvíslaði Hannes lágt.
– Hæ, Hannes, langt síðan maður séð þig. Hvar ertu búinn að halda þig?
Stelpa á svipuðu reki og Hannes og Sabine kom labbandi yfir götuna.
– Hæ Gunnhildur, sagði Hannes.
– Sæl, ég heiti Sabine, sagði Sabine brosandi og rétti fram höndina til að heilsa Gunnhildi.
Gunnhildur leit forviða á höndina, síðan á Hannes og loks á Sabine.
– Hæ, sagði hún loks með töffaralegt bros á vör en tók ekki í höndina á Sabine.
Gunnhildur Fransdóttir var bekkjarsystir Hannesar. Hún bjó m.a.s. í sömu götu og hann og þau höfðu þekkst vel síðan þau voru lítil. Mamma Gunnhildar var kölluð Sissa og hún og Ingibjörg mamma Hannesar voru miklar vinkonur. Fjölskyldurnar höfðu oft farið saman í ferðalög og Hannes og Gunnhildur voru miklir vinir alveg þangað til þau voru orðin 12 ára gömul. Þá gjörbreyttist Gunnhildur á einum vetri. Áður hafði hún allaf verið skemmtileg og í góðu skapi en nú hafði hún allt á hornum sér. Hannes var ekki nógu “cool” vinur og að auki var hún hætt að þola foreldra sína. Þréttán ára gömul var Gunnhildur svo komin á fast með strák sem var að byrja í Verslunarskólanum. Mamma hennar og pabbi vildu allt fyrir hana gera en aldrei var hún ánægð. Það eina sem Gunnhildi fannst skemmtilegt var að fylgja nýjustu straumunum í tískuheiminum. Þetta áhugamál hennar var dýrt og sífellt var hún klædd og sminkuð eins og fyrirsætur í glanstímaritum. Þar til viðbótar átti hún alltaf nýjustu geisladiskana og var búin láta Hannes heyra það oftar en einu sinni að hann hefði glataðan tónlistarsmekk. Hver nennir eiginlega að hlusta á þessa hallærislegu bítlatónlist? Hannes hafði áður fundist Gunnhildur dálítið sæt en sú hrifning hafði minnkað með hverju árinu sem leið. Nú stóð hún þarna á móti þeim og bliknaði algerlega í samanburði við Sabine.
– Hannes, geturðu lánað mér þúsundkall?
– Þúsundkall? bíddu aðeins. Hannes fálmaði í rassvasann og fann tvo þúsund króna seðla.
– Lánaðu mér tvö þúsund, sagði Gunnhildur meira skipandi en biðjandi þegar hún sá báða seðlana.
Hannesi brá. Það var eitthvað skrítið í fari Gunnhildar. Hún var ekki eins og hún var vön að vera. Að vísu voru fötin samkvæmt nýjustu tísku en þau voru krumpuð og einhvern veginn var Gunnhildur dálítið drusluleg. Hún var líka svo einkennileg til augnanna. Það var eins og hún væri nýbúinn að hágráta og þegar hún leit á Hannes var eins og hún væri ekki að horfa á hann.
Gunnhildur þreif seðlana til sín og brosti vandræðalega. Í sama mund ók silfurlitaður sportbíll upp að gangstéttinni hjá þeim. Tveir töffarar á menntaskólaaldri sátu í bílnum. Annar opnaði gluggann og kallaði til Gunnhildar.
– Ertu að koma Gunnsa?
Sá sem sat í farþegasætinu opnaði dyrnar og steig út. Hann setti sætið fram og Gunnhildur stökk inn. Síðan settist hann aftur inn í bílinn og leit glottandi til Hannesar.
– Krakkar mínir. Vinka bless!, sagði hann og geiflaði sig framan í Hannes og Sabine.
Það rauk úr dekkjunum þegar sportbíllinn spólaði af stað og hláturinn í þremenningunum hljómaði í gegnum ískrið. Hannes og Sabine stóðu orðlaus eftir á gangstéttinni.
– Það var aldeilis, sagði Sabine eftir stutta stund.
– Nú er Gunnhildur lent í einhverju rugli, hugsaði Hannes og vorkenndi þessari fyrrum vinkonu sinni.

Klukkutíma síðar sátu Hannes og Sabine á skrifstofu Guðrúnar Stolz í þýska sendiráðinu. Gömul antikhúsgögn prýddu skrifstofuna og á veggjunum voru íslensk landslagsmálverk og svo önnur sem ekki voru máluð að íslenskri fyrirmynd; til þess voru trén á þeim aðeins of há og of mörg. Á skrifborðinu voru þrír fánar: íslenski fáninn, sá þýski og svo fáni Evrópusambandsins. Guðrún Stolz var virðuleg kona á miðjum aldri sem minnti einna helst á einkaritara í gamalli bíómynd. Á borðinu fyrir framan hana var fartölva af nýjustu gerð og á veggnum fyrir aftan hana hékk mynd af þýska kanslaranum.
– Hvað segiði krakkar, eruð þið að leita að einhverjum í borginni Dresden?
– Okkar vantar að vita hvort ákveðið heimilisfang er til, sagði Hannes. – Við þurfum að komast í samband við þá sem eiga heima þar í dag. Kannski geta þeir hjálpað okkur.
– Ja, þú segir nokkuð. Og þið haldið að ég geti hjálpað ykkur?
– Við vorum að vona það, svaraði Sabine. – Við vorum að vona að kannski væru til gamlar skýrslur eða símaskrár frá Þýskalandi hérna í sendiráðinu.
Guðrún Stolz skellti upp úr. – Nei krakkar mínir, það væri full mikið af því góða ef að sendiráðið væri fullt af svoleiðis gögnum. Við vinnum fyrst og fremst í þeim málum sem lúta að samskiptum Íslands og Þýskalands.
Hannes og Sabine litu vonleysislega hvort á annað.
– Eruð þið búinn að kíkja á netið? spurði Guðrún.
– Netið? Nei, okkur hafði ekki dottið það í hug, svaraði Hannes.
Guðrún sneri sér að tölvunni sem stóð á skrifborðinu og byrjaði að slá á lyklaborðið.
– Ég hélt að þið unga fólkið væruð betur að ykkur í tölvumálum en ég, sagði Guðrún. – Hvaða heimilisfangi eruð þið að leita að?
Sabine sagði henni það og Guðrún sló götuheitið inn. Eftir nokkra stund hristi hún höfðuðið.
– Nei krakkar mínir. Þessi gata er ekki til.
– En í seinni heimstyrjöldinni, var þessi gata kannski til þá? spurði Sabine.
– Þú meinar það, sagði Guðrún. – Fáar borgir í Þýskalandi urðu eins illa úti í stríðinu og Dresden. Á tveimur sólahringum var hún gjörsamlega lögð í rúst.
Guðrún leitaði um stund á netinu en hristi svo hausinn á ný.
– Ég finn ekkert kort af Dresden frá þessum tíma en ég skal senda fyrirspurn til aðila í Þýskalandi sem gæti hjálpað ykkur. Ég ætti að fá svar í síðasta lagi á morgun.
Guðrún brosti til krakkanna. – Ég skal hringja í ykkur þegar svarið er komið.
Hannes gaf henni upp farsímanúmerið sitt og Guðrún sló það beint inn í tölvuna.
– Beint í “Outlookið”, sagði Guðrún. – Tæknin er til þess að hjálpa manni.
Hannes og Sabine þökkuðu fyrir sig og gengu út úr sendiráðinu og niður í miðbæ.
– Gatan er ekki til, sagði Hannes. – Kannski var hún aldrei til. Þetta er örugglega eitthvað tengt njósnum og prófessorinn er sennilega hættulegur stríðsglæpamaður!
– Það getur ekki verið! Við förum saman í bíó í kvöld og þú sleppur við að hitta kallana. Á morgun vitum við síðan vonandi meira, sagði Sabine. – Eigum við ekki að bíða og sjá hvað gerist?
– Sammála, sagði Hannes. Ég hringi í þig á eftir og þá getum við ákveðið hvar við hittumst í kvöld
Sabine og Hannes gengu saman um stund án þess að segja neitt. Þegar þau voru komin niður í miðbæ leit Sabine beint í augun á Hannesi. Hún brosti vandræðalega.
– Ferðu stundum í bíó með þessari Gunnhildi?
(birta/fela)

13. kafli
Það tekur ekki mikið lengri tíma að hjóla úr Garðabænum til Reykjavíkur heldur en að keyra sömu leið til baka. Hannes komst að þessu þar sem hann sat í aftursæti volvo-bifreiðar á leið heim til sín eftir viðburðaríka heimsókn í Fossvoginum. Við hlið hans sat Sabine, sem nú var orðin kærastan hans að nafninu til. Frammí sat Einar Þór Agnarson, pabbi Sabine og sambýliskona hans, Birta Björnsdóttir. Einar og Birta voru á svipuðum aldri og foreldrar Hannesar. Sabine var mjög lík pabba sínum og ef hann myndi setja á sig svarta síða hárkollu þá væri hægt að ruglast á þeim, úr fjarlægð að vísu.
Einar og Birta höfðu tekið tengdasyninum nýja nokkuð vel, miðað við aðstæður. Einari var reyndar brugðið að sjá Hannes í rúmi dóttur sinnar, liggjandi undir teppi. Honum létti svo þegar Hannes stóð á fætur, fullklæddur og meira að segja ennþá í skónum og úlpunni. Hannesi var síðan boðið inn í stofu og þar hitti hann Birtu, sambýliskonu Einars. Síðan var hann spurður spjörunum úr; m.a. hvað hann væri að gera í heimsókn að nóttu til og af hverju hann notaði ekki útidyrnar eins og venjan væri á þessu heimili. Áður en Hannes var búinn að hugsa upp einhverja skýringu hafði Sabine svarað fyrir hann. Hún sagði að þau hefðu verið búinn að ákveða að hittast en Hannes hefði ekki komist fyrr. Þau hefðu síðan ekki viljað vera með neinn umgang svona seint um kvöld þar sem allir voru farnir að sofa.
Þegar Hannes greindi síðan frá því hverra manna hann væri, rak Einar upp mikinn hlátur. Kannski einmitt þess vegna ákvað hann að best væri að hringja strax í foreldra Hannesar og láta þau vita hvar sonur þeirra héldi sig þessa stundina. Þetta gerði Einar síðan og nú voru þau á leið í Garðabæinn með Hannes en hjólið hafði hann skilið eftir í Fossvoginum.
Þegar þangað var komið var BMWinn á bak og burt. Andvari og Ingibjörg stóðu á stéttinni og biðu eftir týnda syninum sem enginn var reyndar farinn að sakna þangað til Einar hafði hringt. Þegar allir höfðu heilsast á hálf vandræðalegan hátt var gestunum boðið í bæinn. Andvari leit til Hannesar og af svipnum af dæma virtist hann hvorki reiður né áhyggjufullur.
– Við þurfum að tala betur saman á eftir, sagði hann og klappaði Hannesi létt á öxlina.
– Má ekki bjóða ykkur inn í stofu? spurði Ingibjörg.
– Það er nú komið fram á nótt; ég held við þurfum að koma okkur, svaraði Einar.
– Auðvitað kíkjum við aðeins inn, sagði Birta og ýtti við Einari.
Gestirnir tóku af sér og settust inn í stofu. Hannes og Sabine sátu hlið við hlið í einum stofusófanum eins og sakborningar í yfirheyrslu.
– Sast þú ekki hjá Hannesi í flugvélinni? spurði Ingibjörg allt í einu.
– Jú, svaraði Sabine.
– Eruð þið búin að þekkjast lengi? spurði Einar.
– Nei, bara síðan þá, svaraði Hannes.
– Og nú einum og hálfum degi síðar eruð þið sem sagt kærustupar, sagði Andvari og leit sposkur á svipinn til skiptis á Hannes og Sabine.
– Neeeei, kannski ekki alveg kærustupar, ekki þannig sko, svaraði Hannes.
– Við erum mjög góðir vinir, sagði Sabine ákveðin.
– Þið eruð full ung til að standa í einhvers konar sambandi, er það ekki?, spurði Andvari alvarlegur.
– Andi minn, láttu ekki svona. Þetta eru bara krakkar, sagði Ingibjörg. – Hannes, sýndu Sabine herbergið þitt. Við fullorðna fólkið ættum líklegast að nota tækirfærið og kveða niður gamla fortíðardrauga.
Hannes benti Sabine að koma með sér og saman gengu þau úr stofunni og inn í herbergið hans. Þá um vorið hafði Ingibjörg loksins fengið son sinn til að taka herbergið í gegn. Áður höfðu veggirnir verið skreyttir með myndum af ofurhetjum úr heimi hasarblaða og allir skápar og hillur verið fullar af svonefndum “matchbox” bílum sem Hannes hafði sankað að sér í gegnum tíðína. Nú voru ofurhetjurnar og smábílarnir á bak og burt en stór mynd af Freddy Mercury hékk fyrir ofan rúm Hannesar. Húsgögnunum hafði líka verið skipt út þá um vorið og auk rúms og fataskáps var komið stórt skrifborð sem stóð við gluggann. Hannes var feginn að þessar breytingar á herberginu höfðu átt sér stað. Það hefði verið pínlegt að bjóða Sabine inn herbergið eins og það hafði litið út hálfu ári áður. Hannes settist á skrifborðstólinn og Sabine á rúmið.
– Flott herbergi, sagði Sabine.
– Takk, svaraði Hannes.
– Jæja, pabbar okkar fóru ekki að slást.
– Nei, en þeir voru nú samt hálf vandræðalegir.
– Hvenær koma Þjóðverjarnir á morgun? spurði Sabine.
– Þeir koma ekki fyrr en annað kvöld, svaraði Hannes.
– Eigum við þá ekki að gera eins og við vorum búin að ákveða? spurði Sabine. – Við getum hittst í fyrramálið og haft samband við þýska sendiráðið.
– Heyrðu! sagði Hannes. – Pabbi veit ekki af hverju þeir eru að koma í heimsókn. Ég þarf bara að passa mig á því að vera ekki heima annað kvöld!
– Þú meinar það. Við gætum til dæmis farið saman í bíó, stakk Sabine upp á.
– Frábær hugmynd, svaraði Hannes. – Kíkjum á netið og sjáum hvaða myndir er verið að sýna.
Hannes kveikti á tölvunni og saman skoðuðu þau síðan heimasíður kvikmyndahúsanna. Eftir miklar pælingar ákváðu þau loks á hvaða mynd þau ætluðu að fara.
Sabine leit á úrið sitt.
– Klukkan er að verða tvö. Af hverju erum við ekki farin heim?
– Kíkjum fram, sagði Hannes.
Sabine og Hannes gengu inn í stofu. Einar og Andvari sátu hlið við hlið í stofusófanum og voru að ræða eitthvað á alvarlegum nótum. Koníakflaska og tvö glös voru á borðinu. Þeir voru augljóslega búnir að fá sér oftar en einu sinni í glösin. Sabine og Hannes litu brosandi hvort á annað.
– Ég er búinn að lesa þær allar, allar með tölu, sagði Andvari og var orðinn örlítið þvoglumæltur af drykkjunni. – Þú ert frábær rithöfundur og ef þú hefðir ekki... ekki verið með Imbu þarna um árið... þá... þá væri ég búinn að segja þér það fyrir löngu.
– Á ég að segja þér soldið. Við vorum aldrei saman, sagði Einar og lagði handlegginn um axlir Andvara. – Hún vildi mig ekki!
– Vildi þig ekki?
– Ég var búinn að ganga á eftir henni með grasið í skónum heilan vetur. Við vorum orðnir mjög góðir vinir og hún var held ég orðin hrifin af mér líka, þegar hún kynntist þessum heildsalasyni úr MR. Hún tók þig fram fyrir mig! Við vorum aldrei saman og hún vildi ekki einu sinni kyssa mig.
Einar fékk sér sopa af koníaki. – Ég var í ástarsorg og ákvað þá að fara út til Þýskaland að læra.
– Heyrðu. Fyrst Imba vildi ekki kyssa þig, þá skal ég bara gera það, sagði Andvari og síðan ráku þeir báðir upp mikinn hlátur. Sabine og Hannes gengu flissandi inn í eldhús. Ingibjörg og Birta sátu báðar við eldhúsborðið.
– Viltu eitthvað að drekka, djús kannski? spurði Hannes.
Sabine jánkaði því og Hannes sótti glas, hellti ávaxtasafa í og rétti henni.
– Vaktafyrirkomulagið hjá okkur á endurkomudeildinni er alveg út í hött, sagði Birta. – Stundum er auðvitað lítið að gera en svo koma rosalegar tarnir þar sem við getum engan veginn sinnt þeim sem er að koma til okkar. Eftir svoleiðis vaktir er maður gersamlega búinn. Veistu, sumir geta ekki einu sinni skipt sjálfir um plástur og koma þess vegna til okkar. Svo eru allir svo mikið að flýta sér og þurfa að láta sinna sér á stundinni.
– Mínir skjólstæðingar eru öllu þolinmóðari, sagði Ingibjörg brosandi og leit síðan til Hannesar og Sabine. – Jæja, Hannes minn, ertu búinn að sýna Sabine herbergið þitt?
– Guð minn góður! kallaði Birta upp yfir sig. – Klukkan er farin að ganga þrjú! Við verður að fara að koma okkur heim. Einar!
Þau gengu öll saman inn í stofu. Einar og Andvari sátu enn í stofusófanum og voru orðnir hinir mestu mátar.
– Eigum við ekki að fara að drífa okkur, Einar minn, sagði Birta. Hún sneri sér að Ingibjörgu. – Má ég hringja hjá þér á leigubíl?
Það var auðsótt mál og Einar og Andvari stóðu á fætur.
– Jæja, eruð þið búnir að ræða málin? spurði Ingibjörg.
– Hann er mikill öðlingur, hann Einar vinur minn, sagði Andvari og faðmaði þennan nýja vin að sér. – Þú ert alveg frábær, hélt hann áfram. – Var ég nokkuð búinn að segja þér að ég elska bækurnar þínar? Þessi þjóðlegi stíll sjáðu til og svo þessi sýn á íslenskt samfélag sem menn fá bara ef þeir búa í útlöndum.
Stuttu síðar kom leigubíllinn og fjölskyldurnar kvöddust á stéttinni. Það var komið myrkur og úti var blankalogn. Andvari og Ingibjörg fóru inn en Hannes horfði á eftir leigubílnum þar sem keyrði út eftir götunni. Eftir nokkra stund heyrðist ekki lengur í bílnum og úti var alveg hljótt utan þess að greina mátti kvak í einstaka fugli. Hannes gekk inn og lokaði hurðinni á eftir sér.
(birta/fela)

12. kafli
Loksins fóru foreldar Hannesar að sofa. Hannes opnaði hurðina á herberginu sínu og laumaðist fram. Það var ennþá bjart úti en samt komið fram yfir miðnætti. Hann sótti íþróttaskóna fram í forstofu og gekk síðan eins hljóðlega og hann gat inn í vaskahús. Það voru minni líkur á því að þau myndu heyra í honum ef hann færi þar út heldur en um aðalinnganginn sem lá við hliðina á hjónaherberginu.
Þegar Hannes var kominn út og búinn að sækja hjólið sitt sem stóð við hlið bílskúrsins, teymdi hann það varlega eftir innkeyrslunni. Silfurlituðum BMW var lagt fyrir framan garðinn hjá þeim. Hannes kannaðist ekkert við þennan bíl en tók eftir því að einhverjir sátu í framsætunum. Hann skildi hjólið sitt eftir og læddist eftir innkeyrslunni í átt að BMW-inum. Var kannski verið að njósna um hann? Hannes hélt niðri í sér andanum. Hann var aðeins fáeina metra frá bílnum þegar hann heyrði að að einhverjir voru að tala samen en annar framglugginn á bílnum var opinn til hálfs. Hannes laumaðist nær og lagði við hlustir.
– Ýkt frábær mynd, sagði rödd sem Hannes þekkti vel. Þetta var þá bara systir hans að koma heim með pizzusendlinum Fjölni eftir bíóferðina.
Hannes læddist til baka og sótti hjólið. Fjölni og Steinunni leist sennilega vel hvort á annað. Það væri nú alls ekki svo slæmt að fá pizzusendil inn á heimilið. Þau fengju þá fríar pizzur annað veifið!
Það var líka hægt að komast út úr garðinum fyrir aftan bílskúrinn og þangað fór Hannes með hjólið sitt. Hann var einungis klæddur í þunna úlpu og það var dálítið kalt úti en spennan yfir því sem framundan var hélt á honum hita.
Hannes varð að ná tali af Sabine sem fyrst. Þau þyrftu að leggja strax saman á ráðin varðandi bréfið. Hann hafði sent Sabine SMS allt kvöldið en ekki fengið neitt svar. Hann vissi nokkurn veginn hvar hún átti heima og ákvað því að hjóla til hennar og reyna að ná sambandi við hana þegar þangað væri komið. Þetta var alls ekki löng leið að hjóla og þegar þau væru búinn að ræða málin varðandi bréfið myndi hann hjóla til baka og laumast aftur inn heima hjá sér.
Það var dálítið skrítið að vera svona seint á ferð. Úti var ennþá bjart þótt sólin væri við það að setjast og það var varla nokkur sála á ferð. Hannes var fljótur að hjóla niður í gegnum Kópavog og fyrr en varði var hann kominn í Fossvoginum þar sem pabbi Sabine bjó.
Allt í einu hringdi farsíminn hjá Hannesi. Það var Sabine.
– Hæ, ég var með slökkt á símanum, sagði hún. – Ég var bara að kveikja á honum og sá að það voru 12 skilaboð frá þér um að hafa samband. Hvað kom fyrir?
– Þjóðverjarnir eru að koma á morgun út af bréfinu. Við þurfum að ákveða hvað við gerum við það. Við verður að hittast, núna! sagði Hannes.
– Núna? Ég var að fara að sofa, svaraði Sabine.
– Ég er kominn á hjólinu hingað í götuna hjá ykkur. Gætum við ekki bara hittst einhvers staðar hérna? Í hvaða húsnúmeri búið þið?
– Hjólaðirðu alla leiðina hingað? spurði Sabine undrandi.
– Já, við verðum að gera eitthvað við bréfið, svaraði Hannes.
– Heyrðu, ég bý í númer 24 á jarðhæðinni. Herbergið mitt snýr að götunni og glugginn er lengst til vinstri. Komdu og bankaðu á gluggann og ég hleypi þér inn, sagði Sabine.
Hannes stakk símanum inn á sig og hjólaði eftir götunni. Húsið númer 24 var 3ja hæða fjölbýlishús. Búið var að slökkva öll ljós á jarðhæðinni en glugginn hjá Sabine var rétt innan við grindverkið. Hannes lagði hjólinu við ljósastaur og klifraði inn í garðinn. Hann bankaði laust á gluggann.
Ekkert svar!
Hannes bankaði aðeins fastar og reyndi að kíkja inn um gluggann. Það var erfitt að sjá inn en Hannes þóttist greina gamla stofuklukku á veggnum og svo sá hann líka útsaumaða mynd af íslenskum sveitabæ. Drottinn blessi heimilið stóð saumað undir myndinni.
Hannes bankaði í þriðja sinn og beinlínis klessti andlitinu upp að glerinu.
– Hvað á þetta eiginlega að þýða?
Hannes hrökk aftur á bak og datt í grasið. Fyrir innan gluggann stóð gömul kerling og hvessti á hann augunum. Sú gamla opnaði gluggann.
– Hvers konar fíflagangur er þetta? Hvað á það að þýða að gera at í gamalli konu svona um miðja nótt? Áttu ekki fyrir löngu að vera kominn í rúmið krakkaskratti?
– Fyrirgefðu, ég ruglaðist bara á glugga, sagði Hannes vandræðalegur og stóð á fætur.
– Nú, ætlaðirðu að gera at í einhverjum öðrum? Á ég að hringja á lögregluna? Ætlaðirðu kannski að brjótast inn og ræna mig gamalmennið?
– Nei, nei, svaraði Hannes fljótur. – Ég ætlaði bara að hitta stelpu og ég hélt hún ætti heima hérna.
– Jæja ljúfurinn. Gamla illskulega kerlingin breyttist í einni svipan í brosandi ömmu. – Ætlaðirðu að heimsækja stúlku? Ertu kominn með kærustu svona ungur. kallinn minn?
– Ha, nei ég er ekki kominn með neina kærustu. Hún er bara, bara vinkona mín, svaraði Hannes.
– Það á engin stúlka heima hér ljúfurinn, sagði sú gamla. – Ekki nema bara ég og varla vildirðu hitta mig, hélt hún áfram og blikkaði til Hannesar.
– Nei takk, ég meina, nei. Ég hringi bara í hana aftur og spyr betur til vegar.
– Góða nótt Rómeó, sagði gamla konan og vinkaði til Hannesar þegar hann gekk út úr garðinum.
Hannes tók farsímann upp í flýti og hringdi í Sabine.
– Ertu ekki að koma? spurði hún strax og samband hafði nást.
– Ég bankaði á vitlausan glugga, sagði Hannes. – Er þinn gluggi ekki sá sem er lengst til vinstri og snýr að götunni.
– Jú
– Í númer 24?
– 24. Bíddu aðeins, Sabine hugsaði sig um. – Fyrirgefðu það er númer 42. Ég ruglast alltaf á þessum númerum. Á þýsku segir maður fjórir og tuttugu þegar um tuttugu og fjóra er að ræða.
– Ég kem þá í hvelli, sagði Hannes og settist á hjólið.
Eftir skamma stund var hann kominn að húsi númer 42. Hann skildi hjólið eftir á gangstéttinni og fann strax gluggann sem hann var að leita að. Þetta var líka einhvers konar svalahurð og þar stóð Sabine og gaf honum merki um að koma. Hún var í íþróttagalla en berfætt. Sítt dökkt hárið féll niður um herðarnar á henni og Hannes fann fyrir fiðring í maganum við að sjá hana.
– Komdu inn, hvíslaði Sabine og Hannes smeygði sér inn um svalahurðina. Herbergið hennar var ekki mjög stórt en mjög smekklega innréttað. Öðru megin var stór hvítur fataskápur og við hliðina á honum lítið skrifborð í viðarlit. Hinum megin var rúmið og þar settist Sabine.
– Sestu hérna, hvíslaði hún og lagði höndina á rúmið við hlið sér.
Hannes settist í rúmið við hliðina á Sabine og vissi ekki hvort það var hún eða bréfið sem gerði það að verkum að hann var farinn að skjálfa pínulítið.
– Er þér kalt?, spurði Sabine. – Hérna, settu á þig teppið, sagði hún og lagði ullarteppi sem var í rúminu yfir axlir Hannesar.
– Hvaða menn eru að koma út af bréfinu? spurði hún síðan.
Hannes sagði Sabine frá Þjóðverjunum sem hringt höfðu í pabba hans. Annar hefði heitað Helmut og væri örugglega professor Helmut Hartmann. Þeir höfðu hins vegar ekki vilja segja hvaða erindi þeir ættu.
– Þú verður að halda þig við þína útgáfu af sögunni, sagði Sabine. – Að þú hafir hent bréfinu í klósettið. Þeir geta ómögulega vitað að þú sért ekki að segja satt. Við verðum að komast að meiru áður en við gerum eitthvað við bréfið.
– Þá er líklega best að þú geymir það áfram, sagði Hannes.
– Ég skal gera það og ég held við ættum ekki að segja neinum frá þessu, sagði Sabine.
Hannesi fannst þetta líka besta lausnin. Sabine virtist alltaf hafa lausnir við öllum vandamálum sem upp komu. Nú sat Hannes í nokkurra sentimetra fjarlægð frá þessari stúlku sem hann var nýbúinn að kynnast. Á skrifborðinu logaði lampi og það var eina ljósið sem kveikt var á í herberginu. Hannes fann á ný fyrir fiðring í maganum og hann var orðinn undarlega þurr í hálsinum þegar dyrnar á herberginu opnuðust allt í einu upp á gátt.
– Varstu að kalla, Sab....
Undrunarsvipurinn á Einari Þór Agnarsyni gaf til kynna að sennilega hefði hann átt von á flestu öðru en að sjá einkadóttur sína 14 ára gamla sitjandi við hliðina á einhverjum strák sem hann hafði aldrei áður augum litið.
– Hver ert þú?
– Ég heiti Hannes, ég er....
Sabine greip skyndilega í hönd Hannesar.
– Hannes er í heimsókn. Hann er kærastinn minn!
Sabine kreist hönd Hannesar fast og hann vissi að þetta var eina skýringin sem þau gætu gefið í stöðunni
Innst inni óskaði hann sér þó að hún hefði verið að segja satt.
(birta/fela)

11. kafli
Það jafnast enginn matur á við nýjan íslenskan fisk. Hannes hámaði í sig steikta ýsu með kartöflum og salati. Fjölskyldan sat þögul í eldhúsinu og borðaði eins og það hefði ekki verið matartími í heila viku. Það var ágætis mælikvaði á hvernig smakkaðist að fylgjast með hve mikið var talað saman í matartímanum. Ef enginn sagði neitt var maturinn yfirleitt frábær.
Hannes rifjaði upp atburði dagsins. Bréfið verðmæta olli honum og Sabine heilabrotum. Þau höfðu ákveðið að kanna málið á eigin spýtur. Var þessi gata í Dresden til? Hvað með Dorotheu Hirsch? Hafði hún einhvern tíma verið til? Var hún ennþá lifandi? Sabine hafði komið með þá hugmynd að þau myndu hittast daginn eftir og hafa samband við þýska sendiráðið. Kannski fengju þau þar einhverjar upplýsingar sem varpað gætu ljósi á málið. Eftir heimsóknina í Frímerkjahellinn höfðu þau labbað niður Laugarveginn og spjallað saman. Hannes sagði Sabine frá viðbrögðum pabba síns þegar sá fékk að vita hverra manna hún væri. Það var skemmtileg tilviljun að Einar, pabbi Sabine, og Ingibjörg, mamma Hannesar, hefðu einhvern tíma verið vinir, jafnvel kærustupar.
Sabine sagði Hannesi síðan meira frá fjölskyldu sinni. Móðir hennar var búin að vera lengi veik. Hún átti við þunglyndi að stríða og hafði oft dvalið lengi á spítölum. Þetta hafði verið erfitt fyrir alla í fjölskyldunni, sérstaklega Sabine og nú höfðu foreldrar hennar ákveðið að hún flytti til pabba síns í bili. Hannes hafði oft heyrt foreldra sína tala um þunglyndi og vissi þess vegna vel hvernig Sabine leið. Afabróðir hans í föðurætt hafði verið erfiður í umgengni og lengi vel var sagt að hann væri þungur í skapi; lokaður og geðstirður. Hann hafði síðan að lokum látið til leiðast og farið til geðlæknis. Þá hafði strax komið í ljós að hann væri með þunglyndi. Eftir langa lyfjameðferð og viðtöl bæði hjá geðlækni og sálfræðingi tókst honum síðan að snúa blaðinu við og ná heilsu.
Sabine gladdist að heyra þetta. Hún vonaði að mamma sín næði sér einhvern tímann en þunglyndið hafði verið til staðar síðan Sabine mundi eftir sér. Stundum komu langir kaflar þar sem allt lék í lyndi og mamma hennar var í góðu jafnvægi en þess á milli var ástandið oft mjög erfitt.
Þegar síðan Sabine og Hannes kvöddust hafði hún kysst hann á kinnina og þakkað honum fyrir skemmtilegan dag. Hannes strauk sér nú í framan þar sem hann hafði verið kysstur fyrr um daginn og hugsaði til þessarar skemmtilegu þýsk-íslensku stelpu.
– Ertu með tannpínu, Hannes minn? spurði mamma hans.
– Nei, nei. Ég var bara að hugsa, svaraði Hannes.
Fiskurinn var búinn og Andvari bar ís á borðið í eftirrétt. Steinunn systir Hannesar sat beint á móti bróður sínum við matborðið. Hún leit með reglulegu millibili á úrið sitt og virtist ekkert sérlega lystug.
– Hvaða krakkar komu á laugardaginn? spurði Ingibjörg.
– Þau eru öll að vinna með mér í Hagkaup, svaraði Steinunn. – Þið þekkið þau ekki neitt.
– Varstu með fullt hús af einhverju liði? spurði Andvari áhyggjufullur. – Þér væri nær, fyrst þú ert að halda partý á annað borð, að bjóða bekkjarfélögum þínum úr menntaskólanum. Ég vil ekki hafa ókunnuga valsandi um húsið okkar þegar ég er ekki heima!
– Æi, pabbi, sagði Steinunn.
Ingibjörg leit blíðlega til Andvara.
– Andvari minn, láttu ekki svona elskan! Þetta hefur allt gengið vel. Það er allt á sínum stað. Þetta eru bara krakkar! Hvað gerðuð þið ykkur til skemmtunar?
– Við tókum mynd á leigunni og svo hlustuðum við á tónlist, svaraði Steinunn og leit aftur á úrið.
– Áttuð þið nokkuð við gömlu plöturnar mínar? spurði Ingibjörg brosandi en ákveðið.
– Neeei, ekki mikið, svaraði Steinunn hikandi.
Ingibjörg spratt á fætur og skundaði inn í stofu. Steinunn fór á salernið og Hannes og Andvari tóku til af matarborðinu.
– Hvar er “Með allt á hreinu”? heyrðist kallað innan úr stofu.
– Ég veit það ekki, heyrðist svarað úr baðherberginu.
Ingibjörg kom inn í eldhús.
– Það hefur einhver tekið plötuna! sagði hún alvarleg í bragði. – Þetta er platan sem þeir árituðu fyrir mig í Atlavík um árið! Það er bókstaklega ekki hægt að treysta þessum krökkum. Einhver hefur stolið plötunni!
Í þessu hringdi dyrabjallan. Hannes stökk fram í andyri og opnaði útidyrnar. Fyrir utan stóð pizzusendillinn frá deginum áður.
– Við pöntuðum enga pizzu! sagði Hannes og átti sig síðan á því að sendillinn var alls ekki með neinn pizzukassa í fanginu.
– Er Steinunn heima? stamaði sendillinn loks út úr sér.
Ingibjörg var komin fram í andyrið. Hún leit hvöss á gestinn sem stóð í gættinni.
– Stalst þú Stuðmönnum?
– Stuðmönnum?
Síminn hringdi.
– Ég tek símann, kallaði Andvari.
Steinunn birtist nú í forstofunni og klæddi sig í strigaskó og fór í jakka.
– Við Fjölnir ætlum í bíó, sagði hún síðan. Ég kem kannski seint heim. Bless.
Þar með var hún rokin í bíó með pizzusendlinum Fjölni.
– Hvað hefur eiginlega orðið um plötuna mína? sagði Ingibjörg örvæntingarfull og leit til Hannesar.
– Ertu búin að kíkja á plötuspilarann sjálfan? stakk Hannes upp á.
Ingibjörg rauk beint inn í stofu og af fagnaðaröskrinu að dæma sem á eftir fylgdi mátti ráða að platan væri loksins fundin. Hannes gekk inn í stofu.
– Plötuumslagið er hérna líka, það hefur dottið uppfyrir græjurnar, sagði Ingibjörg.
– Ertu búin að finna Stuðmennina þína? spurði Andvari sem nú kom innan úr eldhúsinu þar sem hann hafði verið að tala í símann.
– Hver var að hringja? spurði Ingibjörg.
– Það koma menn til mín í heimsókn annað kvöld, svaraði Andvari. – Þetta eru Þjóðverjar. Þeir eiga eitthvað erindi við mig og ég held að þetta tengist útgáfumálum okkar í Þýskalandi. Það var samt skrítið að sá sem hringdi talaði íslensku og kynnti sig sem fornafni. Hann heitir Helmut.
Hannesi rann kalt vatn milli skinns og hörunds.
(birta/fela)

10. kafli
Þessi sérstaka blanda af sólskini og rigningu sem stundum verður til í umhleypingasamri veðráttu Íslands, endurspeglaði líðan Hannesar þennan daginn. Hann sat aftarlega í strætisvagninum á leið til Reykjavíkur. Hvað ættu þau eiginlega að gera við bréfið? Hugsanir þar að lútandi ollu honum miklum áhyggjum en á sama tíma hlakkaði hann mikið til að hitta Sabine aftur.
Skömmu síðar stöðvaðist strætisvagninn og Hannes steig út. Hann var aðeins á undan áætlun því þau höfðu talað um að hittast í hádeginu og klukkan var bara korter í tólf. Það var margt um manninn á Hlemmi en hins vegar lítið af “venjulegu” fólki á miðjum aldri. Unglingar, gamalmenni og rónar voru þeir hópar sem mest bar á. Hannes hafði tekið eftir því á ferðalögum sínum í útlöndum að þar notaði “venjulegt“ fólk almenningssamgöngur miklu meira en á Íslandi. Menn í jakkafötum með skjalatöskur sáust í neðanjarðarlestum Lundúna og í sporvögnum í Frankfurt en sjaldnast í strætó í Reykjavík.
- Hæ!, heyrðist kallað hinum megin götunnar. Þar stóð Sabine og veifaði til Hannesar. Hún var í gallabuxum og rauðri kápu og hárið var bundið saman í tagl. Hún brosti til Hannesar á ómótstæðilegan hátt og Hannes fann blóðið renna fram í kinnarnar.
Hann vinkaði til baka og brosti. Sabine hljóp yfir götuna til Hannesar, greip um axlir hans og kyssti hann þéttingsfast á báðar kinnar.
– Er þér svona kalt?, spurði hún. Þú ert svo rauður í framan?
– Ha, nei, nei.. jú reyndar! Hannes fann fyrir fiðringi í maganum og varð undarlega linur í hjánum allt í einu.
– Ég er með hugmynd, sagði Sabine, varðandi bréfið!
– Þeir vita að ég er með það, sagði Hannes.
– Hvaða þeir?
– Ég veit það ekki, sennilega lögreglan, svaraði Hannes. Það var leitað á mér í tollinum og einhver hafði haft samband frá Frankfurt. Ég laug að ég hefði hent bréfinu í klósettið. Þeir virtust nú alveg trúa mér!
– Ég tók það með mér, sagði Sabine og dró umslagið varfærnislega upp úr vasa á kápunni sinni.
Þau tóku gamla sendibréfið í plastfilmunni út úr umslaginu og skoðuðu það vandlega saman. Hannes átti ekki auðvelt með að skilja slaufulaga skriftina en nafnið framan á gat hann lesið. Dorothea Hirsch.
– Við skulum fara með bréfið í frímerkjabúð, sagði Sabine. Kannski er eitthvað hægt að lesa eitthvað úr þessum stimplum. Ég er búinn að kíkja í símaskrána og það er ein frímerkjabúð á Vitastígnum. Hún heitir Frímerkjahellirinn!
– Frímerkjahellirinn? Hannes hafði aldrei heyrt annað eins nafn á verslun. Honum fannst hins vegar hugmynd Sabine góð og þau héldu af stað í átt að Vitastígnum.
Þegar þangað var komið blasti við þeim lítil og gamaldags verslun. Vörurnar í glugganum, sem voru einhver frímerki og bækur, voru gulnaðar og greina mátti þykkt ryklag í gluggakistunni innanverðri.
– Mér líst ekkert á þetta, sagði Hannes. – Eigum við nokkuð að vera að fara inn?
– Hvað gæti eiginlega gerst?, spurði Sabine brosandi og gekk inn í búðina. Hannes fylgdi á eftir og saman gengu þau að gömlu viðarlitu afgreiðsluborði sem farið var að láta á sjá.
– Halló, kallaði Sabine eftir stutta stund því enginn virtist vera að vinna í búðinni.
– Andartak!, heyrðist kallað djúpri röddu úr herbergi baka til. Stuttu síðar birtist afgreiðslumaðurinn fyrir aftan borðið. Hannes hafði aldrei séð annan eins risa. Maðurinn var örugglega yfir tveir metrar á hæð, vel þykkur og hendurnar á honum voru svo stórar að þær minntu einna helst á tennisspaða. Hann var sennilega kominn yfir sextugt, var næstum sköllóttur með stuttan hökutopp.
– Hvað get ég gert fyrir ykkur krakkar mínir?, spurði risinn og brosti góðlátlega til Hanneasar og Sabine.
– Sæll, Ég heiti Sabine og þetta er Hannes, sagði Sabine. Okkur lagaði að tala við einhvern sérfræðing í stimplum!
– Ég heiti Reynir og ætti að geta hjálpað ykkur sjálfur. Ég hef lítið annað gert síðastliðin 40 ár en að skoða frímerki og stimpla!
– Sjáðu þetta bréf!, sagði Sabine og dróg umslagið upp úr kápuvasanum. Innan úr því sótti hún gamla gulnaða bréfið og lagði það á borðið fyrir framan manninn.
– Látum okkur sjá, sagði Reynir og sótti gleraugu upp úr brjóstvasanum. Hann settist við afgreiðsluborðið og kveikti á litlum lampa sem á því stóð. Síðan tók hann gamla bréfið varfærnislega og virti það fyrir sér.
– Þessu hefur aldeilis verið vel pakkað inn, hélt Reynir áfram. Svona er nú yfirleitt bara gert við verðmæt bréf og skjöld sem alls ekki má opna eða eiga neitt við!
Reynir sótti stækkunargler í skúffu á borðinu og rýndi á bréfið framanvert. Hann gaf sér góðan tíma, skoðaði utanáskriftina, frímerkin og stimplana hátt og lágt. Síðan sneri hann því við og skoðaði bakhliðina. Þar var líka stimpill en engin skrift. Eftir dálítinn tíma tók hann af sér gleraugun og leit til skiptis á Sabine og Hannes.
– Hvar fenguð þið þetta bréf?, spurði hann síðan.
– Það var einhver kall sem gaf mér það, svaraði Hannes og komst þar nokkuð nærri sannleikanum.
– Hvers konar bréf er þetta?, spurði Sabine. Er þetta venjulegt sendibréf?
– Ég veit ekki hvað þið eruð vel að ykkur í mannkynssögunni krakkar, svaraði Reynir, – en þetta bréf er síðan úr seinni heimstyrjöldinni. Framan á bréfinu eru tveir ólíkir stimplar og aftan á því er líka stimpill. Bréfið er stílað á konu í Dresden í Þýskalandi. Það er sent frá Austurríki, nánar tiltekið Vínarborg rétt undir lok stríðsins. Það sé ég á öðrum stimplinum framan á og svo auðvitað á frímerkjunum. Á þessum tíma var Austurríki undir ógnarstjórn nasista sem höfðu innlimað landið inn í Þýskaland við upphaf styrjaldarinnar. Síðan þegar Þjóðverjar undir stjórn Hitlers töpuðu stríðinu var Austurríki hersetið af Bandaríkjamönnum, Frökkum, Bretum og Rússum allt þangað til landið varð að lýðræðisríki 1955.
Reynir leit aftur örstutt á bréfið og hélt svo áfram.
– Það eru þrjú atriði sem gera þetta bréf ykkar svona sérstakt. Í fyrsta lagi er stimpillinn aftaná umslaginu enginn venjulegur stimpill heldur sérstakt póstmerki sérsveita þýsku lögreglunnar SS. Í öðru lagi er bréfið óopnað og þar af leiðandi ómögulegt að segja til um innihald þess. Í þriðja lagi....
Reynir tók upp stækkunarglerið og rýndi enn á ný framan á bréfið.
– Þetta er mér með öllu óskiljanlegt, hélt hann síðan áfram. Hinn stimpilinn framan á er frá árinu 1952 en þá voru það meðal annars Rússar sem réðu ríkjum í Austurríki. Þessi stimpill er frá þeim. Þetta bréf hefði verið gert upptækt ef það hefði fundist á þessum tíma og innihaldið hefði verið skoðað. Kannski hefur bréfið lent aftur í pósti fyrir einhverja slysni.
– En af hverju hefur bréfið verið sent tvisvar?, spurði Hannes. Hvernig getur sama bréfið fengið tvo mismunandi stimpla?
– Ef bréf er til dæmis endursent eða sent á annað heimilsfang en upphaflega er skrifað til, þá fær það stundum annan stimpil, svaraði Reynir. Hins vegar eru báðir stimplarnir frá Vín og með margra ára millibili. Bréf frá seinni heimstyrjöldinni hefði aldrei verið send af stað frá Austurríki eftir stríð án þess að vera skoðað nákvæmlega. Að auki er þetta bréf með póstmerki SS og allt sem tengdist nasistum á einn eða annan hátt var gert upptækt í stríðslok. Þá fóru fram réttarhöld um stríðsglæpi Þjóðverja og því voru öll gögn þar að lútandi, talin mjög mikilvæg.
– Er þessi Dorothea Hirsch þá kannski einhver stíðsglæpamaður?, spurði Sabine.
– Það þarf ekki að vera, svaraði Reynir. Þetta gæti auðvitað verið ósköp venjulegt bréf. Hins vegar gæti þetta nafn líka verið dulnafn og að engin Dorothea Hirsch sé til.
Reynir klóraði sér í hnakkanum og gretti sig.
– Kannski var bréfið sent seinna aftur af stað af einhverjum ásetningi, hver svo sem hann gæti hafa verið. Þetta er ótrúlegt. Sennilega er svarið að finna í bréfinu sjálfu, sagði Reynir og leit spyrjandi á Hannes og Sabine.
– Nei, bréfið verður ekki opnað í bili, sagði Hannes og tók bréfið af borðinu.
– Það er ykkar að ákveða það, sagði Reynir. En ef þið viljið selja bréfið eða koma því á uppboð þá skal ég hjálpa ykkur. Ég gæti auðvitað boðið ykkur einhvern hundrað þúsund kall fyrir en það væri óheiðarlegt af mér því það er miklu meira virði!
– Hundrað þúsund? Miklu meira virði?, sagði Hannes og trúði ekki sínum eigin eyrum.
– Ég hef aldrei heyrt um þessa tvo ólíku stimpla saman, sagði Reynir. – Verðmæti bréfsins veltur sennilega á milljónum!
(birta/fela)

9. kafli
Fundarherbergið í húsakynnum Julianus uppboðsfyrirtækisins í Bonn var í alla staði mjög glæsilegt. Það var langt og mjótt og tiltölulega hátt til lofts. Eftir herberginu endilöngu lá fundarborð úr vönduðum viði. Veggurinn öðru megin borðsins var þakinn málverkum frá ýmsum tímabilum listasögunnar, hinu megin var hins vegar glerveggur. Útsýnið af 14. hæð var mjög fallegt. Miðbær Bonn blasti við og minnti frekar á lítinn bæ en borg sem eitt sinn var höfuðborg Vestur-Þýskalands.
Bernhard Osenberg sat við annan enda fundarborðsins og hrærði í kaffibolla. Hann var orðin taugaóstyrkur og mátti heyra skeiðina glamra í bollanum. Fundurinn átti að hefjast klukkan 9 og flestir fundarmanna voru mættir. Andrúmsloftið var þrungið spennu því fundurinn hafði verið boðaður með mjög skömmum fyrirvara og enginn vissi eiginlega hvaða mál væru á dagskrá. Loks kom síðasti fundargesturinn inn, hurðinni var lokað og dagskráin gat hafist.
– Ágætu stjórnarmenn, sagði Bernhard. Ég vil byrja á að biðja ykkur afsökunar á því að þið skilduð verða boðaðir til stjórnarfundar með svona stuttum fyrirvara en erindið er brýnt og getur ekki beðið!
Fundarmenn litu undrandi og forvitnir í senn hver á annan. Eftir örstutta þögn hélt Bernhard síðan áfram.
– Eins og þið vitið þá er uppboðsdagur hjá okkur í dag. Við eigum von á mörgum gestum því það sem boðið verður upp eru sumt hvert mjög sérstakt og eftirsóknarvert. Flestir gestanna í dag koma þó vegna uppboðshlutar númer 542, bréfsins frá Dresden, eins og það hefur verið kallað.
Bernhard fékk sér vatnssopa og fundarmenn biðu spenntir eftir framhaldinu.
– Þetta bréf er horfið!
Fundarmenn litu þrumu lostnir allir sem einn á Bernhard. Í nokkarar sekúndur kom enginn upp orði. Doktor Garmisch, sem var elstur viðstaddra, rauf loks þögnina.
– Horfið? Var bréfinu stolið?
– Eiginlega ekki, svaraði Bernhard. – Það var bara „tekið“.
– Tekið?
– Já, tekið, svaraði Bernhard. – Leyfið mér að skýra þetta betur út. Byrjum á byrjuninni.
Bernhard fékk sér aftur vatnssopa.
– Það var í vor sem Póstminjasafnið í Dresden hafði samband við okkur út af nokkrum gömlum bréfum sem höfðu fundist þar á bæ. Í kjölfar flóðanna 2003 höfðu kjallarageymslur safnsins verið rýmdar og þá höfðu ýmsir hlutir komið í ljós sem fallið höfðu í gleymskunar dá. Meðal annars nokkur gömul sendibréf sem aldrei höfðu verið borin út. Eitt þessara bréfa vakti strax athygli vegna sérkennilegra póststimpla. Strax komu upp kenningar um að þetta bréf hefði að geyma upplýsingar sem merkilegar kynnu að vera; upplýsingar frá seinni heimstyrjöldinni eða árunum á eftir hana; upphafi kalda stríðsins. Þetta gætu verið leynilegar upplýsingar, hugsanlega tengdar njósnum og þess vegna risu upp deilur um hvort opna skildi bréfið og skoða innihald þess eða láta það ósnert og varðveita þar með verðmæti þess sem safngrips. Þrátt fyrir mikinn þrýsting ýmissa aðila var seinni kosturinn fyrir valinu og ákveðið að geyma bréfið á safninu óopnað sem safngrip. Það var síðan í vor að póstmynjasafnið hafði samband og fór þess á leit við okkur að við stæðum fyrir uppboði á bréfinu en safnið á við fjárhagserfiðleika að etja og vildi með sölu á bréfinu koma fjármálunum í réttan farveg.
– Þetta vitum við allt saman, sagði doktor Garmisch. –Viltu ekki snúa þér strax að kjarna málsins!
– Já, bréfinu var sem sagt komið til okkar, hélt Bernhard áfram, og okkar fyrsta hlutverk var að reyna að meta verðmæti þess. Við fengum til þess góðkunningja okkar, hinn virta prófessor Helmut Hartmann sem er, eins og þið vitið, einn virtasti sérfræðingum í gömlum frímerkjum og stimplum. Þetta er ekki í fyrsta skiptið sem við leitum til prófessorsins og öll samvinna okkar við hann hefur verið hin ánægjulegsta og um leið fyrirtæki okkar til góð.
Fundarmenn kinkuðu kolli, sumir hverir broandi, aðrir óþolinmóðir að bíða eftir að heyra framhaldið.
– Frá því prófessor Hartmann sá bréfið í fyrsta sinn var hann hinn einkennilegasti. Hann vildi sem minnst um málið tala og var tregur til að leggja mat á verðmæti þess.
Bernhard fékk sér enn einn sopann úr vatnsglasinu sem reyndar var orðið tómt.
– Helmut Hartmann tók bréfið síðan traustataki og hafði það með sér á brott!
Kliður fór um fundarherbergið. Sumir hristu hausinn vantrúaðir og aðrir litu skilningsvana á næsta mann. Fyrr en varði voru samræður komnar í fullan gang og fundarmenn áttu bágt með að trúa því sem þeir höfðu heyrt.
Bernhard hélt áfram.
– Við höfðum upp á prófessor Hartmann þar sem hann var á leið til Íslands. Bréfinu hafði hann hins vegar komið frá sér og það er núna staðsett einhverstaðar í nágrenni Reykjavíkur en prófessorinn hefur enga skýringu gefið á hátterni sínu.
– Til Íslands?, spurði doktor Garmisch. Hvað er bréfið að gera þar?
– Því miður hef ég bara enga hugmynd um það, svaraði Bernhard.
– Ég vissi alltaf að það væri eitthvað loðið við þetta bréf, sagði sá sem sat fjærst Bernhard og hét Ludwig Kranovic.
– Prófessorinn er sennilega á mála hjá einhverjum samtökum eða stofnun sem ekki vill að innhald bréfsins komi í ljós, hélt Ludwig áfram. – Hvað vitum við eiginlega um fortíð prófessors Hartmanns?
– Mér finnst afar ósennilegt að prófessor Hartmann tengist utanaðkomandi aðilum, svaraði Bernhard hvasst. – Mín skýring er sú að gamli maðurinn sé einfaldlega farinn að kalka. Bréfið hefur einfaldlega minnt hann á seinni heimstyrjöldina og þá hefur eitthvað slegið saman hjá honum. Það má guð vita hvað hann upplifði á þessum tímum. Hann gegndi herskyldu.
– Þarna er skýringin komin, sagði Ludwig Kranovic ákveðinn. – Einhver sem ekki vill að innihald bréfsins komi í ljós hefur beitt gamla manninn þrýstingi. Kannski hefur hann sjálfur tengst njósnum og er hræddur um að einhver gömul leyndarmál komi upp á yfirborðið.
– Við getum velt þessu fyrir okkur fram og til baka, sagði doktor Garmisch. – Spurningin er hins vegar: Hvar er bréfið og hvernig komum við því í okkar hendur aftur? Þetta er það sem skiptir fyrirtækið máli. Orðspor Julianus er einstakt í heimi uppboðsfyrirtækja og við getur ekki hætt á að þetta orðspor skaðist á neinn hátt.
– Við teljum okkur vita hvar bréfið er niðurkomið, sagði Bernhard. – Hugmynd mín er sú að ég fari á morgun til Íslands og hafi upp á bréfinu. Ég held að það ætti að geta gengið. Ég myndi taka prófessor Hartmann með mér!
– Er hann ekki kominn í varðhald fyrir þjófnað?, spurði Ludwig undrandi. Ekki ferðu að taka sökudólginn með þér?
Bernhard þagði um stund og leit síðan á fundarmenn einn af öðrum.
– Eins og prófessor Garmisch benti á áðan, sagði hann loks, þá er orðspor fyrirtækisins að veði. Við ættum að reyna að halda lögreglunni utan við málið eins lengi og hægt er. Það eina sem við verðum að gera er að fresta þessu uppboði um óákveðinn tíma. Ég tók mér það bessaleyfi að tala við Póstmynjasafnið í Dresden og skýra málið út fyrir þeim. Þeir eru tilbúinir að gefa okkur dálítið svigrúm til að leysa þetta mál áður en lögreglan verður kölluð til. Ég legg því til, ágætu fundarmenn, að við frestum öllum ákvörðunum fram í byrjun næstu viku. Við prófessor Hartmann förum með fyrsta flugi á morgun til Íslands. Ég verð að hafa prófessorinn með því hann þekkir til þess einstaklings sem er með bréfið í fórum sínum. Ég mun auðvitað hafa samband við ykkur hvern og einn ef eitthvað nýtt kemur í ljós í þessu máli!
Fundarmenn gáfu samþykki sitt og Bernhard sleit fundinum. Eftir skamma stund höfðu allir yfirgefið fundarherbergið nema Bernhard sem sat einn eftir. Honum hafði tekist að fá gálgafrest í málinu og hann vonaði að ferðin til Íslands yrði ekki til einskis.

Nokkrum mínútum síðar settist Ludwig Kranovic í Benz bifreið sína í bílageymslu fyrirtækisins. Hann tók upp farsímann og sló inn símanúmer sem hann hafði oft valið síðustu vikurnar.
Þegar svarað var á hinum enda línunnar sagði Ludwig varfærnislega:
– Það er komið upp vandamál sem breytir áætlunum okkar algerlega. Hefurðu einhvern tíma komið til Íslands?
(birta/fela)

8. Kafli
Þetta var sannkallað bílablíðviðri. Sól skein í heiði en það var samt ekkert sérstaklega hlýtt. Nissan-jeppinn þræddi götur Garðabæjar í átt að botnlanganum þar sem Andvari og fjölskylda hans áttu heima.
Hannes horfði út um gluggann og var þungt hugsi. Klukkan var að nálgast 6 á þessum viðburðaríka degi. Foreldrar hans höfðu hnakkrifist hálfa leiðina til Garðabæjar, allt frá því að Andvari nauðhemlaði jeppanum og las yfir syni sínum. Þannig var að pabbi Sabine, sem var rithöfundur, hafði fyrir mörgum árum átt í útistöðum við bókaforlagið sem Andvari var í forsvari fyrir. Þetta hafði verið hið leiðinlegasta mál. Báðir aðilar höfðu skrifað greinar í blöðin þar sem Andvari hafði kallað Einar pabba Sabine, kommúnista og Einar þessi hafði lýst Andvara sem afturhaldskapítalista, hvað sem það þýddi nú eiginlega.
Hannes hafði fengið að heyra þetta allt á leiðinni þegar foreldarar hans hálfpartinn öskruðu hvort á annað. En málið átti sér enn lengri sögu. Þegar Andvari hafði á ákveðnum tímapunkti sagt konu sinni að halda kjafti og skipta sér ekki af því sem henni kæmi ekki við, tóku samræðurnar nýja stefnu. Ingibjörg sagði þá að Andvari væri bara afbrýðissamur. Hann hefði aldrei getað umborið það að hún hefði verið í sambandi við þennan Einar áður en þau Andvari kynntust og það væri ástæðan fyrir öllum þessum bjánalega æsingi. Eftir þessa fullyrðingu hafði enginn sagt neitt lengi, ekki fyrr en Andvari bað son sinn skyndilega afsökunar. Auðvitað mætti Hannes tala við þá krakka sem hann vildi.
Þau nálguðust nú einbýlishúsið við enda botnlangans. Andvari keyrði bílinn upp að bílskúrnum og þau stigu út.
– Hvað hefur eiginlega gerst hérna?, kallaði Ingibjörg skyndilega.
Andvari leit yfir runnann og inn í garðinn. Útigrillið lá á hliðinni og veröndin var öll í glerbrotum. Þá flaut pizzukassi í heita pottinum.
– Það er einhver kall inni í stofu!, hvíslaði Hannes til foreldra sinna og benti á hávaxinn mann sem gekk hægt framhjá stofuglugganum.
– Guð minn góður, það hefur eitthvað komið fyrir, sagði Ingibjörg á innsoginu og tók farsímann upp úr veskinu. Ég hringi á lögregluna!, hélt hún áfram.
– Vonandi er allt í lagi með Steinunni, sagði Andvari. Við getum ekki beðið. Ég fer inn!
Andvari tróð sér í gegnum runnana, stökk yfir blómabeð og þreif í útidyrahurðina. Hún var læst. Hann dinglaði og bankaði kröftulega til skiptis um leið og hann leitaði að húslyklunum í vösum sínum. Hannes fylgdi föður sínum eftir en Ingibjörg var komin í samband við neyðarlínuna og búin að biðja um lögregluna i einum grænum hvelli.
Útidyrnar opnuðust og hávaxinn strákur um tvítugt með úfið hár, í gallabuxum og ber að ofan blasti við Andvara.
– Rólegan æsing, sagði strákurinn. Ertu að koma með pizzuna? Mundirðu eftir hvítlauksolíunni?
Andvari opnaði munninn til að segja eitthvað en kom ekki upp orði.
– Pabbi? Eruð þið komin heim? Steinunn, systir Hannesar, stóð allt í einu við hlið stráksins og brosti vandræðalega til föður síns. Hún var klædd í gulan íþróttagalla og sítt skolleitt hár hennar teygði sig langt niður á bak.
– Áttuð þið ekki að koma heim á morgun?
Andvari stóð enn orðlaus með opinn munninn þegar Ingibjörg ruddist framhjá honum og faðmaði dóttur sína að sér.
– Það er þá allt í lagi með þig, Steina mín, sagði hún hálfgrátandi. Ég fékk næstum taugaáfall þegar ég sá aðkomuna hérna við húsið! Hún þrýsti Steinunni enn fastar að sér og var litið á strákinn á gallabuxunum.
– Hver ertu þú?, spurði hún síðan.
– Þetta er hann Siggi, svaraði Steinunn og losaði sig úr faðmlögum móður sinnar. Hann fékk að gista í stofunni eftir partíið!
– Eftir hvaða partí?, spurði Andvari alvarlegur. Ertu að segja mér Steinunn að það hafi verið haldið partí hérna í húsinu á meðan við vorum í Þýskalandi? Er aðkoman hérna eins og hún er út af einhverju partí?
Andvari var allur að æsast upp og blés nú úr nös eins og brjálaður tuddi. Andlitið var orðið þrútið og minnti einna helst á pizzu með skinku og pepperoni.
– Ég held ég fari bara að drífa mig heim, sagði Siggi flóttalega og stefndi beinustu leið yfir garðinn út á götu.
– Ferðu allra þinna ferða svona ber að ofan og á sokkaleistunum, kallaði Ingibjörg háðslega á eftir honum.
Siggi snarstoppaði og skokkaði síðan vandræðalegur á svipinn aftur inn um útidyrnar. Hann kom aftur út að vörmu spori með peysugarm í hendinni og tróð sér í strigaskó sem lágu í óreiðu á stéttinni. Síðan var hann þotinn á braut.
Enginn sagði neitt. Ingibjörg og Steinunn stóðu í dyragættini, Andvari starði móður og másandi á eftir Sigga og Hannes virti draslið í garðinum fyrir sér.
– Pabbi vertu ekki að æsa þig svona upp. Þetta var bara ósköp venjulegt partí, sagði Steinunn loks. Siggi fékk að sofa í stofunni og hann hjálpaði mér meira að segja að taka til inni. Við ætluðum síðan að hreinsa garðinn. Ég hélt bara að þið kæmuð ekki fyrr en á morgun!
– Þetta er allt í lagi Steina mín, sagði Ingibjörg og faðmaði dóttur sína aftur að sér.
– Hann pabbi þinn er ekki í góðu jafnvægi í dag, hélt hún áfram. Hann æsir sig upp af minnsta tilefni!
– Minnsta tilefni? Minnsta tilefni? Þú ert nú bara ekki með öllum mjalla sjálf, kona! Það er ekki nóg með að þú komir okkur í klandur með kaupæðinu í þér, heldur leggur dóttir okkar heimilið í rúst og lætur svo einhvern aumingja sofa í stofusófanum!
Andvari sem var orðinn verulega æstur, strunsaði nú fram og til baka um garðinn eins og til að fá útrás fyrir reiði sína.
Rauður Fiat keyrði inn innkeyrsluna og að vörmu spori kom rauðklæddur pizzasendill blístrandi inn í garðinn.
– Vá, það er bara partí í gangi, sagði hann glottandi. Hvar á ég að setja pizzuna? Kannski bara beint í heita pottinn eins og þessa þarna!, hélt hann hlæjandi áfram og kinkaði kolli í áttina að pottinum.
Andvari gekk til sendilsins með geðveikislegt bros á vör.
– Það er kannski ekki svo vitlaus hugmynd, sagði hann síðan. Því næst greip hann um axlir sendilsins, sem átti sér alls einskis ills von, og henti honum beint ofan í pottinn með pizzunni og öllu saman.
– Andvari!, kallaði Ingibjörg þrumu lostin. Hvað ertu að gera!
Allt í einu var eins og Andvari næði áttum. Hann leit afsökunaraugum á pizzusendilinn sem stóð í miðjum heita pottinum og á einhvern óskiljanlegan hátt var ennþá með pizzuna í hendinni.
– Fyrirgefðu! Ég ætlaði ekkert að gera þetta, tuldraði Andvari fyrir munni sér. Þetta var bara óvart! Ég....
Lengra komst Andvari ekki því skyndilega var honum skellt á magann með andlitið beint inn í blómabeð.
– Rólegur vinur, engan æsing!
Einkennisklæddur lá á Andvara og þrýsti honum á jörðina. Hann og félagi hans höfðu verið í nágrenninu þegar útkall kom í gegnum talstöðina. Einhver kona hafði hringt í neyðarlínuna og beðið um hjálp. Heimili hennar væri umsetið afbrotamönnum og dóttir hennar sennilega í lífshættu. Lögregluþjónarnir höfðu ekið beinustu leið á heimilsfangið sem gefið hafði verið upp og séð úr fjarlægð hvernig maður á miðjum aldri gekk berserksgang fyrir framan húsið.
– Þið eruð aldeilis fljótir, sagði pizzusendillinn.
– Sleppið manninum mínum strax, kallaði Ingibjörg.
Lögregluþjónninn var staðinn á fætur og hann og félagi hans hífðu Andvara upp á lappirnar sem nú var kominn í handjárn.
– Þetta er allt saman misskilingur, hélt Ingibjörg áfram. Það eru engir innbrotsþjófar hérna!
Lögregluþjónarnir litu vantrúaðir hver á annan.
Hannes, sem hingað til hafði fylgst með öllu eins og úr fjarlægð, gekk til lögreglumannana.
– Þetta er alveg satt. Við eigum heima hérna öll nema þessi þarna, sagði hann og benti á pizzusendilinn í pottinum.
– Henti þessi maður þér ekki út í?, spurði annar lögreglumaðurinn.
– Ha? Nei, nei. Hann rakst bara eitthvað utan í mig, svaraði sendillinn um hæl.
Andvari hafði mælt orð af vör síðan lögreglan kom. Hann leit nú sakleysislegum augum á lögregluþjónana til skiptis.
– Nú jæja þá, sagði annar lögregluþjónninn og losaði handjárnin af Andvara.
– Ykkur er óhætt að fara. Þetta er allt á misskilningi byggt sagði Ingibjörg. Það var ég sem hringdi. Ég hélt að það hefði verið brotist inn en það var bara vitleysa.
– Er örugglega allt í lagi með ykkur öll?, spurði hinn lögregluþjóninn. Allir kinkuðu játandi kolli.
– Þig líka?, hélt hann áfram og leit á pizzusendilinn.
– Já, það er ekkert að mér, svaraði sendilinn brosandi.
Á meðan Andvari og Ingibjörg skýrðu málið betur út fyrir lögreglunni, hjálpuðu Steinunn og Hannes pizzusendlinum upp úr pottinum. Hann var holdvotur en aðeins nokkrar vatnsslettur sáust á pizzukassanum
– Viltu ekki skipta um föt?, spurði Steinunn umhyggjusöm. Þú passar örugglega í einhverja leppa af pabba.
Pizzusendillinn brosti til Steinunnar.
– Ég er til í það, svaraði hann og glotti. Hér er pizzan sem þið pöntuðuð!
Hannes tók við pizzunni og fann strax til svengdar þegar fann af henni bökunarlyktina.
Lögregluþjónarnir voru búnir að kveðja og Andvari sneri sér að blautum pizzasendlinum.
– Mig langar til að biðja þig afsökunar, sagði hann, og svo vil ég þakka þér fyrir að hafa ekki sagt allan sannleikann. Þú veist að þú hefðir sennilega getað lagt fram kæru!
– Enginn er verri þótt hann vökni, sagði sendillinn brosandi. Við erum nú ýmsu vanir í heimsendingunum skal ég segja þér. Okkar mottó er: Ef kúnninn er ánægður þá erum við ánægðir.
– Steina mín, finndu föt á manninn áður en hann kvefast, sagði Ingibjörg
– Ég var að fara til þess, svaraði Steinunn pirruð og rauk af stað.

Eftir að sendilinn var síðan farinn og töskurnar höfðu verið teknar inn úr bílnum, skipti fjölskyldan pizzunni á milli sín við eldhúsborðið. Allir voru í því að biðja hina afsökunar á því sem gerst hafði nema Hannes. Eftir matinn dreif hann sig í herbergið sitt, fleygði sér í rúmið og tók upp farsímann. Hann fletti upp á skilaboðunum frá Sabine og valdi síðan númerið hennar. Hún svaraði strax.
– Hæ Hannes, sagði hún
– Hæ
– Ég er með hugmynd varðandi bréfið, sagði hún
– Já, veistu ég held við ættum.....
– Viltu hitta mig í hádeginu á morgun niðri á Hlemmi?
– Endilega
– Sjáumst kl. 12 á morgun, bless
– Bless
(birta/fela)

7. Kafli
Andrúmsloftið á skrifstofu Hermine Wieland var sérkennilegt. Þetta mál var algert klúður frá upphafi til enda og Bernhard Osenberg var niðurbrotinn maður. Hann hafði ákveðið að gera hvarfið af bréfinu ekki að opinberu lögreglumáli og nú sýndist honum að sú ákvörðun hefði verið röng.
Þegar hann áttaði sig á því að bréfið var horfið hafði hann strax litið á upptökur eftirlitsmyndavéla fyrirtækisins. Kannski hafði einhver komið bréfinu tímabundið á annan stað. Það hafði hins vegar ekki farið á milli mála að prófessor Helmut Hartmann sótti bréfið í öryggishólfið og hélt beint með það úr húsi. Bernhard hafði síðan ítrekað reynt að ná í prófessorinn en það hafði engan árangur borið. Nokkrir dagar höfðu liðið án þess að tangur eða tetur sæist af Helmut þegar Bernhard fékk þá hugmynd að hafa samband við vin sin hjá bankanum sem var með aðgang að tölvuneti kreditkorta-fyrirtækjanna. Þar var síðan hægt að sjá að Helmut hefði keypt flugmiða til Íslands. Eftir eitt samtal við flugfélagið komst hann síðan að því að vélin sem prófessorinn ætti flug bókað með, færi seinna þennan sama dag. Þá hafði hann hringt í annan fyrrum skólabróður sinn sem nú var yfirmaður hjá flugvallarlögreglunni í Frankfurt og fengið hann til senda menn inn að leita að gamla manninum. Þeir höfðu síðan náð að stöðva hann áður en hann fór í vélina en bréfið var hann ekki með á sér.
Nú vissi Bernhard hins vegar um örlög þessa verðmæta bréfs. Það var nú ónýtt og synti í hundrað pörtum niður holræsarör flugstöðvarinnar.
Líklega yrði að draga Helmut til ábyrgðar þar sem trygginarfélagið myndi aldrei greiða verðmæti bréfsins. Til þess hefði þurft að tilkynna málið til lögreglu sama dag og þjófnaðurinn hafði átti sér stað og nú var meira en vika liðin frá því að það hvarf.
– Þú ert aldeilis búinn að koma mér í vandræði Helmut, sagði hann. Ég er líka hræddur um að ég verði að tala við lögregluna varðandi þinn hlut í þessu máli. Þú verður sennilega dreginn til ábyrgðar.
– Ég er nú líklega borgunarmaður fyrir þessu bréfi, mælti Helmut. Mér er svo sem líka sama. Ég á engin börn og systkyni mín eru ekki lengur á lífi.
– En að strákurinn skuli hafa eyðilagt bréfið, sagði Bernhard allt í einu. Mér finnst þetta einhvern veginn ótrúlegt!
Bernhard sneri sér að Hermine Wieland.
– Gætum við fengið að fara á vettvang? Er möguleiki að kíkja aðeins á þetta salerni þar sem bréfinu var sturtað niður. Kannski finnum við einhverjar leifar sem dottið hafa á gólfið. Það er aldrei að vita.
Hermine kinkaði hægt kolli og tók upp símann. Eftir skamma stund var bankað á dyr skrifstofunnar.
– Nei, eruð þið hérna ennþá?, sagði Andreas lögreglumaður þegar honum hafði verið vísað inn.
– Ef þér vilduð vera svo vænn og fara með þessa tvo herramenn á staðinn þar sem þið stöðvuðuð prófessor Hartmann hérna áðan, bað Hermine ákveðið.
– Augnarblik!, hélt hún áfram. Ég ætla að koma með!

– Þú varst ekki búinn að segja mér af hverju þú tókst bréfið, sagði Bernhard þegar þau voru á leið sinni um flugvallarbygginguna.
Helmut hafði ekki mælt orð af vör síðan svarið um örlög bréfsins kom frá Íslandi. Hann velti því fyrir sér hvort hann ætti nokkuð að segja frá raunverulegum ástæðum þess að hann hefði haft það á brott með sér. Fyrst að bréfið var glatað þá var sennilega best að gleyma þessu öllu saman. Það var líka vitleysa að vera að þvælast til Íslands. Það þjónaði engum tilgangi og gerði engum gagn.
– Ég skil það eiginlega ekki sjálfur, svaraði hann loks og var orðinn töluvert móður af göngunni.
Þegar þau komu inn á salernið umrædda var ræstitæknir á fullu við að þrífa og taka til rusl.
– Bíðið!, kallaði Bernhard. Síðan gekk hann rösklega úr einum klefanum í annan í leit að einhverjum leifum af bréfinu.
– Hafið þér nokkuð séð gamla bréfsnepla hérna, spurði hann ræstitækninn sem skildi ekki neitt í neinu.
– Ja, ég er nú eiginlega búninn að þrífa hérna, svaraði hann, og auðvitað var eitthvað bréfarusl sem ég fann. Hvað er það eiginlega sem....
Ræstitæknirinn komst ekki lengra því Bernhard hafði tekið ruslapoka sem þarna stóð og sturtað innihaldinu á gólfið. Alls konar bréf, pappamál og rusl flæddu um nýþrifið gólfið.
– Hvað á þetta eiginlega að þýða?, spurði ræstitæknirinn höstuglega þegar hann sá vinnu sína síðasta hálftímann hverfa fyrir lítið.
– Það getur verið að verðmætar pappírsleifar séu hérna í ruslinu, svaraði Bernhard og var lagstur á hnén til að leita.
– Hvernig lítur þessi pappír út?, spurði Andreas sem var líka kominn niður á gólf til þess að hjálpa.
– Ég veit það eiginlega ekki, svaraði Bernhard. En pappírinn er gamall og gulnaður.
Hermine Wieland var líka lögst á hnén að leita. Ræstitæknirinn brosti og var greinilega skemmt að fylgjast með öllum þessum embættismönnum skríðandi á gólfinu.
– Um hvað er að ræða?, spurði hann síðan. Get ég orðið að einhverju liði?
– Nei takk, svaraði Bernhard höstuglega. Þetta er alvarlegt lögreglumál og ekki þitt að spyrja einhverra spurninga!
Ræstitækninum var brugðið og leit á Helmut sem stóð þarna hjá og horfði á aðfarinar.
– Þetta er nú allt mér að kenna, sagði Helmut afsakandi. Bréfið hefði aldrei glatast ef ég hefði ekki komið því á strákinn. Honum hefur síðan brugðið svo mikið veslingnum þegar hann fann það að hann hefur rifið það í tætlur og sturtað því niður um klósettið.
– Það hefur þá ekki verið í dag, sagði ræstitæknirinn. Það var verið að gera við bæði klósettin hér í morgun og þau voru fyrst að komast í gagnið rétt áður en þið ruddust hér inn!
Bernhard leit upp eitt andartak, stökk síðan brosandi á fætur og faðmaði ræstitækninn þéttingsfast að sér.
– Hann hefur þá verið að ljúga blessaður drengurinn!
(birta/fela)

6. Kafli
„Velkomin heim!“
Hannesi fannst það alltaf jafn fyndið að flugfreyjurnar hjá Flugleiðum skyldu bjóða alla farþega velkomna heim í gegnum hátalarakerfið þegar fluginu til Keflavíkur var lokið og flugvélin á leið upp að landgöngurananum. Auðvitað var þetta notalegt fyrir Íslendingana um borð en aðrir farþegar voru hins vegar ekki á neinni heimleið. Hvað um það, þeir skyldu hvort eð er fæstir íslensku og þar af leiðandi skipti þetta ekki svo miklu máli.
Þetta ferðaleg var orðið eitt það ánægjulegasta sem Hannes hafði upplifað lengi. Sabine var ótrúlega skemmtileg, sérstaklega af stelpu að vera. Hún var líka laus við alla tilgerð, ekkert að sýnast og ansi sæt. Þau höfðu spjallað saman um heima og geima á leiðinni og höfðu komist að því að þau ættu sameiginleg áhugamál og hefðu svipaðan tónlistarsmekk.
– Það kemst engin hljómsveit með tærnar þar sem Bítlarnir hafa hælana, sagði Sabine.
– Mér finnst þeir frábærir, sérstaklega síðustu plöturnar þeirra, bætti Hannes við. Queen eru líka góðir eða voru góðir þegar Freddy Mercury var enn á lífi og söng með þeim!
„I want to break free.“ Hannes hélt um endann á öryggisbeltinu og söng með tilheyrandi tilþrifum byrjunina á uppáhalds laginu sínu með Queen. Sabine greip um sitt öryggisbelti og söng með.
Flugvélin hafði stöðvast og farþegar stóðu á fætur.
– Ætlarðu að hjálpa mér með pokana? Ingibjörg leit biðjandi til Hannesar.
– Þetta er svo mikið, sagði hún, ég nú bara með tvær hendur!“
Farþegarnir voru byrjaðir að mjakast út og Hannes sá á eftir Sabine þar sem hún gekk í átt að rananum. Hún sneri sér við og brosti til hans. Hannes brosti til baka. Hann átti eftir að kveðja hana en þau myndu áræðanlega hittast í fríhöfninni.
– Hérna, taktu þessa Hannes!
Hannes var kominn með þrjá troðfulla innkaupapoka í hendurnar. Tveir voru frá flugvellinum í Frankfurt og einn úr flugvélinni.
– Þetta er meira en góðu hófi gegnir!
Andvari, pabbi Hannesar, hafði lítið haft sig í frammi á leiðinni en blöskraði nú greinilega öll innkaup konu sinnar.
– Við verðum sennilega stoppuð í tollinum. Þetta er allt of mikið!
Þau voru síðustu farþegarnir til að yfirgefa vélina. Andvari brosti vandræðalega til flugfreyjunnar sem kvaddi þau við innganginn. Hannes svipaðist strax um eftir Sabine en sá hana hvergi.
– Jæja, nú drífum við okkur beint heim, sagði Andvari óþolinmóður þegar þau voru að nálgast hliðið hjá tollinum.
– Ég þarf aðeins að skreppa í fríhöfnina! Ingibjörg var ekki búin að svala innkaupaþörf sinni að fullu.
– Það kemur ekki til greina!, sagði Andvari og var byrjaður að reiðast en kunni ekki við að beita röddinni að neinu marki því þetta var á háannatíma og flugstöðin því full af fólki. Ingibjörg var þar að auki rokin inn í fríhafnarverslunina og hafði ekki heyrt skammirnar í manni sínum.
—Bless, kallaði Sabine og vinkaði til Hannesar um leið og hún gekk í gegnum tollinn. Hún hafði greinilega sótt farangurinn sinn strax og ekki komið við í fríhöfninni. Um leið og hún hvarf í gegnum hliðið blikkaði hún til Hannesar sem varð strax rauður í framan eins og pabbi sinn og kom ekki upp orði.
Nokkrum mínútum síðar var Ingibjörg komin með tvo fulla poka úr fríhafnarversluninni og Hannes og Andvari voru búnir að setja allar töskurnar og pokana á töskukerru.
– Ég skal lofa þér því að við verðum stöðvuð af tollinum. Það mætti halda að við værum búinn að versla inn hálfa Evrópu, hvíslaði Andvari til Ingibjargar þegar þau gengu í átt að útganginum.
– Reyndu bara að brosa elskan. Þetta verður allt í lagi, sagði Ingibjörg og brosti nú sínu sætasta til tollvarðanna.
Einn af starfsmönnum tollgæslunnar stóð allt í einu fyrir aftan þau.
– Má ég biðja ykkur vinsamlegast um að koma með aðeins hér til hliðar, sagði hann og hálfpartinn ýtti allri fjölskyldunni í átt að litlu herbergi rétt við hliðið.
– Við erum nú bara með dálítið af sælgæti og nokkrar jólagjafir fyrir fjölskyldina. Þetta er alls ekki eins mikið og það lítur út fyrir að vera, sagði Ingibjörg titrandi röddu og reyndi að halda brosinu.
– Jólagjafir? Í júní? Ja, það er ekki ráð nema í tíma sé tekið, sagði tollvörðurinn og átti erfitt með að halda niðri í sér hlátrinum. Í einni svipan varð hann síðan alvarlegur aftur.
– Má ég fá að líta á vegabréfin ykkar.
Andvari rétti tollverðinum vegabréfin og sendi konu sinni um leið eitrað augnaráð sem augljóslega þýddi að nú væri endanlega nóg komið.
Tollvörðurinn sem var feitlaginn með hvítt skegg og minnti á jólasveininn, leit strax í vegabréf Hannesar og kinkaði rólega kolli.
– Þú ert okkar maður, vinur minn, sagði hann og lagði höndina á öxl Hannesar. Ertu til í að tæma buxnavasana þína og setja innihaldið hér á borðið!
Hannes gerði eins og honum var sagt og leit síðan til foreldra sinna sem bæði voru gapandi af undrun. Honum leist ekkert á blikuna. Þetta snerist augljóslega um bréfið.
– Ertu með eitthvað meira á þér vinur?, spurði tollvörðurinn þegar hann var búinn að fara í gegnum allt það sem Hannes hafði sett á borðið. Þetta voru nokkrar kvittanir, sælgætisbréf, einhverjar evrur, lítil hárgreiða og síðan húslyklarnir.
– Nei, ég.. ég.. er búinn að tæma alla vasana, sagði Hannes og leið vægast sagt mjög illa.
Tollvörðurinn þreifaði síðan á Hannesi hátt og lágt eins og venja var í vopnaleit fyrir brottför.
– Hvað er eiginlega um að vera? Hvað á það að þýða að taka strákinn svona í gegn?, spurði Andvari í ásökunartón.
Tollvörðurinn sem var nú búinn að leita af sér allan grun sneri sér til Andvara.
– Okkur grunar að strákurinn hafi borið með sér dálítið til landsins!
– Þú ætlar þó ekki að halda því fram að sonur minn sé eitthvað burðardýr? Hann Hannes er 14 ára gamall, er duglegur í skólanum og hvorki reykir né drekkur! Hann myndi aldrei, ég endurtek, aldrei taka þátt í einhverju smygli. Er það skilið?
Hannes hafði ekki séð þessa hlið á föður sínum áður og var glaður að heyra það traust sem pabbi hans bar til hans. Þessu trausti mátti hann ekki bregðast. Hann gæti ómögulega sagt frá bréfinu.
– Rólegan æsing, sagði tollvorðurinn. Það hefur enginn minnst á neitt smygl. Við vorum beðnir um að kanna hvort strákurinn hefði borið með sér eitt stykki umslag sem einhver á að hafa laumað í vasa hans á flugvellinum í Frankfurt.
– Já eruð þið að leita að umslaginu, sagði Hannes og beitti öllum þeim leikrænu tilburðum sem hann kunni. Það stakk einhver gamall kall þessu umslagi í rassvasann hjá mér þegar ég var að pissa. Ég fattaði það ekki fyrr en hann var farinn. Mér fannst þetta svo asnalegt að ég reif bréfið í tætlur og sturtaði því niður! Ég var nú að reyna að segja þér frá þessu mamma, en þú varst eitthvað svo upptekin.
Hannes undraðist hvað hann átti auðvelt með að hagræða sannleikanum. Það væri líka fáranlegt að fara að reyna að skýra málið út fyrir tollverðinum. Hannes átti náttúrulega fyrir löngu að vera búinn að segja frá þessu bréfi og nú var það of seint.
– Ég er þess vegna ekki með bréfið og ég þekki prófessor Hartmann bara ekki neitt!
Hannes áttaði sig um seinan á mistökunum sem hann hafði gert.
– Hver er prófessor Hartmann? spurði tollvörðurinn og pírði saman augunum eins og hann væri að reyna að sjá í gegnum Hannes.
– Nú, það nafn sá ég á umslaginu áður en ég henti því í klósettið. Ætli það hafi ekki verið kallinn sem stakk því í vasann hjá mér. Hann var ofsalega prófessorslegur, sagði Hannes og strauk sér um hökuna eins og hann væri að velta málinu betur fyrir sér.
– Hvað um það. Þú ert greinilega ekki með þetta bréf, sagði tollvörðurinn. Hinkriði augnarblik, ég þarf að hafa samband við Frankfurt.
Það liðu nokkrar sekúndur án þess að einhver segði neitt eftir að tollvörðurinn var farinn. Andvari var fyrstur til máls.
– Varstu ekkert smeykur þegar þú fannst þetta bréf? Langaði þig ekkert að vita hvað stóð í því? Þú hefur nú hingað til verið svo forvitinn og ég á bágt með að trúa það hafi eitthvað breyst.
– Ég hnýsist samt ekki í annarra manna bréf, svaraði Hannes móðgaður. Ég vissi líka ekki að þetta skipti svona miklu máli. Ég hélt að kallinn væri bara eitthvað ruglaður. Og bara svo þú vitir það næst pabbi, þá er ég 15 ára, ekki 14.
– Þetta er nú alls ekki líkt þér Hannes minn að æsa þig svona upp við hann pabba þinn, sagði Ingibjörg. Hann er reynar ekki vanur að skipta sér neitt af uppeldinu og þú verður nú að taka tillit til þess.
– Hvers konar vitleysa er þetta eiginlega kona? Sinni ég drengnum ekki nógu mikið? Andvari var orðinn öskuillur. Þér væri nær að reyna að hlusta á son þinn þegar hann er að tala við þig í stað þess að þræða allar búðir eins og geðsjúklingur og hugsa bara um að kaupa, kaupa og kaupa!
– Þú skalt ekki voga þér að tala svona til mín, Andvari Eggertsson! Ingibjörg talaði lágt en augnaráð hennar hefði hrætt naut á flótta. Ef það er einhver sem sinnir börnunum okkar þá er það ég! Þú lítur ekki upp frá þessari tölvudruslu þinni, hvort sem þú ert heima eða á ferðalagi.
Hannes horfði til skiptis á mömmu sína og pabba. Þau voru alls ekki vön að rífast neitt en þessi uppákoma var þeim greinilega ofviða. Hann vissi að það borgaði sig ekki að segja þeim sannleikann úr því sem komið var. Þau myndu þá nefnilega hætta að skammast hvort út í annað en láta alla reiði sína og bræði bitna á honum sjálfum.
– Ég hef nú bara aldrei upplifað annað eins! Andvari var farinn að anda örar og andlitið var orðið þrútið af reiði. Hann greip í handlegg Ingibjargar.
– Þakkaðu bara fyrir...
Í því kom jólasveinslegi tollvörðurinn aftur og bjargaði þar með málunum. Hannes var orðinn hræddur um að foreldrar hans færu einfaldlega að slást eins og smákrakkar.
– Jæja. Þið megið þá fara. Ef þið skylduð muna eitthvað sem máli skiptir þá er símanúmerið hjá mér hérna, sagði tollvörðurinn og rétti þeim nafnspjald. Ég biðst afsökunar á því að hafa tafið ykkur svona.
– Þetta er allt í lagi. Ingibjörgu var greinilega létt. Við héldum reyndar að þú værir að stoppa okkur vegna alls dótsins sem við erum að koma með heim.
Tollvörðurinn fór að skellihlæja.
– Ég var nú bara búinn að gleyma öllum „jólagjöfunum“ í júní! Fyrst þú minntist á það, þá sakar nú sennilega ekki að þið sýnið mér aðeins í pokana.

Hálftíma síðar sat fjölskyldan þögul í Nissan jeppanum og stefndi í átt til höfuðborgarinnar. Enginn hafði mælt orð af vör frá því þau settust í bílinn. Þessi „vöruskoðun“ í tollinum hafði kostað sitt. Þau voru auðvitað með miklu meira en 3ja manna fjölskylda má flytja með sér inn í landið. Tollvörðurinn góðlegi hafði látið þau borga skatt af þeirri upphæð sem var yfir því sem leyfilegt var en sem betur fer hafði hann sleppt þeim við að borga sekt.
– Það er ekki nóg með að þú hlustir ekki þegar við þig er talað, heldur þarftu endilega að opna munninn þegar hann ætti helst að vera lokaður!
Andvara var ekki alveg runnin reiðin en æsingurinn var farinn úr röddinni og hann var ekki eins rauður í framan og hann hafði verið nokkru áður.
– Æi láttu ekki svona elskan, sagði Ingibjörg brosandi. Þetta voru samt sem áður góð kaup allt saman, jafnvel þó við höfum þurft að borga einhvern smá toll. Við höfum nú alveg efni á þessu.
Ingibjörg opnaði hanskahólfið og tók út geisladisk með Stuðmönnum. Hún setti hann hann í tækið og fyrr en varði glumdi tónlistin í bílnum.
– Þarf þetta endilega að vera svona hátt, kallaði Andvari.
Ingibjörg lækkaði strax í Stuðmönnum.
– Elskan mín ertu eitthvað tens? Við erum bráðum komin heim og þá skal ég láta renna í heitt bað handa þér. Þá líður úr þér þetta stress.
Stuðmenn sungu um haustið sjötíu og fimm og Andvari greip þéttingsfast en þó blíðlega um hönd konu sinnar.
– Imba mín, ég ætlaði nú ekkert að æsa mig þarna áðan. Þú verður að fyrirgefa mér. Þetta atvik í tollinum sló mig alveg út af laginu.
Hannes hélt niðri í sér andanum. Hann hafði verið að hugsa um Sabine en hafði alveg gleymt vandræðunum sem hann var kominn í út af bréfinu. Hann yrði að hafa samband við hana við fyrsta tækifæri. Hannes kveikti á farsímanum sínum og sló inn leyninúmerið. Eftir örskamma stund birtust tvö ný skilaboð á skjánum. Annað var frá systur hans, Steinunni sem var átján ára gömul og hafði verið ein heima meðan fjölskyldan var í útlöndum.
„Hvenær lendið þið á morgun?“ stóð í skeytinu. Hannes skildi þetta nú ekki alveg. Voru þessi skilaboð kannski síðan daginn áður eða var systir hans eitthvað að ruglast?
Hitt skeytið var frá Sabine. Hún þakkaði fyrir samveruna í flugvélinni og vonaðist til að heyra frá honum hið fyrsta. Hannes skrifaði henni strax til baka en minntist ekkert á uppákomuna í tollinum. Hann sagðist hins vegar ætla að hringja í hana síðar.
– Hvaða stelpu varstu að spjalla við á leiðinni?, spurði Ingibjörg allt í einu eins og hún hefði lesið hugsanir sonar síns.
– Hún heitir Sabine og er hálf íslensk og hálf þýsk, svaraði Hannes. Pabbi hennar er rithöfundur, kannski vitið þið hver hann er.
– Hvað heitir maðurinn?, spurði Andvari
– Hann heitir Einar, Einar Þór Agnarsson minnir mig.
Andvari rikkti Nissan-jeppann út í kantinn og snarhemlaði. Síðan sneri hann sér að Hannesi og sagði kuldalega:
– Þú talar aldrei við þessa stúlku aftur!
Í bakgrunni sungu Stuðmenn um íslenska karlmenn sem væru sko alls engar gungur.

(birta/fela)

5. Kafli
– Á ég að trúa þessari vitleysu?
Bernhard leit vantrúaður á prófessor Hartmann.
– Þú ert bara ekki með öllum mjalla! Ætlastu virkilega til að ég trúi því að þú hafi stungið bréfinu í vasann hjá einhverjum ljóshærðum unglingi sem var að pissa?
– Ég myndi ekki ljúga að þér, Bernhard, sagði Helmut Hartmann skömmustulegur á svipinn. Það veistu. Ég er kannski farinn að kalka og auðvitað átti ég að láta bréfið eiga sig en ég er ekki lygari. Strákurinn tók ekkert eftir þessu. Hann var íslenskur og greinilega á heimleið.
Allt í einu var eins og Bernhard hefði fengið hugmynd.
– Við verðum að láta stöðva drenginn þegar hann kemur til Íslands, sagði hann og sneri sér að Andreasi lögreglumanni. Getið þér farið með okkur á skrifstofu aðaltollstjórans hér á flugvellingum?
Nokkrum mínútum síðar gengu þremenningarnir inn á tollstöðina í aðalbyggingu flugvallarsins í Frankfurt. Andreas fylgdi Bernhard og prófessor Hartmann beint að dyrum tollstjórans.
– Kærar þakkir. Ég þarfnast yðar ekki lengur, sagði Bernhard og brosti kurteisislega til Andreasar. Síðan bankaði hann síðan létt á hurðina.
– Þér bjargið yður áræðanlega. Prófessorinn lítur ekki út fyrir að vera neinn glæpamaður, sagði Andreas brosandi og blikkaði síðan til Helmuts áður en hann gekk í burtu.
Hurðin á skrifstofu tollstjórans opnaðist og ungur maður vísaði þeim inn. Handan við stórt skrifborð sat ljóshærð kona á fertugsaldri og talaði í síma.
– Gæti ég fengið að tala við aðaltollstjórann, spurði Bernhard vingjarnlega þegar konan hafði lokið símtalinu.
– Hermine Wieland, sagði konan og brosti til Bernhards. Ég er aðaltollstjóri flugvallarins. Hvað get ég gert fyrir yður?
Bernhard stóð kyrr í smástund eins og hann hefði verið tekinn úr sambandi.
– Afsakið, ég vissi ekki að tollstjórinn væri kona, sagði hann loks og sá strax eftir þessum heimskulegu ummælum.
– Þér eruð ekki sá fyrsti, sagði Hermine Wieland og brosti enn til Bernhards en ekki eins hlýlega og áður.
Hvaða erindi eigið þér við mig?
Bernhard dró fram pappíra og rétti tollstjóranum. Síðan skýrði hann stuttlega frá erindi sínu og lýsti því hvernig þessi ungi Íslendingur væri viðriðinn málið.
– Við verðum að láta stöðva drenginn þegar flugvélin lendir, sagði hann loks.
– Það er nú hægara sagt en gert. Lögsagnarumdæmi Þýskalands nær auðvitað ekki alla leið til þessarar litlu eyju úti á Atlandshafi. Við erum hins vegar í góðu samstarfi við tollyfirvöld á flugvellinum í Keflavík. Stundum eru grunsamlegir farþegar á ferðalagi milli landanna og þá er gott skiptast á upplýsingum.
Hermine leit á úrið á hendi sér.
– Bíðið augnarblik. Ég ætla að sjá hvað ég get gert, sagði hún og gekk síðan hröðum skrefum út úr skrifstofunni og skildi Helmut og Bernhard eina eftir.
– Strákurinn veit auðvitað ekkert um þetta allt saman. Það má ekki koma honum í einhver vandræði út af þessum elliglöpum í mér, sagði Helmut. Hann var sestur við lítið borð sem stóð fyrir miðri skrifstofunni og virtist miður sín yfir öllu saman
– Auðvitað verður þetta ekkert mál fyrir strákinn, sagði Bernhard. Hann lætur tollaverðina hafa bréfið og þá er málið leyst. Hann verður kannski dálítið undrandi en þetta er of flókið mál til þess að vera með einhverjar útskýringar.
Bernhard var líka sestur og spurði nú Helmut
– En af hverju varstu á leiðinni til Íslands með bréfið?
– Ja, það er nú saga að segja frá því. Ég hef oft komið til Íslands eins og þú veist og tala meira að segja örlitla íslensku.
– Þú ert nú ekki einn fremsti prófessor í germönskum fræðum í Þýskalandi fyrir ekki neitt!, sagði Bernhard glaðlega, klappaði prófessornum á öxlina og leit beint í augu hans.
– En hvað varstu að gera með ÞETTA bréf með þér, hélt hann áfram. Ég næ bara ekki samhenginu. ÞETTA bréf hefur ekkert með Ísland að gera. Ef ég þekkti þig ekki svona vel myndi ég halda að þú hefðir ætlað að reynda að selja bréfið.
Bernhard var allur að æsast á nýjan leik.
– Og af hverju reyndirðu að smygla því til Íslands, jafnvel þó þú sjálfur kæmist ekki með?
– Þetta byrjaði nú allt saman áður en þú fæddist vinur minn, ég var nýorðinn.......
Hurðin á skrifstofunni opnaðist og Hermine Wieland kom askvaðandi inn.
– Hér er útprentun af farþegalistanum, sagði hún. Við höfum ekki langan tíma. Vélin lendir bráðum í Keflavík.“
– Látum okkur sjá, sagði Bernhard. Hann setti gleraugun upp á ennið og rýndi í listann. Eftir stutta stund leit hann upp.
– Ég er búinn að finna drenginn. Það eru bara tveir farþegar á þessu reki með vélinni og annar er kvenkyns. Okkar maður heitir Andvarason. Hannes Andvarason.
Bernhard brosti rogginn til Helmuts og Hermine og sagði síðan.
– Hann er áræðanlega á ferð með mömmu sinni eða pabba. Við skulum finna þau líka, sagði hann og leit aftur yfir listann.
– Nei þau eru ekki með. Það er bara einn Andvarason í flugvélinni!
Nú brostu hins vegar bæði Helmut og Hermine.
– Má ég kíkja á listann aftur, sagði Hermine. Hún var fljót að finna það sem hún var að leita að.
– Pabbi hans er sennilega með í vélinni. Ég er búinn að finna einn Andvara!
– Nú er ég ekki alveg með á nótunum!, sagði Bernhard og leit undrandi á Hermine.
– Íslendingar notast ekki við fjölskyldunöfn eins og flestar aðrar þjóðir, sagði Helmut, heldur bera þeir fyrsta nafn föður síns sem fjölskyldunafn og stundum nú til dags jafnvel fyrsta nafn móður sinnar. Hannes þessi heitir ekki bara Hannes Andvarason heldur er hann líka sonur Andvara.
– Ég hef samband við þá strax í Keflavík, sagði Hermine og var aftur horfin fram.
Bernhard var sestur á nýjan leik.
– Þetta er nú meiri vitleysan. Einhver strákhvolpur frá Íslandi, sem hefur ekki einu sinna sama nafn og faðir sinn, situr á bréfi án þess að vita af því, sem er að minnsta kosti tvö hundruð og fimmtíu þúsund evru virði. Allt bara vegna þess að eitthvert gamalmenni laumaði því í rassvasann hjá honum á almenningssalerni án þess að nokkur tæki eftir því!
Berhard hélt um höfuð sér.
– Ég vona bara að bréfið sé ósnert og ekki skemmt! Tvö hundruð og fimmtíu þúsund evrur!
– Bernhard minn, sagði Helmut í hálfum hljóðum. Bernhard minn, peningar eru ekki allt!

(birta/fela)

This page is powered by Blogger. Isn't yours?